Efnisstefna
Efnisyfirlit
Handbók
Leiðbeiningar við textagerð og umsjón efnis fyrir greinar á Ísland.is, þjónustuvef og spjallmenni.
Ísland.is - greinar/síður
Á greinum er mælt með að setja upplýsingar fram í skipulega uppsettum texta með lýsandi millifyrirsögnum (H2, H3, H4). Það hjálpar notendum að skanna síðuna og finna það sem þeir leita að. Hafa skal mest sóttu upplýsingarnar efst á síðunni.
Notendur eiga ekki að þurfa að giska á hvort upplýsingarnar sem þeir leita að sé að finna í almennum texta eða í spurt og svarað formi annarsstaðar á síðunni.
Þjónustuvefur og spjallmenni
Á þjónustuvef má byggja upp Spurt og svarað framsetningu fyrir algengustu spurningar notanda. Það efni er svo endurnýtt fyrir spjallmenni.
Mikilvægt er að byggja ‚algengar spurningar‘ á raunspurningum frá notendum og að þær séu uppfærðar í takt við breyttar þarfir. Of algengt er að algengar spurningar séu það ekki í raun og veru, heldur efni sem einhver heldur að fólk þurfi.
Endurvísanir er leið til að láta ákveðna slóð, til dæmis /vinnuskoli2020 vísa notendum sjálfkrafa inn á nýja slóð /vinnuskoli2021
Nauðsynlegt er að gera endurvísun þegar verið er að breyta slóðum á greinum af því að:
fólk getur verið með gamla slóð vistaða hjá sér í (bookmark)
leitarvélar muna gamlar slóðir og þær geta verið að birtast ofarlega í leitarniðurstöðum
við viljum ekki að fólkið sem notar vefinn lendi á villusíðu af því að gömul slóð er ekki lengur virk - nema auðvitað að verið sé að fjarlægja grein og engin ný grein leysi hana af hólmi
Endurvísun (redirects) uppsetning
Velja Add Entry og 404 Redirects.
Í Title - er gott að gefa endurvísun lýsandi heiti.
Urls list (required) - setja inn slóðina sem á að vísa frá t.d. /vinnuskoli2020 og ýta á Enter til að staðfesta valið.
Explicit Redirect - setja inn slóðina sem á að vísa á t.d. /vinnuskoli2021
Slóð þarf ekki að innihalda lénið eins og island.is og alltaf byrja slóð sem unnið er með á skástriki.
Athugið að fyrir enska útgáfu af síðu þarf að gera sér 404 Redirect sama ferli og lýst er hér að ofan. En setja þá inn sömu ensku slóðina sem á að vísa frá á íslensku og ensku (þar sem íslenska er required).
Notum feitletrun sparlega. Óhófleg notkun leiðir til þess að notandinn á erfitt með að átta sig á hvaða hlutum efnisins hann ætti að veita athygli.
Til að leggja áherslu á orð eða setningarhluta má nota punktalista, millifyrirsagnir eða með því að hafa orðin framarlega í setningunni sem um ræðir.
Feitletrun hentar vel til dæmis þegar verið er að vísa til hluta af viðmóti vefsins.
Dæmi:
✅ Eftir innskráningu skal velja Staðfesta tölvupóstfang til að klára skráninguna.
❌ Í umsókninni þarf að koma fram nafn og kennitala umsækjanda.
Fyrirsagnir þurfa að vera lýsandi, ekki almennar.
Fólk skannar fyrirsagnir og millifyrirsagnir á greinum til að ákveða hvort það sé á réttum stað eða ekki.
Síðutitlar er það sem fólk sér í leitarniðurstöðum.
Síðutitlar eru það fyrsta sem fólk sér af efninu þínu og út frá þeim ákveður fólk hvað það gerir næst. Notum þessi stafabil skynsamlega.
Aðgerðamiðaðir síðutitlar virka oft vel
Dæmi:
✅ Sækja um húsnæðisbætur
✅ Skil á reiknuðum virðisaukaskatti
Fullyrðingar virka líka vel en forðumst að nota spurningar í fyrirsögnum. Fullyrðingar gera þér kleypt að setja lykilorðin framarlega. Spurningar byrjar alltaf á hver, hvað, hvenær, hvar, af hverju og svo framvegis, sem tekur notandann lengri tíma að skanna eftir lykilorðum.
Dæmi:
❌ Hvernig sæki ég um sakarvottorð fyrir einstaklinga?
