Efnisstefna
Efnisyfirlit
Um Efnisstefnu Ísland.is
Ísland.is er upplýsingavefur þar sem notendur munu geta nálgast allar upplýsingar og þjónustur sem hið opinbera veitir.
Gott aðgengi að efni vefsíðu og framsetningu efnis er lykilatriði fyrir góðan vef. Aðgengismál eru efst á lista Ísland.is við alla uppsetningu og framsetningu. Nánar um aðgengisstefnu Ísland.is.
Tilgangur efnisstefnunnar er að tryggja að allir sem koma að efnisvinnu fyrir Ísland.is vinni í takt til að hámarka gæði efnis og leiðakerfis fyrir notendur vefsins, þjónustuvefsins og spjallmennisins. Slíkt mun einfalda líf bæði notenda og starfsfólks stofnana sem sér um að veita þjónustuna.
Efnisvinnsla og aðgengi á Ísland.is
Góður upplýsingavefur þarf að uppfylla eftirfarandi þrjú skilyrði fyrir notendur:
1. Upplýsingarnar eru á vefnum
1. Upplýsingar um þjónustu sem hið opinbera veitir eða leiðbeinandi upplýsingar sem hjálpa fólki að klára erindi sín
Til dæmis:
Upplýsingar um barnabætur
Réttindi í hjónabandi
Umsókn um fæðingarorlof
Efnið er staðsett í leiðakerfi Ísland.is. Einnig má vísað á það frá lendingarsíðu stofnunar.
2. Upplýsingar um stofnanir hins opinbera
Til dæmis:
hlutverk
staðsetning og opnunartími
fréttir
viðburðir
Efnið er staðsett á lendingarsíðu stofnunar.
Tilgangur efnisrannsókna er að finna út:
hverjir notendurnir eru
hvað þeir vilja frá þér (prófa ályktanir sem þú hefur um hvers notandinn þarfnast)
hvernig á að tala við þá
Hverjir eru notendurnir?
Ef við getum ekki fengið raunverulega tölfræði um notendahópinn þá er hægt að nýta sér umræður til dæmis á samfélagsmiðlum og bland.is til að fá tilfinningu fyrir notendahópnum.
Ef hópurinn sem um ræðir er til dæmis fatlað fólk eða fólk með þroskahömlun þá er gagnlegt að sækja sér þekkingu til hagsmunasamtaka.
Hvaða vilja þeir?
Hvað er fólk að spyrja um í þjónustuverinu? Gott er að safna þeim spurningum saman og nýta í efnisvinnslu.
Hvaða spjallhópar eru á samfélagsmiðlum varðandi efnið?
Hvað er fólk að spyrja um í umræðuþráðum og spjallhópum á netinu?
Hverju er fólk að svara? Er fólk að koma með rétt svör eða er umræðan öll á skjön við raunveruleikann?
Hvernig á að tala við þá?
Skoðum orðaforðann sem fólk notar sín á milli til dæmis á Bland eða samfélagsmiðlum þegar það talar um efnið.
Skoðum heimsóknatölfræði um
mjög fáar heimsóknir á síðu getur gefið til kynna misræmi milli orðaforðans á síðunni og orðaforðans sem fólk notar
getur gefið til kynna að fólk sé að fara inn á ranga síðu, skoðum hvað veldur
verum samt meðvituð um að hátt ‘bounce rate’ getur gefið til kynna að síðan sé að sinna hlutverki sínu mjög vel, fólk finnur upplýsingarnar sem það þarf og fer svo
á hvað er fólk að smella
ef fólk eyðir löngum tíma á síðum með skýrri aðgerð (Call To Action), þá gæti það gefið til kynna að eitthvað á síðunni sé óskýrt
umræðuþræðir og samfélagsmiðlar eru frábær staður til að fá upplýsingar um orðaforðann sem fólk notar varðandi málefnið
hvaða texti var á hlekknum sem þau smelltu á til að komast á síðuna
Fyrirtæki og stofnanir hafa tilhneigingu til að birta efni sem þau vilja koma frá sér í stað þess sem notandinn þarf að vita. Þetta gerir notendum erfitt fyrir að skilja efnið og taka ákvarðanir út frá því.
Allt efni sem er birt á Ísland.is skal hafa skýra notendaþörf sem rökstudd er með gögnum.
Form notendaþarfar


Mynd: Cybermedian
Dæmi:
Sem stjúpforeldri barns undir 18 ára
vil ég vita hvernig ég get lagalega ættleitt barnið
svo að við njótum sömu réttinda og aðrir foreldrar/börn
Þörfinni er svarað þegar notandi veit:
hver réttaráhrif ættleiðingar eru
hvaða skilyrði þarf að uppfylla
hvaða samþykki þurfa að liggja fyrir
hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn
hvernig ferlið er og hvað það tekur langan tíma
hvað gerist þegar umsókn hefur verið send
Skilgreinum notandann (who)
Notendaþörf skal aldrei byrja á ‚sem notandi‘. Þú ættir að þekkja hver notandinn er og skilgreina hann út því sem hann er að reyna að gera.
‚Notandi‘ endurspeglar oftast hóp fólks sem hefur sömu ástæðu fyrir að þurfa að klára verkefnið.
Dæmi: Notandi getur verið að sækja um vegabréf fyrir barn. Umsóknaraðilinn getur verið foreldri, amma/afi eða forsjáraðili barnsins. Ekki þarf að skrifa notendaþörf fyrir hvern og einn aðila.
Dæmi um notendur/notendahópa:
ellilífeyrisþegi
kennari
eigandi ökutækis
umboðsmaður fyrirtækis
einstaklingur sem vill flytja til Íslands
einstaklingur sem vill vinna á Íslandi
Skilgreinum aðgerðina (what)
Notendaþarfir og efni á Ísland.is byggjast oft á aðgerðum eða verkefnum sem þarf að leysa.
Dæmi um aðgerðir:
sækja um
tilkynna
samþykkja
skrá
greiða
skila inn
breyta skráningu
senda fyrirspurn
Skilgreinum þörfina (why)
Að skilja raunverulegu þörfina sem liggur að baki hjálpar okkur að finna betri lausnir og skrifa betri texta. Ef við vitum ekki hver þörfin er skulum við tala við notendur eða starfsfólk í framlínu.
2. Fólk finnur þær
Gegnum veftré/leiðarkerfi Ísland.is
Gegnum innri leit á Ísland.is
Beint af google.com eða annarri leitarvél
Gegnum lendingarsíðu stofnunar - island.is/s
Atriði til að hafa í huga varðandi flokkun efnis í leiðakerfi:
Allt efni á Ísland.is verður á endanum flokkað út frá umfjöllunarefni - ekki út frá stofnunum. Flokkar verða sérhæfðari eftir því sem notandi grefur neðar í leiðarkerfið og titlar þeirra ættu að endurspegla það.
Flokkuninni er skipt upp svona:
Þjónustuflokkar, aðgengilegir frá forsíðu t.d. ‚Fjölskylda og velferð‘
Grúppur eruu næsta lag undir þjónustuflokkum t.d. ‚Andlát og erfðamál‘
Greinar eru efnissíður vefsins og þær tilheyra grúppum t.d. ‚Dánarvottorð‘
Brauðmolaslóðir á greinum sýna hvernig þær eru flokkaðar í veftré.


Röðun greina í grúppum
Þegar grúppa inniheldur fáar greinar þá birtast þær í stafrófsröð nema sérstaklega sé valið að birta þær á annan hátt.


Þegar grúppa inniheldur mikinn fjölda greina þá er mælt með að flokka þær betur svo notandinn geti skannað innihald grúppunnar út frá umfjöllunarefni. Hægt er að gera undirgrúppur í vefumsjónarkerfinu sem hafa þann eina tilgang að auðvelda notanda að finna upplýsingar hratt og vel í gegnum leiðakerfi vefsins.
Innan hverrar undirgrúppu raðast greinar vefsins eftir stafrófsröð nema sérstaklega sé valið að raða þeim á annan hátt.


