Stafrænt skilavottorð ökutækja
19. mars 2021
Fjöldi stafrænna umsókna og ferla bætist reglulega við á Ísland.is. Mörg þeirra láta lítið yfir sér en snerta á ótal ferlum og einfalda líf fjölda einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Eitt þeirra er stafrænt skilavottorð ökutækja.
Ný þjónusta hefur bæst við á Ísland.is sem snýr að meðhöndlun úr sér genginna ökutækja og felur í sér einfalt stafrænt skilavottorð. Ferlið er nú allt orðið sjálfvirkt en krafðist þess áður að eigendur ökutækis þurftu að fara milli staða með pappír og stofnanir voru að senda gögn með tölvupóstum. Nú er þetta gert með einni heimsókn og ferlið sjálfvirkt eftir það.
Eigandi skilar ökutæki til móttökustöðvar.
Móttökustöð staðfestir móttöku ökutækis.
Ökutæki er afskráð sjálfkrafa í ökutækjaskrá Samgöngustofu
Fjársýslan endurgreiðir skilagjaldið til eiganda
„Margt smátt gerir eitt stórt en stafrænt skilavottorð vegna meðhöndlunar á úr sér gengnum ökutækjum er aðeins byrjunin. Allt sem krefst sérstaks utan umhalds við meðhöndlun, endurvinnslu og förgun eins og bifhjól, tjaldvagnar, rafmagnsbílar svo eitthvað sé nefnt munu
fara sömu stafrænu leiðina“ segir Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri
Stafræns Íslands.
„Rafræn skil á afskráningu ökutækja eru einn liðurinn í stafrænni vegferð Samgöngustofu sem hefur það að markmiði að greiða götu borgaranna og spara tíma. Við hrintum verkefninu af stað fyrir stuttu síðan og það er afar ánægjulegt hversu vel samstarfið hefur gengið“, segir Harpa Þuríður Böðvarsdóttir framkvæmdastjóri umferðar og þjónustu hjá
Samgöngustofu.
„Þetta mjög gott mál fyrir viðskiptavinin að geta á gengið frá þessu á Ísland.is og við gengið frá rafrænni endurgreiðslu sem hægt er að sjá á fjármál á Ísland.is.“ segir Vilhjálmur Örn Sigurhjartarson forstöðumaður Fjársýslu ríkisins.
“Þvílík breyting! Þessi rafræna lausn með skilavottorðin á eftir að létta mjög á ferlinu við að afskrá ökutæki, bæði fyrir Vöku hf. og viðskiptavininn.” Segir Reynir Þór Guðmundsson framkvæmdastjóri Vöku.
“Að fara með ökutæki til meðhöndlunar og um leið að ganga frá afskráningu þess mun bæta mjög skilvirkni og áreiðanleika innan kerfis Úrvinnslusjóðs við móttöku og endurvinnslu ökutækja” segir Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs.
Tímasparnaður er því þrefaldur hjá einstaklingi, starfsmanni fyrirtækis sem og starfsmönnum tengdra stofnanna. Umhverfisvernd er einnig töluverð bæði hvað varðar pappírsnotkun sem og útblástur frá bílferðum milli staða. Þetta er umtalsvert þar sem á bilinu 10-12 þúsund ökutækjum er komið í meðhöndlun til endurvinnslu árlega.
Móttökustöðvar eru staðsettar í flestöllum sveitarfélögum og eru jafnframt skráðar eru hjá Úrvinnslusjóði sjá um sjá meðhöndlun ökutækja. Á höfuðborgarsvæðinu eru Fura, Vaka, Hringrás og Bílapartar með móttöku á ökutækjum, einnig Netpartar í Árborg svo einhverjir séu nefndir. Öll fyrirtækin hafa nú getað hagrætt rekstrinum í kjölfarið á þessari breytingu.
Nánar um stafrænt skilavottorð á Ísland.is
Stafrænt Ísland kom að gerð skilavottorðanna ásamt Fjársýslu ríkisins, Samgöngustofu og Úrvinnslusjóði.