Ísland á svið með stærstu þjóðum heims
24. mars 2023
Ísland steig á svið ásamt Bretlandi, Bandaríkjunum, Eistlandi og Þýskalandi á alþjóðlegri ráðstefnu sem fór fram í London í vikunni.
Á Global Government Forum Innovation koma saman stafrænir leiðtogar, forstöðumenn og ráðuneytisstjórar alls staðar að úr heiminum og deila reynslu þjóða sinna. Í ár fór ráðstefnan fram í hinu glæsilega Central Hall Westminister í London þar sem um 50 manns stigu á stokk og miðluðu reynslu sinni til um þúsund ráðstefnugesta.
Meðal málefna voru nýsköpun í ríkisrekstri, stefnumótun, stafræn umbreyting, opinber innkaup, gervigreind, aðgengismál, styrking mannauðs, opinber gögn og netöryggi.
Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands steig á svið ásamt Megan Lee Devlin, forstöðumanni Central Digital and Data Office í Bretlandi, Clare Martorana sem fer fyrir upplýsinga og netöryggismálum fyrir Bandaríkjaforseta, Luukas Ilves stafrænn leiðtogi Eistlands, Mark Palmer aðstoðarframkvæmdastjóri VISA Government Solutions og Christina Lang stafrænum leiðtoga Þýskalands.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:
Ísland hefur á undanförnum árum skipað sér í hóp með fremstu þjóðum heims í stafrænni þjónustu hins opinbera. Aðrar þjóðir hafa í auknum mæli horft til Íslands sem fyrirmyndar og það er því frábært að fá tækifæri til að deila okkar aðferðarfræði ásamt því að læra af öðrum þjóðum sem einnig hafa náð góðum árangri. Fyrir litla þjóð eins og Ísland er mikilvægt að eyða ekki orkunni í að finna upp hjólið heldur byggja ofan á það sem vel er gert í nágrannaþjóðum okkar með tækniþróun og nýsköpun að leiðarljósi fyrir íslenskt samfélag.
Global Government Forum Innovation er árleg ráðstefna haldin af Global Government Forum í samtstarfi við stofnanir og ráðuneyti bresku ríkisstjórnarinnar. Eftirtaldir aðilar standa að ráðstefnunni: HM Government, Cabinet Office, Civil Service, Government Digital Services.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna Global Government Forum Innovation: