Prentað þann 22. nóv. 2024
1466/2020
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 380/2013 um lofthæfi- og umhverfisvottun loftfara og tilheyrandi framleiðsluvara, hluta og búnaðar og vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja.
1. gr.
Við 3. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður svohljóðandi:
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/2226 frá 23. desember 2020 um tiltekna þætti flugöryggis að því er varðar lok aðlögunartímabilsins sem kveðið er á um í samningnum um útgöngu Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands úr Evrópusambandinu og Kjarnorkubandalagi Evrópu, eins og hún er tekin upp í EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 243/2020 frá 30. desember 2020.
2. gr.
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/2226, sem nefnd er í 1. gr., er birt sem fylgiskjal við reglugerð þessa.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. mgr. 28. gr., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 30. desember 2020.
F. h. r.
Hermann Sæmundsson.
Ólafur Kr. Hjörleifsson.
REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) 2020/2226 frá 23. desember 2020
um tiltekna þætti flugöryggis að því er varðar lok aðlögunartímabilsins sem kveðið er á um í samningnum um útgöngu
Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands úr Evrópusambandinu og Kjarnorkubandalagi Evrópu
EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 2. mgr. 100. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin, að höfðu samráði við efnahags- og félagsmálanefndina, að höfðu samráði við svæðanefndina, í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ([1]), og að teknu tilliti til eftirfarandi:
- Samningurinn um útgöngu Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands úr Evrópusambandinu og Kjarnorkubandalagi Evrópu ([2]) („útgöngusamningurinn“) var gerður af Sambandinu með ákvörðun ráðsins (ESB) 2020/135 ([3]) og öðlaðist gildi 1. febrúar 2020. Aðlögunartímabilinu, sem kveðið er á um í 126. gr. útgöngusamningsins („aðlögunartímabilið“), lýkur 31. desember 2020 en á því tímabili gilda lög Sambandsins áfram um og í Sameinaða konungsríkinu StóraBretlandi og Norður-Írlandi (Bretlandi) í samræmi við 127. gr. útgöngusamningsins.
- Meginmarkmið reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1139 ([4]) er að koma á og viðhalda samræmdu flugöryggi á háu stigi í Sambandinu. Í því skyni hefur verið komið á vottorðakerfi fyrir ýmsa flugstarfsemi til þess að ná tilskildu öryggisstigi og gera kleift að gera nauðsynlegar sannprófanir og viðurkenna gagnkvæmt útgefin vottorð.
- Margir hagsmunaaðilar á sviði flugöryggis geta gripið til ýmissa ráðstafana til að bregðast við þeim áhrifum sem lok aðlögunartímabilsins hefur á vottorð og samþykki ef ekki liggur fyrir samningur þar sem kveðið er á um ný tengsl milli Sambandsins og Bretlands á sviði flugöryggismála. Meðal þeirra ráðstafana má nefna framsal til flugmálayfirvalds á sviði almenningsflugs í einu af aðildarríkjunum og umsókn, fyrir lok aðlögunartímabilsins, um vottorð, sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins („Flugöryggisstofnunin“) gefur út, sem öðlast gildi daginn eftir lok aðlögunartímabilsins.
- Hins vegar verður að koma á sértækum ráðstöfunum að því er varðar sum vottorð til að bregðast við afleiðingunum fyrir lok aðlögunartímabilsins. Þetta á einkum við um hönnunarvottorð sem Flugöryggisstofnunin hefur gefið út fyrir lok aðlögunartímabilsins til hönnunarfyrirtækja sem eru með höfuðstöðvar sínar í Bretlandi eða sem eru gefin út af slíkum hönnunarfyrirtækjum sem samþykkt eru af Flugöryggisstofnuninni. Fram að þeim degi annaðist Flugöryggisstofnunin störf og verkefni „hönnunarríkisins“ samkvæmt Chicago-samningnum um alþjóðlegt almenningsflug og viðaukum við hann, fyrir hönd Bretlands, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 77. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Þegar aðlögunartímabilinu er lokið verða þessi störf og verkefni „hönnunarríkisins“ varðandi Bretland í höndum breskra flugmálayfirvalda á sviði almenningsflugs. Til að bregðast við þeirri breytingu hefur Bretland samþykkt löggjöf þar sem kveðið er á um að hönnunarvottorð, sem gefin eru út fyrir aðlögunartímabilið, teljist gefin út samkvæmt lögum Bretlands frá og með lokum aðlögunartímabilsins.
- Nauðsynlegt er að Sambandið geri sértækar ráðstafanir, hvað varðar loftför sem eru skráð í Sambandinu, til að tryggja að hönnun sem fellur undir slík hönnunarvottorð falli áfram undir hönnunarvottorð sem falla undir reglugerð (ESB) 2018/1139 eftir að aðlögunartímabilinu er lokið. Þessar sértæku ráðstafanir ættu að gera hlutaðeigandi flugrekendum/umráðendum loftfara kleift að halda áfram að nota þær framleiðsluvörur sem um er að ræða. Því er nauðsynlegt að kveða á um að Flugöryggisstofnunin eða, eftir því sem við á, hönnunarfyrirtæki, sem hún hefur samþykkt, séu talin hafa gefið út hönnunarvottorðin fyrir þessa hönnun frá og með deginum eftir lok aðlögunartímabilsins. Í reglugerð (ESB) 2018/1139 og viðeigandi gerðum framkvæmdastjórnarinnar er fjallað um slík hönnunarvottorð, sem gefin eru út á grundvelli þess að umrætt loftfar sé skráð í aðildarríki, þó svo að hönnunarríkið sé þriðja land.