Að forðast tvöföldun á efni
Endurtekning á efni getur villt um fyrir notandanum og eykur líkur á að hann leiti upplýsinga eftir öðrum leiðum, til dæmis í gegnum tölvupóst eða síma.
Markmiðið með Ísland.is er að á endanum verði til þessi eini staður þar sem fólk veit að það getur gengið að staðreyndum varðandi þjónustur hins opinbera. Oft nefnt á ensku ’single source of truth’. Tvítekið efni skilar verri leitarniðurstöðum, ruglar notandann og skaðar trúverðugleika Ísland.is sem vörumerkis.
Nöfn þjónustuflokka og grúppa lýsa því um hvað efnið er. Þeim er ekki ætlað að lýsa því hvaða stofnun efnið heyrir undir eða fyrir hvern efnið er.
Engir tveir flokkar eða grúppur ættu að bera sama titil. Grúpputitlar birtast í leitarniðurstöðum og notendur þurfa að geta greint á milli þeirra.
Titlar skulu:
endurspegla efnið - ekki markhópinn, stofnunina, deildina eða gerð/snið efnisins
lýsa efninu á skýran hátt - ekki vera misvísandi eða óljósir
geta staðið stakir - þurfa ekki að vera í samhengi við yfirflokk eða aðra tengda flokka til að notendur skilji um hvað efnið er
vera skrifaðir á einfaldri og hnitmiðaðri íslensku - forðumst tæknimál, málalengingar, tákn og tölur eins og hægt er
vera skrifaðir með því orðalagi sem notandinn notar - ekki lagamáli eða stofnanamáli nema notandinn noti það almennt líka
ekki innihalda skammstafanir nema þær séu almennt meira notaðar
Stilla þarf í hóf þeim fjölda flokka, grúppa og greina sem notandi þarf að velja úr hverju sinni. Ágæt þumalputtaregla er að:
Fjöldi þjónustuflokka á forsíðu ætti að takmarkast við 18 í byrjun. Með tímanum verður vonandi hægt að fækka þeim enn frekar eða birta aðeins á forsíðu þá flokka sem eiga mest erindi við almenning.
Fjöldi grúppa í hverjum flokki ætti helst að takmarka við 20 sé þess kostur.
Fjöldi greina í hverri grúppu ætti að takmarka við 12 ef engar undirgrúppur eru notaðar. Ef greinafjöldi verður meiri ætti að skoða möguleika á undirgrúppum.
Stöðugt þarf að rýna flokkun greina í grúppur og undirgrúppur. Þegar efni vefsins eykst verður þörf á að sameina grúppur eða skipta upp eftir umfangi og eðli efnis.
Veftré: Allar greinar eiga ‚heima‘ á einum ákveðnum stað í veftrénu. Þessi staðsetning ræður brauðmolaslóð greinarinnar.
Leiðakerfi: Gera má vísun á grein á fleiri stöðum í leiðakerfinu til að hjálpa notendum að finna efnið. Sama efnið getur átt erindi við ólíka notendur sem leita í mismunandi flokkum vefsins.
Til dæmis gætu upplýsingar um fjárhagsaðstoð við fjölskyldur fatlaðra barna átt heima í flokknum Fjölskylda og Velferð / Framfærsla barns í veftré en verið einnig aðgengileg í flokkinum Málefni fatlaðs fólks.
Slóðir á Ísland.is eru hannaðar til að vera einfaldar, fyrirsjáanlegar og notendavænar. Þær fylgja ákveðnu skipulagi svo notendur séu fljótir að átta sig á hvernig þær virka.
Flestar slóðir verða til sjálfkrafa þegar ný undirsíða er búin til í Contentful vefumsjónarkerfinu.
Stuttar slóðir eru þó stundum búnar til sérstaklega vegna markaðsmála.
