Stafræna spjallið, persónuvernd
28. janúar 2022
Stafræn umbreyting kemur sífellt oftar upp í umræðunni en hvað þýðir það eiginlega og hvaða áhrif hefur þetta á daglegt líf á Íslandi?
Í Stafræna spjallinu stefnum að því að taka nokkur málefni fyrir og velta upp spurningum sem koma oft upp í almennri umræðu með það að markmiði að leiðbeina og koma hlutunum á mannamál ef svo má að orði komast.
Hið stafræna snýst nefnilega eins og flest annað um fólk og því ekkert mikilvægara en að fólk skilji og treysti stafrænni þjónustu. Það mun leiða til þess að einfalda líf okkar allra sem og
opna augu okkar fyrir þeim tækifærum sem felast í stafrænni umbreytingu þegar kemur að lífi og starfi okkar allra… og þá á alveg eftir að fara yfir jákvæðu umhverfisáhrifin.
Í tilefni af alþjóðlegum degi persónuverndar tileinkum við fyrsta þættinum persónuvernd. Til að svara ýmsum vangaveltum tengdum persónuvernd eru þau Atli Stefán Yngvason og Vigdís Eva Líndal mætt í Stafræna spjallið.
Atli Stefán Yngvason er frá upplýsingatæknifyrirtækinu Koala og Vigdís Eva Líndal sviðsstjóri erlends samstarfs og fræðslu hjá Persónuvernd.
Stafrænt Ísland stendur fyrir Stafræna spjallinu og tekur ábendingum og tillögum að umræðuefni fagnandi á island@island.is.