Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Efnisstefna Ísland.is

30. september 2020

Tilgangur efnisstefnunnar er að tryggja að allir sem koma að efnisvinnu fyrir Ísland.is séu að vinna í takt til að hámarka gæði efnis og leiðakerfis fyrir notendur vefsins.

Reynslusögur

Í byrjun verkefnisins var ráðist í það metnaðarfulla verkefni að móta efnisstefnu fyrir Ísland.is. 

Á þeim tíma voru til 164 sjálfstæðar vefsíður mismunandi stofnana og 74 Mínar Síður og stóra markmiðið að sameina þær jafnt og þétt inn á Ísland.is. Það er ljóst að í svo viðamiklu verkefni þar sem margir leggja hönd á plóg er mikilvægt að vera með eina sameiginlega sýn og stefnu til að fylgja. 

Tilgangur

Tilgangur efnisstefnunnar er að tryggja að allir sem koma að efnisvinnu fyrir Ísland.is séu að vinna í takt til að hámarka gæði efnis og leiðakerfis fyrir notendur vefsins. 

Við gerð efnisstefnunnar voru skoðaðar vefstefnur og efnisstefnur íslenskra vefja og sambærilegra erlendra fyrirmynda. Út frá því var mótaður grunnur sem síðan hefur þróast og breyst í takt við reynslu og lærdóm í verkefninu. 

Efnisstefnan

Efnisstefnan snýst í dag um þau þrjú meginskilyrði sem góður upplýsingavefur þarf að uppfylla:

  1. Upplýsingarnar þurfa að vera á vefnum

    Rannsökum hvaða upplýsingar fólk þarf varðandi opinbera þjónustu? Hvað þarf fólk raunverulega að vita um til dæmis vegabréf, dánarvottorð, skilnaði og sjúkratryggingar? Markmiðið er að veita fólki upplýsingarnar sem það þarf svo það geti tekið næsta skref. Algengt er að greinum sé ætlað að svara eftirfarandi spurningum notenda: 

    - Hver er þjónustan?

    - Á ég rétt á henni?

    - Hvernig sæki ég um?

    - Hvað gerist svo?

  2. Fólk þarf að finna þær
    Góð flokkun leiðakerfis, lýsandi titlar og millifyrirsagnir hjálpa fólki að finna réttu upplýsingarnar. 

    Hafa þarf í huga að margir notendur finna efnið með hjálp leitarvéla eins og Google eða innri leit vefsins, og því þarf titill greinar að vera lýsandi og aðgreindur frá öðrum leitarniðurstöðum. 


    Stór hluti notenda reiðir sig á flokkun efnisins í leiðakerfinu. Mikilvægt er að skoða hvaða notendahópar leita að efninu og í hvaða tilgangi. Sama greinin getur átt erindi við mismunandi notendahópa sem leita að efninu á mismunandi vegu. Stöðugar mælingar, rýni og breytingar á leiðakerfinu eru nauðsynlegar eftir því sem fleiri greinar bætast þar inn.

  3. Fólk þarf að skilja þær

    Notendur vefsins eru allskonar. Ungt fólk, eldra fólk, fólk sem er að læra íslensku, fólk sem þekkir ekki íslenskt stjórnkerfi, fólk með lestrarörðugleika eða sjónskerðingar, fólk sem er undir álagi eða í tímapressu og svo framvegis. 

    Efnið á Ísland.is þarf að mæta þörfum allra þessara hópa eins vel og hægt er. Það felur meðal annars í sér að: 

    • skrifa út frá þörfum notenda

    • skrifa lýsandi fyrirsagnir

    • hafa mikilvægasta efnið efst á síðunni

    • nota sama orðaforða og fólk notar sín á milli

    • skrifa stuttar og einfaldar setningar

    • nota millifyrirsagnir og punktalista til að hjálpa fólki að skanna efnið

Samstarfsaðilar

Efnisstefnan var unnin af Stefnu ehf. í góðu samráði við Stafrænt Ísland og önnur teymi.