Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Opnað fyrir sölu á íbúðarhúsnæði í Grindavík

8. mars 2024

Opnað hefur verið fyrir umsókn um kaup íbúðarhúsnæðis fyrir einstaklinga sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík.

grindavik

Íbúar í Grindavík sem óska eftir því að selja ríkissjóði íbúðarhúsnæði sitt í gegnum Fasteignafélagið Þórkötlu, samkvæmt nýsamþykktum lögum Alþingis, geta nú fyllt út umsókn á Ísland.is.

Gert er ráð fyrir að vinnsla umsókna taki um 2-4 vikur, með fyrirvara um fjölda umsókna og umfang við vinnslu þeirra, sem gera má ráð fyrir að verði mismunandi eftir eignum. Eigendur um 900 íbúða í Grindavík geta nýtt sér úrræðið.

Rúmur tími verður gefinn til þess að sækja um að selja íbúðarhúsnæði, eða til áramóta.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur jafnframt undirritað samkomulag við helstu lánveitendur húsnæðislána í Grindavík um yfirtöku áhvílandi lána á því húsnæði sem keypt verður af íbúum Grindavíkur og endurfjármögnun þeirra í samræmi við samkomulagið.

Þetta er stór áfangi og það er gleðilegt að lög um kaup íbúðarhúsnæðis Grindvíkinga séu komin til framkvæmda. Ætlunin var alltaf að gera Grindvíkingum kleift að ráða örlögum sínum sjálfir og opnun umsóknarferilsins er stór áfangi í því.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra

Þau sem ekki geta nýtt sér stafræna umsókn er bent á að hafa samband í gegnum samskiptaform en haft verður sambandi við fólk í framhaldinu.

Umsókn um sölu íbúða í Grindavík á Ísland.is

Nánari upplýsingar um ferlið á Ísland.is.