Samið um sameiginlegra innritunargátt háskólanna
31. janúar 2023
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirrituðu samninginn rafrænt.
Sameiginleg innritunargátt háskólanna er framsækið verkefni á sviði upplýsingatækni á háskólastigi en háskólaráðherra lagði minnisblað þess efnis fyrir ríkisstjórn í ágúst sl. Innritunargáttin felur í sér að í stað þess að sótt sé um nám á vefsíðu hvers háskóla fyrir sig þá sæki nemendur um í gegnum Ísland.is. Samráð hefur verið haft við rektora allra háskólanna frá upphafi sem eru jákvæðir gagnvart verkefninu.
Bætt þjónusta við nemendur og aukin yfirsýn stjórnvalda
Samningurinn sem undirritaður var í dag felur í sér samstarf samningsaðila um þróun upplýsingakerfis til notkunar af öllum sem hyggja á háskólanám sem og af opinberum háskólum og öðrum háskólum sem eru með gildandi þjónustusamning við stjórnvöld. Kerfinu fylgja aukin tækifæri til bættrar þjónustu við nemendur og umsækjendur um nám sem birtist m.a. í ítarlegri upplýsingum um námsframboð, innritunarkröfur, skipulag náms og námsfyrirkomulag. Þá fylgir kerfinu einnig ábati fyrir stjórnvöld sem fá bætta sýn yfir umsóknir nemenda sem m.a. nýtist við stefnumótun og við undirbúning fjárlagagerðar hverju sinni.
Áætlað er að fyrsta útgáfa af kerfinu verði tekið í notkun fyrir skólaárið sem hefst haustið 2024.
Samstarfsverkefni Stafræns Íslands og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis
Stafrænt Ísland tekur með samningnum að sér umsjón með vinnu við þróun kerfisins þar með talið hönnun, hugbúnaðargerð og verkefnastjórn. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið verður eigandi kerfisins og ber ábyrgð á virkni og eiginleikum þess sem og samskiptum við háskólana og aðra notendur kerfisins. Stýrihópur með fulltrúum samningsaðila verður settur á laggir og hefur það hlutverk að tryggja framgang verkefnisins
Frétt á vef Stjjórnarráðs Íslands