Ísland.is vinnur til UT-verðlauna
2. febrúar 2024
Ísland.is hlaut á föstudag UT-verðlaunin 2024 í flokknum UT-Stafræna opinbera þjónustan fyrir síðastliðið ár. Verðlaunin voru veitt á UT-messunni, einum stærsta viðburðir ársins í tölvugeiranum.
UT-verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Skýrslutæknifélag Íslands (Ský) veitir verðlaunin, en þau hafa verið veitt árlega frá árinu 2010. Miðeind hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni. Að auki voru verðlaun veitt í fimm flokkum:
Ísland.is hlaut sem fyrr segir verðlaun sem UT-Stafræna opinbera þjónustan.
Stafræn framþróun Landspítalans var valið UT-Fyrirtækið.
Indó hlaut verðlaun sem UT-Sprotinn.
DALA.CARE hlaut verðlaun sem UT-Stafræna almenna þjónustan
ALDA var valin UT-Fjölbreytilega fyrirmyndin
Árangur Ísland.is er til vitnis um hversu framúrskarandi Ísland er þegar kemur að stafvæðingu hins opinbera. Lykillinn er að bæta þjónustu við þá sem búa og starfa á Íslandi sem Ísland.is hefur svo sannarlega gert. Það hefur, og mun áfram, hjálpa okkur að auka framleiðni og hagræða í ríkisrekstrinum. Sú hæfni og kraftur sem er að finna hjá þeim teymum sem koma að verkefninu er til mikillar fyrirmyndar. Ég er stolt af mínu fólki og því að erlendis er horft til þess árangurs sem hér hefur unnist.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra
Í umsögn vegna tilnefningarinnar segir m.a. að einfaldleiki og gott aðgengi einkenni Ísland.is þrátt fyrir flókið samspil fjölda opinberra aðila bæði efnislega og tæknilega. „Yfir 250 manns standa að baki Ísland.is samfélaginu og miðla til verkefnisins en slíkt krefst mikils aga til að allir vinni að sama markmiði. Fjöldamörg verkefni verið unnin hjá Sýslumönnum s.s. rafrænar þinglýsingar, forskráning vegabréfa, stafræn dánarbú o.fl. Þessi vinna skilar sér í aukinni skilvirkni og þjónustu. Þá hafa 25 stofnanir og opinber verkefni flutt vefi sína á Ísland.is og annar eins fjöldi þegar hafið innleiðingu. Að baki Ísland.is er sömuleiðis að finna umsóknarkerfi sem talar við Mínar síður og Ísland.is appið, þjónustusíður sem styðja við algegnar spurningar notanda, spjallmenni sem leysir úr fyrirspurnum notanda. Ísland.is kemur fólki beint að efninu og sífellt fleiri opinberar þjónustur er hægt að klára að fullu í sjálfsafgreiðslu,“ segir í umsögninni.
Ísland.is hefur að markmiði að einfalda líf fólks og auðvelda því að sækja stafræna þjónustu hins opinbera á einum stað. Aðsókn á vefinn hefur aukist jafnt og þétt sem er í dag með um 1,5 milljón flettingar á mánuði að meðaltali.
Vefurinn er meðal kjarnaþjónusta Stafræns Íslands sem hefur það hlutverk að styðja stafræna vegferð opinberra aðila. Stafrænt Ísland er hluti af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og starfar samkvæmt stafrænni stefnu hins opinbera.
Nánari upplýsingar um verðlaunin má lesa á vef SKÝ.