Afurð tengist stafrænu pósthólfi
22. desember 2021
Nú hefur Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins, tengst stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda á Ísland.is.
Nú hefur Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins, tengst stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda á Ísland.is. Með þessari breytingu á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið nú í skriflegum samskiptum við bændur í gegnum stafrænt pósthólf en þannig er hægt að senda viðskiptavinum ráðuneytisins bréf sem annars þyrfti að senda með ábyrgðarpósti. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er fyrsta ráðuneytið sem innleiðir þessa lausn, það er stafræna pósthólfið, í samskiptum við almenning.
Ráðuneytið er í stöðugum samskiptum við bændur í tengslum við framkvæmd búvörusamninga og hefur notað vefsíðuna og tölvukerfið www.afurd.is, greiðslukerfi landbúnaðarins, í þessum tilgangi. Afurð aflar gagna frá framleiðendum í landbúnaði, tekur við rafrænum umsóknum, birtir afgreiðslu umsókna, reiknar út og gengur frá öllum stuðningsgreiðslum í landbúnaði og birtir upplýsingar í tengslum við búvörusamninga og hagtölur í landbúnaði. Mælaborð landbúnaðarins sækir upplýsingar í Afurð.
Vefurinn Afurð var samtengdur við stafrænt pósthólf stjórnvalda á Ísland.is í síðasta mánuði og hefur ANR því nú sent um 6.500 rafræn bréf í pósthólfið í tengslum við framkvæmd búvörusamninga.
Allir einstaklingar með íslenska kennitölu og lögaðilar eiga sitt stafræna pósthólf og hafa aðgang að skjölum frá opinberum stofnunum og sveitafélögum í gegnum Ísland.is. Þar eru birtar og geymdar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá Hinu opinbera til einstaklinga og fyrirtækja.
Með þessum breytingum hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, hvað snertir framkvæmd búvörusamninga, uppfyllt ákvæði í lögum nr. 105/2021 en markmið laganna er að að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og lögaðila.
Allar stofnanir ríkisins vinna nú að því að tengjast pósthófinu og hafa til ársins 2025 til að ljúka við innleiðingu þess. Það mun hafa í för með sér mikið hagræði fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem hafa þá öll gögn og samskipti við ríkið aðgengileg á einum stað.
Verkefnið var unnið af hugbúnaðarfyrirtækjunum Stefnu og Advania fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Stafrænt Ísland.
Mynd: Golli.