Umsókn um fæðingarorlof í gegnum Ísland.is
15. desember 2021
Umsókn um fæðingarorlof hefur síðustu tvö ár verið í vinnslu í samstafri við Vinnumálastofnun. Þar sækja verðandi foreldrar um fæðingarorlof eða fæðingarstyrk ásamt viðbótarréttindum eigi það við.
Til þess að fækka skrefum í ferlinu og einfalda það til muna, þannig að notendaupplifun verði sem best og úrvinnsla umsókna verði sem hagkvæmust, verður til ein umsókn sem inniheldur allar upplýsingar sem skila þarf inn fyrir umsókn um fæðingarorlof.
Í grunninn er fæðingarorlofið sem slíkt ekki flókið. En umsóknarferlið felur í sér samspil ótengdra og ólíkra kerfa, mismunandi réttinda umsækjenda, mismunandi tilhögun umsækjenda, samþykkis ytri aðila í ferlinu og beiðnir um frekari gögn eftir að umsókn hefur verið skilað inn. Að einfalda slíkt kerfi hefur reynst erfitt en stöðugar ítranir og umbætur gera okkur kleift að komast nær takmarkinu og sér nú fyrir endann á fyrsta fasa verkefnisins sem þekur yfir 90% umsækjenda.
Mikill tímasparnaður og hagræðing, bæði fyrir umsækjendur og úrvinnsluaðila. Öll gögn umsóknar verða á einum stað í stað þess að vera á 4-5 eyðublöðum, auk viðbótargagna í tölvupóstum eins og raunin er í dag. Samskipti allra aðila í gegnum island.is, óháð því hvaðan gögn koma eða fara. Upplifun verðandi foreldra verður betri og úrvinnslan einfaldari.
Þróunarteymið Aranja vinnur að verkefninu í samstarfi við Vinnumálastofnun og Stafrænt Ísland.