Lokun á aflaskráningarappi Fiskistofu
12. mars 2022
Vegna fjölmiðla umfjöllunar og umræðu á samfélagsmiðlum varðandi lokun á aflaskráningarappi Fiskistofu þann 1. apríl nk. og þeirra fullyrðinga Landssambands smábátaeigenda að ríkið sé að velta opinberum kostnaði á útgerðir vill Fiskistofa koma eftirfarandi á framfæri:
Vegna fjölmiðla umfjöllunar og umræðu á samfélagsmiðlum varðandi lokun á aflaskráningarappi Fiskistofu þann 1. apríl nk. og þeirra fullyrðinga Landssambands smábátaeigenda að ríkið sé að velta opinberum kostnaði á útgerðir vill Fiskistofa koma eftirfarandi á framfæri:
Fiskistofa þróaði aflaskráningarappið sem hefur verið í notkun. Verkefnið var mjög vanmetið í umfangi og flækjustigi. Appið hefur reynst erfitt í uppfærslu, óþarflega flókið í notkun og önnur vandkvæði hafa komið í ljós við notkun appsins. Þá uppfyllir appið hvorki tæknilegar kröfur né kröfur varðandi notendaviðmót. Ekki hefur verið mögulegt að uppfæra appið til samræmis við breytt regluverk sem veldur því að appið uppfyllir ekki lengur skilyrði um skráningu afla. Því var ljóst að fara þyrfti í þá vinnu að endursmíða appið. Slík endursmíði hefði orðið mjög kostnaðarsöm.
Fiskistofa stóð straum af kostnaði og þróun aflaskráningarapps í samvinnu við Stokk hugbúnaðargerð. Verkefnið var að stórum hluta fjármagnað með sérstökum styrk frá ráðuneytinu. Sú fjármögnun hefur ekki viðhaldist og er kostnaðurinn því fjármagnaður með rekstrarfé stofnunarinnar. Er það niðurstaða stjórnenda Fiskistofu að það samræmist ekki hlutverki stofnunarinnar að reka hugbúnað að kostnaðarlausu fyrir notendur og því sé ekki eðlilegt að rekstrarfé stofnunarinnar sé nýtt til þeirra verka. Fjárveitingar til Fiskistofu gera ekki ráð fyrir þessum kostnaði og má því segja að þetta sé ófjármagnaður kostnaður sem fellur á stofnunina og Fiskistofa hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að fara í þá þróun sem núverandi app krefst.
Fyrirhuguð niðurlagning appsins var kynnt vel fyrir LS. Frá upphafi árs 2021 hefur Fiskistofa verið í samræðum við hagaðila þ.á.m. LS um fyrirhugaða niðurlagningu appsins og mögulegar lausnir. Hefur Fiskistofa bent á að stofnunin hafi engar lagalegar skyldur til að sjá þeim fyrir ókeypis hugbúnaði. Hlutverk Fiskistofu er að taka við upplýsingum sem skylt er að skila. Fiskistofa hefur sett upp almenna vefþjónustu sem öllum er frjálst að tengja hugbúnað á móti til stafrænna skila á aflaupplýsingum. Kóði Fiskistofu appsins er einnig opinn fyrir þá sem hafa hug á að þróa aflaskráningarapp. Eitt fyrirtæki hefur tilkynnt opnun á aflaskráningarappi innan skamms tíma auk þess sem fleiri aðilar hafa sett sig í samband við Fiskistofu og sýnt áhuga á þróun aflaskráningarapps. Trackwell er þó eini aðilinn sem lokið hefur þeirri þróun. Fiskistofa bendir á að stærri skip íslenska flotans hafa notast við rafrænar afladagbækur síðastliðin ár og greiða fyrir notkunina.
Ítarupplýsingar um appið og ákvarðanatöku Fiskistofu um að leggja niður appið
Aðkeyptur stofnkostnaðurinn við gerð núverandi apps, var kr. 16.490.659,- Ráðuneytið styrkti gerð appsins um kr. 10 milljónir. Styrkur ráðuneytisins gerði hins vegar ekki ráð fyrir kostnaði vegna reksturs og þjónustu. Á árunum 2019-2022 hefur aðkeypt þjónusta/hugbúnaðarvinna vegna þjónustu og uppfærslna á appinu verið kr. 11.047.095. Kostnaður við hýsingu á árunum 2019-2022 er kr. 2.559.030. Ef Fiskistofa færi í endursmíðið á nýju appi yrði það verkefni mjög kostnaðarsamt og Fiskistofa yrði að nýta gjaldtökuheimild laga fyrir afladagbækur sbr. 17. gr. laga 116/2006 um stjórn fiskveiða, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu. Þessi gjaldtökuheimild hefur ekki verið nýtt fram til þessa og Fiskistofa tekið á sig allan kostnað vegna uppsetningar og reksturs appsins. Þá er það einnig álitamál hvort gjaldtökuheimild laganna myndi duga til að rukka fyrir notkun á hugbúnaði þar sem orðalag ákvæðisins vísar í afhendingu á afladagbókum en ekki hugbúnaði.