✅ Sakarvottorð fyrir einstaklinga
Síðutitlar (H1) ættu að:
vera 65 stafir eða minna
vera lýsandi og aðgreina efni síðunnar frá öllum öðrum síðum vefsins
innihalda helstu lykilorðin framarlega í titlinum
vera án bandstrika eða skástrika
vera án punkts í lokin
Dæmi:
✅ Félagsstarf og þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara
❌ Félagsstarf og þjónustumiðstöðvar.
✅ Ættleiðing stjúpbarns undir 18 ára aldri
❌ Helstu upplýsingar fyrir umsækjendur um ættleiðingu stjúpbarns
Fólk les ekki síðuna frá byrjun til enda, það skannar í leit að svörunum sem það þarf.
Millifyrirsagnir eru áberandi og hjálpa þannig fólki að átta sig hratt á efni síðunnar.
Fólk með sjónskerðingar treystir einnig á rétta notkun á H1, H2, H3 o.s.frv. til að komast leiðar sinnar í textanum. Skjálesarar geta hoppað á milli þessara merkinga í textanum og lesið fyrirsagnir þangað til notandinn finnur rétta kaflann til að hlusta á.
Feitletrun kemur ekki í stað H-merkinga.


Fólk les ekki langa textakafla nema áhugi þeirra á efninu sé þeim mun meiri.
Það hjálpar að brjóta upp langan texta með greinarskilum.
Forðumst að skrifa orð með hástöfum.
Slík orð hafa öll einsleita rétthyrnda lögun sem gerir notendum erfiðara að þekkja þau á útlitinu, sem hægir á lestri.
Hlekkjum á lýsandi setningarhluta.
Dæmi:
✅ Nánar um skattlagningu á leigutekjur á vef Skattsins.
❌ Nánari upplýsingar hér.
Sýnum netföng í texta svo notendur geti afritað þau eða skrifað hjá sér.
Almennt séð skal forðast að vísa á persónuleg netföng fólks, heppilegra er að vísa á netfang viðkomandi stofnunar.
Ekki allir notendur eru með uppsett póstforrit í tækinu sínu. Ef netfangið er aðeins sett sem hlekkur eiga notendur erfiðara með að sjá það.
✅ Blær Blöndal, blaer.blondal@sendumerpost.is
❌ Senda póst á Blæ Blöndal
Það eru þrjár leiðir til að hlekkja á skjöl eða ferli í grein.
Dæmi:
1. Skjalið er umsókn, beiðni, tilkynning eða önnur „aðgerð“ sem greinin snýst um
Skjalið eða hlekkur á ferlið er sett efst á greinina (sem process entry í Contentful).


2. Skjalið er þungamiðja greinarinnar en þó ekki „aðgerðin'“ sem greinin snýst um
Skjalið er sett inn á áberandi hátt á réttum stað á textanum (embed asset).


3. Skjalið er ítarefni sem nýtist aðeins hluta notenda
Skjalið er sett inn sem hlekkur í texta (link asset).


Þegar vísað er í nafn vefsins er skrifað Ísland.is, með stórum upphafsstaf.
Heiti vefsins er ekki „beygt“.
Fyrir flesta er bæði flókið og seinlegt að lesa lagamál. Þegar vísa þarf í lög skulum við reyna að umskrifa upplýsingarnar í einfaldara mál, með orðaforða sem fólk notar.
Setjum hlekk á lagasafnið þar sem við teljum það nauðsynlegt en verum samt minnug þess að notandinn kemur inn á vefinn til að leita að réttum upplýsingum, ekki til að finna heimildir fyrir því að upplýsingarnar séu réttar.
Dæmi:
Getir þú ekki nýtt lögmæt réttindi þín vegna háttsemi annars aðila getur þú leitað til dómstóla og farið fram á dómsúrskurð um að framkvæma megi svokallaða innsetningu. Með henni ert þú settur inn í réttindi þín og lögmætu ástandi þannig komið á. Nánar um innsetningu í 73. grein aðfararlaga nr. 90/1989.
Efni á Ísland.is skorar yfirleitt hátt á leitarvélum - en alltaf má gera betur. Til þess að tryggja að sem flestir notendur, sem eru afar fjölbreyttur hópur, finni það efni sem þau leita að, er gott að hafa í huga:
að nota orðaforða almennings, fremur en stofnanamál,
að hafa lykilorð framarlega í textum, sér í lagi í lýsandi fyrirsögnum og titlum efnis.