Uppbygging slóða
Efnissíður (greinar) eru án forskeytis í slóð - island.is/[síðuheiti]
Allar aðrar síðutýpur eru með lýsandi forskeyti - island.is/[síðutýpa]/[síðuheiti]
Síðutýpur og tillaga að forskeytum:
Leiðakerfi:
island.is/flokkur/fjolskylda-og-velferd#faedingarorlof-og-skraning-barns
Greinar (efnissíður):
Lífsviðburður:
Stofnanasíður:
Fréttir:
Síðutitlar (H1) ættu að:
vera 65 stafir eða minna
vera lýsandi og aðgreina efni síðunnar frá öllum öðrum síðum vefsins (geta staðið einir í leitarniðurstöðum)
innihalda helstu lykilorðin framarlega í titlinum
vera án bandstrika eða skástrika
vera án punkts í lokin
vera skrifaðir með sama orðaforða og notendur nota
Dæmi um lýsandi titil:
✅ Félagsstarf og þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara
🚫 Félagsstarf og þjónustumiðstöðvar
Dæmi um front-loadaðan titil:
✅ Ættleiðing stjúpbarns undir 18 ára
🚫 Helstu upplýsingar fyrir umsækjendur um ættleiðingu stjúpbarns
Lengd titla
Titill ætti að vera 65 stafabil eða styttri.
Það má nota meira en 65 stafabil ef það er nauðsynlegt til að gera titilinn skýrari eða einstakan, en hafa skal í huga að:
Google notar eingöngu fyrstu 65 stafabilin og hunsar það sem er umfram
það er erfiðara að skilja langa titla
Þumalputtareglan er að 80% af notendum þurfa sömu 20% af upplýsingunum. Okkar starf er að komast að því hvaða 20% þetta eru og
hafa þessar upplýsingar efst í greinum/textasíðum
hafa þessar greinar efst í sínum flokkum í leiðakerfinu
3. Fólk skilur þær
Notendur koma inn á vefinn í ákveðnum tilgangi. Það er eitthvað sem þeir þurfa að vita eða gera tengt stjórnsýslunni.
Algengast er að þeir séu að
klára ákveðna aðgerð, til dæmis
- sækja um aukið meðlag
- sækja um dvalarleyfi
- færa lögheimilileita að upplýsingum, til dæmis
- hvenær barnabætur eru greiddar og hvað þær eru háar
- um umgengnisréttindi forsjárlausra foreldra
- hvað þarf að gera þegar nákominn aðili deyr
Meginreglan er að hver grein á vefnum svari einni skilgreindri notendaþörf. Við þurfum að komast að því hverjar þessar þarfir eru.
Dæmi:
Manneskja sem vill ættleiða 7 ára stjúpbarn sitt ætti ekki að þurfa að skanna allar upplýsingarnar um ættleiðingu fósturbarna eða ættleiðingu barna erlendis frá. Þetta eru mjög ólík ferli og fólk þarf ólíkar upplýsingar til að klára þessi verkefni.
→ Þess vegna eru þetta aðskildar greinar á Ísland.is.


Flestir vefnotendur vilja klára ætlunarverk sitt eins hratt og hægt er, með eins lítilli fyrirhöfn og hægt er. Fólk heimsækir síðu til að finna svar hratt og örugglega - ekki til að lesa ritgerð um efnið.
Fólk skannar texta í stað þess að lesa hann. Fólk skannar með því að hoppa til og frá á síðunni, hoppa yfir efni og fara svo til baka til að skanna það sem það sleppti.
Skann mynstur
Það eru mörg þekkt skannmynstur.
🚫 F-snið er dæmi um slæmt skann mynstur.
✅ Lagkökusnið er það sem við sækjumst eftir.


Mynd: Nielsen Norman Group
Notendur horfa mest á textann sem er efst og vinstra megin á síðunni. Svo hoppa þeir niður og horfa þar í smá stund, en þó ekki með sömu einbeitingu og efst.
Eftir því sem þeir færast neðar á síðuna skanna þeir sífellt færri orð í hverri línu og mynda þannig F
mynstrið.
Fólk notar þessa aðferð þegar það er ekki nógu áhugasamt til að lesa hvert einasta orð og þegar textinn er settur fram í stórum bútum án strúktúr.
F sniðið er slæmt fyrir notendur og fyrir fyrirtækið eða stofnunina. Notendur geta misst af mikilvægum upplýsingum aðeins vegna þess að þær koma fram hægra megin á síðunni. Notendur átta sig ekki á þessu því þeir vita ekki af því sem þeir sjá ekki.
