Prentað þann 4. des. 2024
1515/2022
Reglugerð um tilkynningarfrest slysa samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.
1. gr. Tilkynning um slys.
Þegar að höndum ber slys sem ætla má bótaskylt samkvæmt lögum nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga, með síðari breytingum, skal atvinnurekandi eða hinn tryggði, ef ekki er um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið til sjúkratryggingastofnunarinnar á því formi sem stofnunin ákveður.
Hinum slasaða eða þeim öðrum sem vilja gera kröfu til bóta vegna slyssins ber að fylgjast með því að tilkynningarskyldunni sé fullnægt og geta þessir aðilar leitað aðstoðar lögreglustjóra ef atvinnurekandi vanrækir tilkynninguna.
2. gr. Tilkynningarfrestur.
Ef sá sem átti að tilkynna um slys hefur vanrækt það skal það eigi vera því til fyrirstöðu að sá sem fyrir slysinu varð eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta ef það er gert áður en ár er liðið frá því að slys bar að höndum. Tilkynningarfrestur er því eitt ár frá slysdegi. Heimilt er þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta, enda séu ljós læknisfræðileg orsakatengsl milli slyssins og einkenna slasaða þegar tilkynning berst.
3. gr. Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests.
Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að orsakatengsl milli slyssins og einkenna slasaða séu ljós.
Ekki er heimilt að greiða bætur ef meira en 10 ár eru liðin frá slysdegi þar til tilkynning berst sjúkratryggingastofnuninni.
4. gr. Fyrning bótaréttar.
Bætur slysatrygginga almannatrygginga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, miskabætur og dánarbætur.
Bætur vegna sjúkrahjálpar og dagpeninga skal aldrei ákvarða lengra aftur í tímann en tvö ár frá þeim tíma þegar slysið var tilkynnt til sjúkratryggingastofnunarinnar.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 45/2015, sbr. 55. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, tekur gildi 1. janúar 2023. Frá sama tíma fellur niður reglugerð nr. 356/2005 um tilkynningarfrest slysa samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.
Heilbrigðisráðuneytinu, 9. desember 2022.
Willum Þór Þórsson.
Guðlaug Einarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.