Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Styrkir úr Samstarfssjóði við atvinnulíf um heimsmarkmið SÞ

27. október 2020

Vikulega bætast við umsóknir og þjónustur stofnana á Ísland.is og er umsókn úr samstarfssjóði eitt slíkt.

Styrkur úr Samstarfssjóði

Samstarfssjóður veitir styrki til einstaklingsfyrirtækja, félaga og sjálfseignarstofnana. Styrkupphæð er að hámarki 200.000 evrur til hvers einstaks verkefnis yfir þriggja ára tímabil. Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki og næsta umsóknarferli er áætlað í lok október 2020. Umsóknarfrestur er 6 vikur frá upphafsdegi umsóknarferils. Hægt er að skrá sig á póstlista á vef Stjórnarráðsins.

Upplýsingar og umsókn um styrk er að finna hér á Ísland.is. Umsókn um styrk.

Allar frekari upplýsingar, fylgiskjöl og verklagsreglur sé að finna á heimasíðu samstarfssjósins utn.is/samstarfssjodur

Hlutverk sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu. Markmiðið er að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum heims í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sérstök áhersla er lögð á atvinnusköpun kvenna og að verkefnin hafi jákvæð umhverfisáhrif.

Veitt verða framlög til samstarfsverkefna er koma til framkvæmdar í lágtekju- og lág millitekjuríkjum auk há millitekju smáeyþróunarríkja sem eru á lista Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) um viðtökulönd opinberrar þróunaraðstoðar fyrir árið 2020. Listi yfir gjaldgeng samstarfslönd er að finna á heimasíðu samstarfssjóðsins. 

Við mat á umsóknum verður stuðst við viðeigandi matsform sem er að finna á heimasíðu samstarfssjóðsins.

Styrkhæfir aðilar

Styrkveitingar úr sjóðnum eru takmarkaðar við atvinnulíf og umsækjendur geta einvörðungu verið opinberlega skráð fyrirtæki sem ekki teljast ríkisaðilar, til að mynda einstaklingsfyrirtæki, félög og sjálfseignarstofnanir.

Helstu skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að teljast styrkhæfur:

  • fyrirtæki skulu hafa starfað í a.m.k. eitt ár

  • staðfesting fyrirtækjaskrár um löglega skráningu fyrirtækis

  • ársreikningur staðfestur af löggildum endurskoðanda

  • staðfest gögn um að fyrirtæki sé í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur

  • stefna varðandi samfélagslega ábyrgð og/eða siðareglur

  • reynsla og kunnátta við framkvæmd sambærilegra verkefna, einkum í þróunarlöndum

Umsækjendur þurfa uppfylla þær kröfur um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu sem Ríkisendurskoðun gerir.

Hvernig er sótt um styrk

Vísað er í reglur utanríkisráðuneytisins um úthlutun á styrkjum úr Samstarfssjóði við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Umsókn skal send til utanríkisráðuneytisins í gegnum miðlæga þjónustugátt hins opinbera island.is/samstarfssjodur. Umsóknarkerfið krefst rafrænnar auðkenningar með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Í umsókn skal umsækjandi meðal annars lýsa með greinargóðum hætti:

  • markmiðum verkefnis sem liggur til grundvallar umsókn

  • áætlun um framkvæmd þess

  • tíma- og kostnaðaráætlun

  • mat á áhrifum verkefnisins.

Allar frekari upplýsingar, fylgiskjöl og verklagsreglur sé að finna á heimasíðu samstarfssjósins utn.is/samstarfssjodur