Göt á sjókví Arctic Seafarm við Kvígindisdal í Patreksfirði
25. ágúst 2023
Síðastliðinn sunnudag, 20. ágúst, barst Fiskistofu tilkynning um að göt hefði fundist á sjókví Arctic Seafarm við Kvígindisdal í Patreksfirði.
Viðbragðsáætlun fyrirtækisins var virkjuð og net lögð við sjókvínna sem göt höfðu fundist á. Eftirlitsmaður Fiskistofa tók þátt í að vitja um netin á mánudaginn, 21. ágúst. Ekki veiddust fiskar í netin.
Í framhaldi var viðhaft eftirlit meðal annars með dróna og sást til fiska í Ósá í Patreksfirði þriðjudaginn 22. ágúst. Fiskistofa gerði viðkomandi landeigendum viðvart og mælti fyrir um að Arctic Seafarm skyldi leggja net í sjó nálægt ósi Ósár, 23. ágúst, og einnig voru net lögð í Ósá. Var það gert og var eftirlitsmaður Fiskistofu með við lagningu neta. Fjórir laxar veiddust í netin sem allir höfðu eldiseinkenni. Fiskarnir verða afhentir Hafrannsóknastofnun til erfðagreininga og frekari rannsókna í dag.
Fiskistofa hefur mælt fyrir um það að fleiri net skuli lögð og að áfram verði netaveiði reynd í sjó í Patreksfirði um helgina. Fiskistofa fylgist náið með veiðunum og mun endurmeta þörf fyrir aðgerðir ef tilefni verður til.