Góð uppbygging á texta dregur úr F sniðinu.


Mynd: Nielsen Norman Group
Notendur horfa mest á titil og millifyrirsagnir þangað til þeir finna kafla sem þeir hafa áhuga á, þá byrja þeir að lesa.
Þetta er talin besta leiðin fyrir notendur að skanna síður.
Lagkökusniðið næst með
stuttum textaköflum
millifyrirsögnum þar sem lykilorðin eru framarlega í setningunni
góðri uppbyggingu á texta til að draga fram aðalatriði, til dæmis með punktalistum
Að lesa texta


Mynd: Microsoft
Fólk les ekki texta staf fyrir staf. Fólk einbeitir sér að orði eða orðhluta, meðtekur
upplýsingarnar, hoppar svo yfir og einbeitir sér svo að öðru orði. Heilinn býr til efnið sem fólk sleppir þegar það hoppar yfir, hann fyllir í götin.
Stutt, einföld orð er auðvelt að spá fyrir um þegar augun hoppa yfir. Flókin og óalgeng orð er erfiðara að spá fyrir um án þess að einbeita sér að þeim í smá stund, sem hægir á lestrinum.
→ Það flýtir fyrir lestri að nota algeng orð og forðast lagamál, tæknimál og flókin orð sem fáum er tamt að nota.
Notum sama orðaforða og fólk notar þegar það ræðir málefnið sín á milli. Reynum að sleppa tæknimáli, lagamáli og öðru flóknu orðalagi sem fáum er tamt að nota.
Notum skýr orð.
✅ Þjónusta fyrir fatlað fólk
🚫 Félagsleg úrræði
Ef nauðsynlegt er að nota flókið hugtak eða orð þá skal útskýra það þegar það kemur fyrst fyrir í textanum.
Skrifum textann út frá notandanum en ekki út frá stofnununni.
✅ Samninginn má sækja eftir þinglýsingu
🚫 Samningurinn er afhentur eftir þinglýsingu
Persónur sem endurspegla nokkra notendahópa á Ísland.is.










Tónn Ísland.is er jákvæður, hlýr og skýr. Við tökum hlutverk okkar alvarlega enda erum við að tala til allrar þjóðarinnar, allan sólarhringinn. Við þurfum að vera meðvituð um málróm okkar, tón og áferð allra skilaboða hvar sem við komum þeim á framfæri.
Tónninn þarf að vera jákvæður og áreynslulaus, án þess að við reynum að vera sérstaklega „sniðug“. Yfirbragðið þarf að vera fágað og faglegt, án þess að virka þurrt og leiðinlegt. Við komum okkur beint að efninu með það að leiðarljósi að aðstoða fólk við að finna það sem það er að leita að, fljótt og örugglega.
Við erum:
fræðandi — ekki flókin
háttvís — ekki þóttafull
hjálpsöm — ekki ýtin
nákvæm — ekki smámunasöm
jákvæð — ekki hress
Við notum íslensku alltaf þegar kostur er á. Í skrifuðu máli forðumst við slettur, slangur og tæknimál (jargon). Við notum yfirleitt ekki tjákn (emojis). Þau má þó nota í spjallmenni og persónulegri samskiptum, ef um t.d. netspjall er að ræða.
Textinn ætti alltaf að vera hnitmiðaður og knappur. Ef þörf er á nákvæmum útskýringum í texta er hægt að vísa sérstaklega í ítarefni. Þetta þarf líka að hafa í huga inn á við, í kynningum, myndböndum, tölvupósti, skýrslum og öðru efni sem gengur á milli starfsfólks.
Við gætum þess að ávarpa kynin, tölum um þau frekar en þá eða þær. Við tölum aldrei niður til neinna hópa, gætum að notendum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli eða eiga í erfiðleikum með að lesa eða skilja hana.
Ísland.is — beint að efninu
Dæmi um tón og stíl
Fræðandi — ekki flókin
Núna:
Með skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag í þjóðskrá felst ekki að Þjóðskrá Íslands haldi sérstakt félagatal trú- eða lífsskoðunarfélaga heldur er einungis um að ræða skráningu á því hvert sóknargjöld skuli renna samkvæmt ákvæðum laga um sóknargjöld nr. 91/1987 og lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999.