Við mat á því hvort fara ætti í þá vinnu og kostnað að endursmíða aflaskráningarappið var litið til margra þátta auk þeirra tæknilegra vankanta sem voru á eldra appi. Rætt var við m.a. hagaðila í sjávarútvegi og nokkra aðila í hugbúnaðargerð í aðdraganda þessara breytinga. Kom þar fram að ljóst væri að notendur aflsakráningarapps Fiskistofu voru ekki ánægðir með það, að hluta til vegna þess að það var ekki nógu þjált í notkun og því þyrfti að endurhugsa uppsetningu þess frá grunni. Einnig kom fram að áhugi væri á því hjá aðilum í hugbúnaðargerð að skrifa aflaskráningarapp sem hluta af stærra appi sem notendur gætu nýtt til fleiri hluta tengdum útgerð s.s. til að fylgjast með olíunotkun skipa, tilkynningum og fleira. Svipað kerfi hefur verið í rekstri, óháð Fiskistofu, til aflaskráninga o.fl. fyrir stærri skip. Voru því jafnræðis- og samkeppnissjónarmið einn af þeim þáttum sem horft var til í aðdraganda ákvörðunar.
Annar þáttur sem horft var til var að ef Fiskistofa ætlaði sér að reka aflaskráningarapp þá þyrfti að vera hægt að halda úti notendaþjónustu utan dagvinnutíma, jafnvel allan sólarhringinn en því hefði fylgt hár kostnaður. Sá annmarki yrði óhjákvæmilega á nýju aflaskráningarappi sem Fiskistofa myndi endurskrifa að virkni þess yrði einungis bundin við aflaskráningu.
Að teknu tilliti til þessa og þeirrar niðurstöðu að Fiskistofu beri ekki að reka hugbúnað fyrir útgerðina þá var það mat Fiskistofu að smíði, rekstur og viðhald nýs aflaskráningarapps yrði það kostnaðarsamt að Fiskistofa yrði ekki samkeppnisfær á þessum markaði og kostnaður notenda við notkun nýs aflaskráningarapps yrði lægri á almennum markaði en hjá stofnuninni.
Fiskistofa er ekki að úthýsa afladagbókarskilum né eftirliti með þeim til einkafyrirtækja. Fiskistofa er einungis að hætta að útvega formið til að skila aflaupplýsingum. Fiskistofa útvegaði afladagbækur til skipa þegar upplýsingaskil voru á pappír. Fiskistofu var skylt að útvega afladagbækur sbr. lög um umgengni um nytjastofna sjávar og var heimilt að innheimta gjald fyrir kostnaðinum við afladagbækurnar. Stærri skip íslenska flotans hafa notast við rafrænar afladagbækur síðastliðin ár og greiða fyrir notkunina. Með lögum nr. 88/2020, um ýmsar breytingar á lögum á sviði sjávarútvegs var skylda Fiskistofu til að útvega afladagbækur felld úr gildi. Í greinagerð með frumvarpinu sem varð að lögum kom fram að gert væri ráð fyrir að aflaupplýsingum yrði skilað rafrænt og ekki lengur þörf á að Fiskistofa útvegaði afladagbækur. Ekki var farin sú leið með frumvarpinu að skylda Fiskistofu til að útvega hugbúnað til skila að aflaupplýsingum.
Hluti af sjálfsögðum rekstrarkostnaði
Öllum skipstjórum sem stunda veiðar í atvinnuskyni er skylt að halda afladagbækur. Upplýsingarnar sem fást úr þeim eru nýttar í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnun, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu og til annarra verkefna sem varða stjórnun fiskveiða. Fiskistofa útvegaði afladagbækur til skipa þegar upplýsingaskil voru á pappír en með tilkomu stafrænna lausna í atvinnulífi og stjórnsýslu var ákveðið að stefna að því að gera skil á aflaupplýsingum rafræn og var skylda Fiskistofu að útvega afladagbækur felld úr gildi með lögum 2020. Fiskistofa ítrekar að mestu skipti að Fiskistofa geti tekið við upplýsingunum frá þeim sem stunda veiðar í atvinnuskyni. Ekki er hægt að leggja þær skyldur á eftirlitsaðila að standa straum að kostnaði sem fellur til við skil á upplýsingum sem atvinnugreininni er skylt að standa skil á. Fiskistofa lítur á það sem hluta af eðlilegum rekstrarkostnaði þeirra sem nýta auðlindina að útvega þau tæki og tól sem þarf til að nýta auðlindina með ábyrgum hætti og tryggja eigið öryggi.