Hvað er Stafrænt pósthólf Ísland.is og fyrir hvern?
7. desember 2022
Stafrænt pósthólf Ísland.is er umræðuefni þriðja þáttar Stafræna spjallsins.
Í Stafræna spjallinu ræðum við stafræna umbreytingu á mannamáli og förum yfir praktísk atriði sem gagnast fólki í lífi og starfi. Markmiðið er að auka skilning og opna augu okkar fyrir þeim tækifærum sem leynast í stafrænni þróun. Hið stafræna snýst nefnilega um fólk og því ekkert mikilvægara en að fólk skilji og treysti stafrænni þjónustu.
Í þessum þriðja þætti Stafræna spjallsins snýst spjallið um Stafrænt pósthólf Ísland.is, en um mitt ár 2021 tóku gildi lög sem eru þau fyrstu hér á landi sem snúa beint að stafrænni þjónustu. Markmið laganna er að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og fyrirtækja. Jafnframt er það markmið laganna að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og fyrritækja verði stafræn og miðlæg á einum stað.
Gestir Stafræna spjallsins að þessu sinni eru þau Hólmfríður Sigríður Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Stafrænu Íslandi, Ragnhildur Helga Ragnarsdóttir vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi og
Vilhjálmur Örn Sigurhjartarson forstöðumaður fjárreiðusviðs Fjársýslu ríkisins. Spyrill er Vigdís Jóhannsdóttir markaðsstjóri Stafræns Íslands.