Hlutdeildasetning sandkola, sæbjúga og ígulkera
30. ágúst 2022
Fiskistofa hefur áætlað hlutdeildir byggt á löndunum í sandkola, sæbjúga og ígulkerum.
Fiskistofa hefur áætlað hlutdeildir byggt á löndunum í sandkola, sæbjúga og ígulkerum og má sjá hlutdeildir skipa og löndunargögn í meðfylgjandi excel-skjali.
Fiskistofa mun úthluta bráðabirgðaraflamakri sem nemur 80% af úthlutuðu aflamarki viðkomandi tegundar miðað við áætlaða hlutdeild skips í viðkomandi tegund. Útgerðir geta komið skriflegum athugasemdum á framfæri um veiðireynslu skipsins og óskað eftir tilfærslu á viðmiðun aflareynslu fyrir 1. október n.k. Eftir það tímamark mun Fiskistofa endurreikna aflahlutdeildir skipanna og klára úthlutun aflamarks eigi síðar en 1. nóvember n.k. Óheimilt er að flytja umræddar aflahlutdeildir af skipi fyrr en Fiskistofa hefur klárað úthlutun aflamarks.
Hlutdeildir í sandkola
Samkvæmt lögum nr. 64/2022 um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (veiðistjórn sandkola og hryggleysingja) skal Fiskistofa endurreikna aflahlutdeildir í sandkola við upphaf fiskveiðiársins 2022/2023 með eftirfarandi hætti:
a. Að 85/100 hlutum samkvæmt skráðum aflahlutdeildum hvers fiskiskips í sandkola við upphaf fiskveiðiársins 2022/2023.
b. Að 15/100 hlutum samkvæmt veiðireynslu hvers fiskiskips í sandkola á fiskveiðiárunum 2017/2018, 2018/2019 og 2019/2020 á svæðinu norðan skilgreinds aflamarkssvæðis fyrir sandkola sem afmarkast af Snæfellsnesi suður um að Stokksnesi.
Hlutdeildir í sæbjúga
Samkvæmt sömu lögum skal Fiskistofa einnig, við upphaf fiskveiðiársins 2022/2023, setja skipum sjálfstæða aflahlutdeild á hverju veiðisvæði samkvæmt reglugerð nr. 741/2019 um veiðar á sæbjúga með eftirfarandi hætti:
a. Svæði A–E: Samkvæmt aflareynslu skips á fiskveiðiárunum 2018/2019, 2019/2020 og 2020/2021 vestan 20°V.
b. Svæði F–H: Samkvæmt aflareynslu skips á fiskveiðiárunum 2018/2019, 2019/2020 og 2020/2021 austan 20°V.
Hlutdeildir í ígulkerum
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í reglugerð nr. 972/2022 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2022/2023 hefur Fiskistofa áætlað hlutdeildir í ígulkerum í samræmi við ákvæði 9. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Fiskistofa hefur áætlað hlutdeildir skipa á hverju veiðisvæði skv. 2. gr. reglugerðar nr. 765/2020 um veiðar á ígulkerum miðað við veiðireynslu fiskveiðiáranna 2019/2020, 2020/2021 og 2021/2022.
Þar sem veiðisvæði fiskveiðiárið 2019/2020 var ekki það sama þá hefur aflamagni þess árs verið skipt í sama hlutfalli og árin 2020/2021 og 2021/2022, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.