Númeraðir listar
Við notum númeraða lista í stað punktalista þegar leiða á notandann í gegnum ákveðið ferli. Skrefin í ferlinu byrja á stórum staf og enda með punkti.
Dæmi:
Til að fá greidda sjúkradagpeninga þarft þú að:
Athuga hvort þú uppfyllir forsendur greiðslu.
Afla nauðsynlegra fylgiskjala.
Sækja um sjúkradagpeninga og skila inn fylgigögnum.
Punktalistar
Punktalistar (e. bullets) hjálpa til að draga fram aðalatriði í texta og við upptalningar. Á undan punktalista er inngangssetning með tvípunkti. Ýmist er hafður lítill eða stór stafur í punktalista.
Ef textinn er sjálfstæð setning er hafður stór stafur og punktur í enda setningar.
Dæmi:
Fylgigögn með umsókn:
Uppdráttur og lýsing á svæðinu þar sem óskað er eftir að brenna sinu.
Afrit af umsögnum og samþykki hlutaðeigandi búnaðarsambands.
Afrit af umsögnum og samþykki hlutaðeigandi slökkviliðs.
Þegar hvert atriði í upptalningu í punktalista kemur í framhaldi af setningunni fyrir ofan er hafður lítill stafur, þá er upptalningin ekki sjálfstæð setning.
Dæmi:
Í umsókninni þarf meðal annars að koma fram:
nafn og kennitala ábyrgðarmanns
hver er tilgangur sinubrennu og rökstuðningur fyrir nauðsyn hennar
hvernig útbreiðsla elds verður takmörkuð
Einnig er hafður lítill stafur þegar upptalningin inniheldur aðeins stök orð.
Dæmi:
Ekki má brenna sinu þar sem tjón getur orðið á:
náttúruminjum
fuglalífi
lyng- eða trjágróðri
Notum stuttar einfaldar málsgreinar
Rannsóknir sýna að 90% fólks skilur málsgreinar sem eru 14 orð eða minna. Svo minnkar skilningur eftir því sem málsgreinar lengjast og aðeins 10% fólks skilur 43 orða málsgreinar.
Reynum að koma í veg fyrir að fólk þurfi að lesa sömu málsgreinina aftur og aftur til að skilja.
Höfum þær stuttar.
Skrautmyndir
Aðeins skal nota mynd ef það er raunveruleg þörf fyrir hana. Forðumst að nota óþarfa skrautmyndir.
Ef skrautmynd er notuð skal hafa alt text tómt svo skjálesarar hunsi myndina. Ekki skrifa til dæmis „mynd af manni með hund”.
Myndir sem hafa upplýsingagildi
Pössum að upplýsingar sem koma fram í myndum séu líka aðgengilegar fyrir fólk sem getur ekki séð myndina. Hafa þarf í huga fólk sem notar skjálesara og aðra slíka tækni til að sækja sér upplýsingar.
Gott er að skrifa textann á síðunni eins og myndin sé ekki til staðar, bæta myndinni svo við fyrir sjáandi. Þá er engin þörf á alt text því upplýsingarnar á síðunni eru aðgengilegar fyrir alla.
Verum skýr varðandi hver er að ,tala’ á vefnum (stofnunin), við hvern (notandinn) og varðandi aðra aðila sem koma við sögu. Það auðveldar notendum að skilja efnið.
Þú
Nota má fornafnið ‚þú‘ í texta og ávarpa lesandann beint.
Ef efnið er ætlað mörgum notendahópum er gott að útskýra samhengið betur.
Til dæmis svona:
✅ „Sem umsækjandi getur þú ...”
✅ „Sem foreldri þarft þú að ...”
Við
Nota má fornafnið ‚við‘ í texta ef það er alveg skýrt hver er að tala. Notendaprófanir koma að góðum notum hér. Öruggara er að nota nafn stofnunar eða starfsheiti þess sem talar.
Til dæmis svona:
✅ „Embætti Landlæknis gefur út leiðbeiningar varðandi ... “
✅ „Staðgenglar sýslumanna um allt land veita aðstoð …”
Þriðji aðili
Ef þriðji aðili kemur mikið við sögu í greininni er mikilvægt að halda samræmi og nota alltaf sama orðið fyrir þann aðila.
Til dæmis svona:
✅ „Í sáttaferli er mikilvægt að þú og forsjáraðilinn talið við staðgengil sýslumanns…”
Oftast er engin þörf á að minnast á kyn fólks í texta.
