Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Fréttabréf janúar 2023

24. janúar 2023

Fréttabréf Stafræns Íslands janúar 2023.

Vetrarmynd (mobile)

Horft um öxl

Í daglegu amstri missum við oft sjónar á stóru myndinni og hversu miklu við áorkum. Það er því mikilvægt að staldra við af og til og líta um öxl. Áramót eru frábær til þess en þema ársins 2022 einkenndist af því að fullmóta þær stafrænu kjarnaþjónustur sem standa opinberum aðilum til boða hjá Stafrænu Íslandi. 

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar við lítum um öxl og ómögulegt að telja allt upp. Sum verkefnin fengu mikla umfjöllun á meðan önnur voru ósýnileg notendum en engu að síður mjög mikilvæg. 

  • Ísland komst í fremstu röð þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu bæði í Evrópukeppninni (Egov - 4.sæti) og heimsmeistarakeppninni (eGDI - 5.sæti). Við eigum mikið inni og munum sækja fast á toppinn á komandi árum.

  • 70% notenda eru ánægð með Ísland.is sem segir okkur að við séum á réttri leið. Ánægja notenda skiptir öllu máli enda er Ísland.is fyrir okkur öll sem búum og störfum á Íslandi.

  • Ráðstefnan Tengjum ríkið var haldið í 3ja sinn og var vel tekið. Alls sóttu um 400 manns ráðstefnuna og yfir 1000 manns fylgdust með í streymi.

  • Ný innskráningarþjónusta Ísland.is var innleidd hjá fjölda stofnana en hún inniheldur nýtt umboðskerfi og er bæði hraðvirkari og öruggari en sú sem fyrir var.

  • Nýjar Mínar síður Ísland.is juku til muna þau gögn og þjónustuferla sem eru nú aðgengilegir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

  • Stórir áfangar náðust í rafrænum þinglýsingum En eins og áður sagði þá er þetta aðeins brotabrot af verkefnum 2022.

Árið í tölum: 

  • Fjöldi flettinga á Ísland.is fór yfir 10 milljónir en aukningin er 78% milli ára. 

  • 6 stofnanir fluttu vef sinn og eru nú hluti af Ísland.is. Það eru Sjúkratryggingar, Ríkislögmaður, Landskjörstjórn, Útlendingastofnun, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Fiskistofa en fyrir voru sýslumenn.

  • 2 verkefnavefir opnuðu á Ísland.is. Það eru Mannauðstorg ríkisins og Opinber nýsköpun.

  • Innleiðingaráætlun Stafræns pósthólfs er komin á fullt en undir lok árs tengdust 3 stofnanir pósthólfinu. Það eru UTU og HMS. Allir opinberir aðilar verða tengdir í byrjun árs 2025.

  • 83% umsókna um fæðingarorlof er stafræn en nú hefur 94% umsækjenda kost á að sækja um stafrænt.

  • 65 þúsund manns sóttu Ísland.is appið árið 2022.

  • 3 ný stafræn skírteini bættust í Ísland.is appið. ADR réttindi, vinnuvélaréttindi, skotvopnaleyfi og byssueign. Fyrir var stafræna ökuskírteinið.

  • Yfir þúsund umsóknarferli eru komin á Ísland.is.

  • Allar grunnskrár ríkisins er að finna í Straumnum (X-Road).

  • Rúmlega 74 þúsund skjölum var þinglýst rafrænt  árið 2022 og yfir 9 þúsund veðskjölum.

Þema ársins 2023 hjá stafænu Íslandi er áframhaldandi þróun og innleiðing stafrænna lausna. Á verkefnaborði ársins er fjöldi verkefna sem mun einfalda líf fólksins í landinu og ljóst að það verður gaman að líta um öxl að ári.


Dánartilkynningar rafrænar 

Sýslumenn taka nú á móti dánartilkynningum rafrænt. Þá geta aðstandendur tilkynnt um andlát rafrænt og þurfa því ekki að mæta til sýslumanna með dánarvottorð. Skattframtöl sendast sömuleiðis sjálfkrafa til sýslumanna í kjölfar rafrænnar tilkynningar. Unnið er að fleiri stafrænum ferlum sem munu létta undir með aðstandendum látinna ástvina.

Frétt um dánarbúsmál


Vegabréfsupplýsingar á Mínum síðum Ísland.is

Aukin þægindi við að nálgast vegabréfsupplýsingar. Nú getur þú séð upplýsingar um vegabréfið þitt og barna í þinni forsjá undir skírteini á Mínum síðum á Ísland.is.

Frétt um vegabréfsupplýsingar


Stafræna spjallið - vefir stofnana 

Um áramótin höfðu 6 stofnanir flutt vef sinn á Ísland.is og um 20 væntanlegar á árinu. En hvað veldur? Í Stafræna spjallinu er leitast við að svara þeirri spurningu og fjölda annarra.

Stafræna spjallið - vefir stofnana


Meðal verkefna Stafræns Íslands:

  • Adminkerfi fyrir stofnanir

  • Ákvöðun um skipti dánarbús

  • Beiðni um könnun hjónavígsluskilyrða

  • Birting ökutækja og fasteigna í Ísland.is appinu

  • Birting á lögmannaskrá á Ísland.is

  • Birting á fasteignasalaskrá á Ísland.is

  • Eigendaskipti ökutækis

  • Endurnýjun ökuréttinda

  • Greiðsluáætlun um opinber gjöld fyrir fyrirtæki

  • Mínar síður: Námsferilsyfirlit brautskráðra frá Háskóla Íslands

  • Panta skráningarnúmer ökutækis

  • Rafræn erfðafjárskýrsla

  • Rafræn skil á ársreikningum til Ríksendurskoðunar

  • Rafræn þinglýsinga á afsali fasteigna

  • Rafræn þinglýsing á kaupsamningum fasteigna

  • Skráning leiðbeinanda fyrir æfingaakstur

  • Stafræn umsókn um fæðingarorlof: Ættleiðing og varanlegt fóstur

  • Stafrænt örorkuskírteini

  • Stafræn umsókn um vegabréf

  • Umboðskerfi - sýna sögu innskráninga

  • Umsókn um rekstarleyfi veitinga og gististaða

  • Umsókn um ökuritakort

  • Vegabréfið þitt - birting upplýsinga í appi Ísland.is

  • Vefur Landlæknis á Ísland.is

  • Vefur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Ísland.is

  • Vefur Ríkiskaupa á Ísland.is