Bætt aðgengi fatlaðra að Stafrænu pósthólfi Ísland.is
17. nóvember 2022
Stafrænum hindrunum rutt úr vegi: Persónulegir talsmenn geta nú aðstoðað fatlað fólk við að nálgast stafræn erindi á Ísland.is.
Mikilvægt skref hefur verið tekið við að ryðja úr vegi stafrænum hindrunum hjá fötluðu fólki hér á landi. Persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geta nú komið fram fyrir hönd umbjóðenda sinna á Mínum síðum á Ísland.is og fengið aðgang að stafrænu pósthólfi þeirra en þangað berast meðal annars erindi frá opinberum aðilum. Skýrt ákall hefur verið um breytingarnar og hefur verkefnastofa um Stafrænt Ísland unnið að þeim ásamt félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, þar með talið réttindagæslumönnum fatlaðs fólks.
Þróaður hefur verið stafrænn talsmannagrunnur sem markar tímamót og gerir persónulegum talsmönnum kleift að skrá sig inn með sínum eigin rafrænu skilríkjum fyrir hönd umbjóðenda sinna og á grundvelli samnings þeirra á milli. Fyrsta þjónustan sem tekin er í gagnið er aðgangur að stafrænu pósthólfi en næsta skref er að tengja talsmannagrunninn við aðrar stofnanir þannig að talsmenn geti nálgast stafræna þjónustu fyrir hönd umbjóðenda sinna. Unnið er ötullega að þeim tengingum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
„Við eigum að gera allt sem við getum til að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk mætir í hinum stafræna heimi. Á þetta hef ég lagt ríka áherslu. Skrefið sem hér er stigið er einungis það fyrsta en það er afar mikilvægt. Lokatakmarkið er skýrt: Að tryggja að þau sem ekki geta notfært sér rafræn skilríki sjálf hafi aðgengi í gegnum persónulegan talsmann sinn.“
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:
„Það hefur verið forgangsmál hjá okkur hjá Stafrænu Íslandi að tryggja jafnt aðgengi að stafrænni þjónustu hins opinbera. Það er okkur mikið gleðiefni að tæknilausnin sé nú tilbúin og munum styðja við innleiðingu hennar af bestu getu enda er það skýr stefna hjá hinu opinbera að allir sem vilji nýta stafræna þjónustu hafi kost á því.“
Hvað þarf að gera til að virkja aðgang persónulegra talsmanna á Ísland.is?
Réttargæslumenn sjá um skráningu á námskeið og samningerð fyrir þá sem vilja gerast persónulegir talsmenn. Best er að ná tali á réttargæslumönnum með því að hringja í símaver þeirra í síma 554 8100.
Gerður er sérstakur samningur um að persónulegur talsmaður geti skráð sig inn með sínum eigin rafrænu skilríkjum fyrir hönd hins fatlaða einstaklings.
Samningurinn er gerður í samráði við réttindagæslumann fatlaðs fólks og í honum er tekið fram hvaða heimild talsmaður skal hafa og hversu lengi umboðið gildir.
Réttindagæslumaður kemur upplýsingunum að því búnu til skila inn í talsmannagrunninn og við það virkjast aðgangur talsmanns að stafrænu pósthólfi, sem er fyrsta þjónustan sem opnað hefur verið á.
Persónulegur talsmaður skráir sig inn á Mínar síður á Ísland.is. Þegar viðkomandi er kominn inn á vefinn getur hann valið á milli eigin aðgangs og aðgang þess aðila sem hann hefur umboð fyrir. Talsmaðurinn velur þann notanda sem við á hverju sinni.
Hvað er persónulegur talsmaður?
Persónulegur talsmaður er manneskja sem gætir hagsmuna einstaklings sem vegna fötlunar sinnar á erfitt með að gæta hagsmuna sinna sjálfur. Réttindagæslumaður kemur á og staðfestir samning, milli hins fatlaða einstaklings og talsmanns.
Persónulegur talsmaður hjálpar hinum fatlaða einstaklingi við að koma óskum sínum á framfæri og fylgist með því að farið sé eftir þeim.
Fyrr í haust gerði félags- og vinnumarkaðsráðuneytið þær breytingar að færa námskeið fyrir persónulega talsmenn yfir á netið og var það sömuleiðis hluti af því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir fatlað fólk. Áður höfðu langir biðlistar verið eftir námskeiðum fyrir persónulega talsmenn en þau eru skilyrði þess að viðkomandi geti orðið talsmaður. Með breytingunum fékk fjöldi fatlaðs fólks persónulega talsmenn fyrr en ella.
Verkefnið um talsmannagrunninn er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Stafræns Íslands.