Reynum að forðast setningamyndun sem inniheldur kyngreind fornöfn eða lýsingarorð sem taka á sig kynjaðar endingar.
Til dæmis svona:
✅ „Fatlað fólk getur sótt um leyfi til ..”
❌ „Fatlaðir geta sótt um leyfi til .. “
Notum kynhlutlaus orð alltaf þegar hægt er.
Til dæmis:
‚Starfsfólk’ í stað ‚starfsmenn’
‚Forstöðumanneskja’ í stað ‚Forstöðumaður’
Ef misræmi er milli orðanotkunar í lögum og þeirra orða sem fólk notar sín á milli skulum við heldur nota orðin sem fólk notar.
Ef þetta veldur óöryggi hjá notendum skulum við vísa líka í lagaorðið þegar orðið er kynnt í upphafi greinar.
Dæmi
„Umboðsmaður fyrirtækisins, lögaðilans samkvæmt lagatextanum, getur sótt um frestun á..“
Notum orðið Sími eða Símanúmer á undan númerinu. Ekki Númer, GSM eða Símanr.
Snið símanúmera
Skrifum símanúmerið með bili á milli en ekki bandstriki. Bandstrik gera þeim erfitt fyrir sem vilja afrita númerið inn í símaforrit til að hringja.
✅ 426 5500
❌ 426-5500
Hlekkir á símanúmer
Ekki er mælt með að búa til ,tel:' hlekk á símanúmer í texta.
Flestir símavafrar greina símanúmer í texta og gera það sjálfkrafa að hlekk sem notandi getur smellt á til að hringja.
Ef símanúmerið er gert að hlekk í kóða verður það líka hlekkur hjá notendum í tækjum sem ekki er hægt að hringja úr.
Ekki er hægt að ganga út frá því að allir notendur þekki skammstafanir. Skjálesarar lesa skammstafanir auk þess ekki alltaf rétt. Öruggast er að sleppa skammstöfunum og skrifa orðin í heild sinni.
Dæmi:
Skjálesarinn ReadSpeaker á althingi.is og ruv.is les á eftirfarandi hátt:
skv. 1. mgr. = samkvæmt fyrstu em ge err
o. fl. = og forsetningarliður
1000 kr. = 1000 ká err
Við notum ekki skáletrun í texta á Ísland.is.
Til að leggja áherslu á orð eða setningarhluta má nota punktalista, millifyrirsagnir eða með því að hafa orðin framarlega í setningunni sem um ræðir.
Svigar geta gert málsgreinar flóknari og erfiðari að skilja. Reynum að lágmarka notkun þeirra til dæmis með því að endurorða málsgreinina svo að innihald svigans geti staðið sem sjálfstæð setning.
Sviga má nota:
til að útskýra styttingar á orðum í fyrsta sinn þegar þau eru kynnt,
fyrir tilvísanir.
Alltaf skal nota (hringsviga).
Ekki nota [hornklofa], <gogga> eða aðrar gerðir sviga.
Þegar vísað er í tengt efni er gott að ímynda sér hvað notandinn gæti viljað skoða næst. Er einhver grein sem er í eðlilegu framhaldi af þessari fyrir stóran notendahóp?
Reynum að falla ekki í þá gryfju að tengja allar greinar sem eru efnislega skyldar.
Við notum töflur til þess að setja fram gögn, til dæmis tölulega upplýsingar. Höfum þó í huga að töflur eru ekki alltaf hentugasta leiðin til að setja fram upplýsingar.
Í stað einfaldrar töflu má nota
millifyrirsagnir og nokkra punktalista
einn punktalista þar sem kommur eru notaðar til að aðskilja efni í hverri línu
Þegar efnið krefst töfluframsetningar er mikilvægt að gæta þess að hún sé sett fram á aðgengilegan hátt.
Hafa þarf í huga að margir skoða síðuna í litlum símaskjá og sjá því aðeins hluta töflunnar í einu.
Eins eru sumir notendur að styðjast við skjálesara og lyklaborð til að færa bendilinn í staðinn fyrir sjón og mús.
Mælst er til þess að hafa línu og dálkaheiti feitletruð til að aðskilja þau frá efni töflunnar.
Allt efni á Ísland.is skal vera til á íslensku og ensku.
Vefumsjónarkerfið býr yfir vélþýðingarmöguleika sem flýtir fyrir þýðingum efnis. Nauðsynlegt er að rýna þýðinguna vel til að tryggja gæði efnis og til að kenna vélinni réttar þýðingar.