30 stofnanir senn flutt vefi sína á Ísland.is
10. mars 2023
Liður í því að einfalda líf fólks hér á landi og bæta stafræna þjónustu hins opinbera er aukin upplýsingagjöf og aðgengi að þjónustu gegnum Ísland.is, miðlæga upplýsinga- og þjónustugátt hins opinbera.
Að undanförnu hefur þeim stofnunum sem velja að flytja efni sitt á Ísland.is fjölgað til muna og verða þær orðnar um 30 talsins í lok þessa árs, auk þess sem nokkrir verkefnavefir hafa farið á vefinn. Vilji stofnun gerast hluti af Ísland.is getur ferlið tekið stuttan tíma, óháð því hversu margir vefir annarra stofnana eru í vinnslu á vefnum.
Markmið stofnana með flutningi vefsvæða Ísland.is er bætt þjónusta og aðgengi sem og að ná fram hagræði. Allt efni er unnið samkvæmt efnisstefnu Ísland.is og uppfært í takti við þarfir notenda. Þá eru ýmis tæknileg atriði, svo sem skalanleiki eftir tækjum, vefþula, vefþýðing og fleira innbyggt í Ísland.is og þess gætt að aðgengismál séu ávallt eins og best verður á kosið. Stofnanir sem eru með vefi á Ísland.is halda úti og uppfæra allt efni sitt og þá þjónustu sem er í boði, en rekstur tækniumhverfis er í höndum Stafræns Íslands. Þar er unnið að því að öll opinber þjónusta verði aðgengileg á Ísland.is.
Aðsókn að Ísland.is hefur aukist hratt að undanförnu. Á síðasta ári jókst hún um 78% á frá árinu áður og fór fjöldi flettinga á vefnum yfir 10 milljónir.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
Með því að sameina krafta sína á Ísland.is bæta opinberir aðilar þjónustu og upplýsingagjöf gagnvart almenningi, sem getur leitað á einn stað eftir þeirri þjónustu sem vantar. Á sama tíma næst fram mikið hagræði, sem gerir okkur kleift að nýta fjármagn með betri hætti þar sem þörf er á.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:
Við fögnum því að stofnanir sjái tækifærin í að flytja vef sinn á Ísland.is og gerast hluti af Ísland.is samfélaginu. Stofnanir eru að ná að bæta þjónustu og aðgengi. Vilji stofnun gerast hluti af Ísland.is samfélaginu tekur það mjög stuttan tíma að koma vef í loftið, en dæmi eru um að stofnun nái að endurgera vef sinn á aðeins örfáum vikum.