Nýr sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs
11. júlí 2024
Viðar Ólason hefur verið ráðinn í stöðu sviðsstjóra veiðieftirlitssviðs sem auglýst var á dögunum, en Elín Björg fráfarandi sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs hefur tekið við starfi fiskistofustjóra.
Viðar er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur hann lokið námi frá Stýrimannaskólanum, II. stig og sótt fjölmörg námskeið á sviði stjórnunar og stjórnsýsluréttar.
Viðar hefur 20 ára reynslu af sjávarútvegi. Hann hefur starfað sem deildarstjóri sjóeftirlits hjá Fiskistofu frá árinu 2016 þar sem hann hefur stýrt sjóeftirliti. Auk þess hefur hann leyst af sem deildarstjóri landeftirlits. Viðar starfaði áður í tíu ár sem forritari hjá Advania og þar á undan sem stýrimaður og skipstjóri í 15 ár.
Í störfum sínum hjá Fiskistofu hefur Viðar gegnt ýmsum nefndarstörfum og verið í starfshópum skipuðum af fagráðuneyti sem og Fiskistofu auk þess sem hann hefur stýrt samráðsfundum með öðrum systurstofnunum. Þá hefur hann sinnt ýmsum erlendum verkefnum fyrir hönd Fiskistofu, verið í sendinefndum Íslands m.a. í tvíhliða samningum um sjávarútvegsmál við önnur ríki auk þess sem honum var falið að leiða alþjóðlega ráðstefnuröð sem tileinkuð er störfum eftirlitsmanna á sjó, 11th International Fisheries Observer and Monitoring Confrence, sem haldin verður í Hörpu í maí 2025.
Fiskistofa bíður Viðar hjartanlega velkominn í nýja stöðu hjá Fiskistofu og óskar honum velfarnaðar í starfi.