Aðgerðir til að hindra útbreiðslu eldislaxa
14. september 2023
Fiskistofa hefur sent erindi til veiðifélaga með tilmælum um hvaða aðgerða heimilt er að grípa við þær aðstæður sem myndast hafa vegna eldislaxa í ám.
Fiskistofa hefur heimilað tímabundna lokun á laxastigum og lengt stangveiðitímabil laxa til varnar vistfræðilegu tjóni í veiðám og beint þeim tilmælum til allra veiðifélaga að grípa til þeirra ráðstafana. Veiðifélögum hefur einnig verið bent á að ef þau telji þörf á að grípa til frekari ráðstafana s.s. ádráttarveiði, leit með ljósum og veiðar í háf, eða rekköfun skulu þau hafa samband við Fiskistofu.
Fiskistofa hefur einnig beint tilmælum til veiðifélaga að gera Fiskistofu viðvart ef eldislaxar veiðar á veiðisvæði félagsins og senda meinta eldislaxa til Hafrannsóknastofnunar.
Fiskistofa mun áfram fylgjast náið með framgangi mála til að meta umfrang og tilefni nauðsynlegra aðgerða til varnar vistfræðilegu tjóni.
Hér má sjá erindið sem sent var á Landsamband veiðifélaga og á veiðifélög 12. september sl.