Betra:
Með skráningunni er haldið utan um hvert sóknargjöld renna. Þjóðskrá Íslands heldur ekki sérstakt félagatal trú- eða lífsskoðunarfélaga. Sjá ákvæði laga um sóknargjöld nr. 91/1987 og skráð trúfélög og lífss- koðunarfélög nr. 108/1999.
Háttvís — ekki þóttafull
Núna:
Eingöngu er heimilt að fletta upp eftir landsnúmeri, fasteignanúmeri eða heiti fasteignar.
Betra:
Hægt er að fletta upp eftir heiti fasteignar, númeri hennar eða landsnúmeri.
Hjálpsöm — ekki ýtin
Núna:
Gera skal sérstaka grein fyrir afdrifum þess skv. 9. gr. laga um vegabréf.
Betra:
Gera þarf grein fyrir afdrifum þess. Sjá 9. gr. laga um vegabréf.
Síðra:
Nauðsynlegt er að gera tafarlaust sérstaka grein fyrir afdrifum þess skv. 9. gr. laga um vegabréf.
Nákvæm — ekki smámunasöm
Núna:
Greitt er fyrir veitta upplýsingar samkvæmt gjaldskrá sem er í gildi á hverjum tíma (leyfisgjald auk færslugjalds) og samkvæmt gildandi lögum. Reiknings- uppgjör verður sent út mánaðarlega.
Betra:
Uppgjör er sent út mánaðarlega.
Núna:
Greitt er fyrir upplýsingar samkvæmt gjaldskrá (leyfisgjald og færslugjald).
Jákvæð — ekki hress
Núna:
Var efnið á síðunni hjálplegt?
Síðra:
Hæ, gastu fundið allt sem þú óskaðir þér?
Hjálplegt efni til útprentunar
Áherslur fyrir efni (pdf)
Gátlisti við efnisskrif (pdf)
Eftirfylgni: Er mikið spurt um sama efnið?
Ef mikið er spurt um sama efnið í þjónustuverinu þá þurfum við að skoða hvað veldur og leitast við að laga það sem er að.
Skoðum vefinn. Tölum við notendur. Rannsökum eftirfarandi:
Ef efnið sem notendur þurfa er einfaldlega ekki til staðar á vefnum þarf bæta úr því.
Byrjum á að skilgreina og rökstyðja þörfina fyrir það á eftirfarandi hátt:
SEM [notandi]
VIL ÉG [aðgerð]
SVO AÐ [ástæða/ávinningur]
og gerum svo nýja grein á vefnum sem mætir þessari notendaþörf.
Er efnið ekki nógu vel flokkað á vefnum?
Þurfum við að færa það til í leiðakerfinu?
Þurfum við að gera nýja vísun á það í öðrum flokki?
Er titill greinarinnar ekki nógu lýsandi fyrir efnið?
Gerum titilinn meira lýsandi.
Komum inn réttu lykilorðunum
Eru millifyrirsagnirnar ekki nógu lýsandi?
Gerum millifyrirsagnirnar betri.
Skiptum efninu betur upp.
Er textinn of neðarlega á greininni?
Væri betra að endurraða köflum á greininni?
Er orðalagið of flókið?
Einföldum það.
Fjarlægjum lagatexta og annað sérfræðimál sem fáum er tamt að nota.
Styttum málsgreinar.
Erum við ekki að nota orðaforðann sem fólk notar?
Kynnum okkur orðin sem fólk notar þegar það talar um efnið. Samfélagsmiðlar og Bland eru góðir staðir til að kynnast notendum.
Er textinn of langur, nennir fólk ekki að lesa hann til að skilja?
Komum okkur beint að efninu. Höfum mest sótta efnið efst í greininni.
Reynum að stytta eða skipta upp löngum textum í minni kafla með góðum millifyrirsögnum.
Reynum að auðvelda fólki lesturinn með því að draga fram aðalatriðin með punktalistum eða númeruðum listum.