Endurheimt skóga
Skógræktarverkefni hafa í auknum mæli beinst að því að endurheimta skóga á illa grónu landi til að sporna gegn jarðvegseyðingu, bæta umhverfisskilyrði og auka útivistarmöguleika.
Hekluskógaverkefnið miðar að því að rækta upp birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu til að minnka vikurfok eftir eldgos og sporna gegn jarðvegseyðingu. Verkefnið byggir á rannsóknum Úlfs Óskarssonar skógfræðings og hófst formlega árið 2005 með samvinnu landeigenda, skógræktarfélaga og opinberra aðila.
Verkefnið nær yfir um 90.000 hektara, eða 1% af Íslandi, þar sem stór hluti landsins er illa gróinn og háður rofi. Það er unnið í þremur þrepum:
Stöðvun sandfoks og uppgræðsla illa farins lands.
Gróðursetning birkis og víðitegunda til að mynda upphafsskóga.
Náttúruleg útbreiðsla skóglendis yfir áratugi.
Fjöldi sjálfboðaliða, félagasamtaka og skóla hefur tekið þátt í verkefninu, sem stuðlar að endurheimt birkiskóga sem áður vernduðu svæðið gegn eldfjallaösku.
Nánari upplýsingar vef Hekluskóga
Þorláksskógar er nýtt skógræktarverkefni á Hafnarsandi í Ölfusi, unnið í samstarfi við sveitarfélagið Ölfus. Markmiðið er að rækta upp skóg til að skýla byggðinni í Þorlákshöfn og skapa verðmæta nytjaskóga á áður ófrjósömu landi.
Auk þess er í umræðu skóggræðsla í Þingeyjarsýslu á svæðum sem Landgræðslan hefur unnið að uppgræðslu. Þetta verkefni styður við landgræðslu og skógrækt á norðursvæðum landsins.
Landgræðsluskógar eru skógræktar- og uppgræðsluverkefni sem skógræktarfélögin standa fyrir í samstarfi við Land og skóg og matvælaráðuneytið. Verkefnið miðar að því að græða upp rýr og illa gróin svæði með skógi. Í því skyni hefur verið gróðursett um 1 milljón trjáplantna árlega frá 1990.
Um 100 ræktunarsvæði eru til um landið, flest á landi sveitarfélaga, ríkis eða skógræktarfélaga. Gerðir eru þinglýstir samningar um svæðin, sem tryggja að þau séu opin almenningi til útivistar. Skógræktarfélögin sjá um landval, friðun, gróðursetningu og umhirðu skógarins, sem hefur leitt til þess að mörg svæði eru nú kjörin til gönguferða og útivistar.