Opnað hefur verið fyrir umsóknir um leyfi til álaveiða til eigin neyslu
28. febrúar 2023
Umsóknarfrestur vegna ársins 2023 er til og með 1. apríl nk.
Allar álaveiðar eru óheimilar í sjó, ám og vötnum á Íslandi samkvæmt reglugerð um bann við álaveiðum nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu til álaveiða til eigin neyslu.
Skilyrði
Fiskistofa getur veitt leyfi til takmarkaðra veiða á áli til eigin neyslu þar sem veiðar hafa verið eða verða stundaðar sem búsílag.
Í umsóknum skal koma fram á hvaða landsvæði áformað er að veiða, hvaða veiðarfæri verði notuð og það magn sem sótt er um leyfi til að veiða.
Með umsóknum skulu fylgja upplýsingar um veiði umsækjanda síðustu 5 árin.
Leyfi eru bundin því skilyrði að allur afli sé skráður og að Fiskistofu verði sendar árlega skýrslur um sókn og afla.
Öll sala og markaðsfærsla á íslenskum ál og álaafurðum er bönnuð.
Skila skal umsóknum til fiskistofa@fiskistofa.is
Eftir skoðun á umsóknum og að fenginni umsögn um þær frá Hafrannsóknastofnu verða gefin út leyfi til álaveiði til eigin neyslu þar sem fram koma skilyrði fyrir veiðunum í samræmi við ofangreinda reglugerð.