- Nauðsynlegt er að skýra að þessi hönnunarvottorð falla undir viðeigandi reglur sem settar eru fram í reglugerð (ESB) 2018/1139 og viðeigandi framkvæmdargerðum og framseldum gerðum, sem samþykktar eru í krafti hennar eða í krafti reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008 ([5]), einkum þeirra sem gilda um vottun hönnunar og lögbundnar upplýsingar um áframhaldandi lofthæfi.
- Í ljósi þess hversu lok aðlögunartímabilsins er brýnt málefni er talið viðeigandi að veita undanþágu frá átta vikna frestinum, sem um getur í 4. gr. bókunar 1 um hlutverk þjóðþinga í Evrópusambandinu sem fylgir sáttmálanum um Evrópusambandið, sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu.
- Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að viðhalda samræmdu öryggi á háu stigi í almenningsflugi í Sambandinu, og því verður betur náð á vettvangi Sambandsins, vegna umfangs þess og áhrifa, er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná því markmiði.
- Þessi reglugerð ætti að öðlast gildi sem fyrst og ætti að koma til framkvæmda frá og með deginum eftir að aðlögunartímabilinu lýkur, nema samningur milli Evrópusambandsins og Bretlands um málefni á sviði öryggis í almenningsflugi er varða hönnunarvottorð, sem fjallað er um í þessari reglugerð, hafi öðlast gildi fyrir þann dag eða gildir til bráðabirgða fyrir þann dag,
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr. Efni og gildissvið
- Í þessari reglugerð er mælt fyrir um sértæk ákvæði, með tilliti til loka aðlögunartímabilsins, um tiltekin vottorð vegna flugöryggis sem gefin eru út samkvæmt reglugerð (EB) nr. 216/2008 eða reglugerð (ESB) 2018/1139 fyrir einstaklinga og lögaðila sem hafa höfuðstöðvar sínar í Bretlandi.
- Þessi reglugerð skal gilda um hönnunarvottorðin sem talin eru upp í viðaukanum,sem eru í gildi daginn áður en þessi reglugerð kemur til framkvæmda og sem hafa verið gefin út af Flugöryggisstofnuninni fyrir einstaklinga og lögaðila, sem hafa höfuðstöðvar sínar í Bretlandi, eða af hönnunarfyrirtæki, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Bretlandi.
- Þessi reglugerð skal aðeins gilda að því er varðar loftför sem skráð eru í Sambandinu.
2. gr. Skilgreiningar
Í þessari reglugerð gilda samsvarandi skilgreiningar og er að finna í reglugerð (ESB) 2018/1139 sem og í framseldum gerðum og framkvæmdargerðum, sem eru samþykktar samkvæmt þeirri reglugerð og reglugerð (EB) nr. 216/2008.
3. gr. Gildistími vottorða
Hönnunarvottorðin, sem um getur í 2. mgr. 1. gr., skulu teljast hafa verið gefin út frá og með dagsetningunni sem um getur í 2. mgr. 5. gr.:
- af Flugöryggisstofnuninni, að því er varðar vottorðin sem um getur í 2. mgr. 1. gr. sem Flugöryggisstofnunin gaf út,
- af fyrirtæki sem samþykkt er að Flugöryggisstofnuninni að því er varðar vottorðin sem um getur í 2. mgr. 1. gr. sem hönnunarfyrirtæki, sem samþykkt er af Flugöryggisstofnuninni, gaf út.
4. gr. Reglur og skuldbindingar varðandi vottorð sem 3. gr. gildir um
- Vottorðin, sem 3. gr. þessarar reglugerðar gildir um, falla undir reglur sem gilda um þau samkvæmt reglugerð (ESB) 2018/1139 og viðeigandi framkvæmdargerðum og framseldum gerðum, sem samþykktar eru í krafti þeirrar reglugerðar eða í krafti reglugerðar (EB) nr. 216/2008, einkum reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 748/2012 ([6]).
- Flugöryggisstofnunin skal hafa þær valdheimildir sem komið er á með reglugerð (ESB) 2018/1139 og með viðeigandi framkvæmdargerðum og framseldum gerðum, sem samþykktar eru samkvæmt henni og reglugerð (EB) nr. 216/2008, að því er varðar aðila sem hafa höfuðstöðvar sínar í þriðja landi.
5. gr. Gildistaka og framkvæmd
- Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
- Reglugerð þessi kemur til framkvæmda frá og með deginum eftir þann dag þegar lög Sambandsins hætta að gilda um Bretland og í Bretlandi skv. 126. og 127. gr. útgöngusamningsins.
- Þessi reglugerð skal þó ekki koma til framkvæmda ef samningur milli Sambandsins og Bretlands um málefni á sviði öryggis í almenningsflugi varðandi hönnunarvottorðin, sem um getur í 2. mgr. 1. gr. þessarar reglugerðar, hefur öðlast gildi eða, eftir atvikum, gildir til bráðabirgða fyrir dagsetninguna sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 23. desember 2020.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
D. M. SASSOLI M. ROTH forseti. forseti.
VIÐAUKI
SKRÁ YFIR VOTTORÐ SEM UM GETUR Í 1. GR.
- B-kafli A-þáttar 21. hluta í I. viðauka reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 748/2012 (7) (tegundarvottorð og takmörkuð tegundarvottorð)
- D-kafli A-þáttar 21. hluta í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 748/2012 (breytingar á tegundarvottorðum og takmörkuðum tegundarvottorðum)
- E-kafli A-þáttar 21. hluta í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 748/2012 (viðbótartegundarvottorð)
- M-kafli A-þáttar 21. hluta í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 748/2012 (viðgerðir)
- O-kafli A-þáttar 21. hluta í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 748/2012 (evrópskar tækniforskriftarheimildir)
- J-kafli A-þáttar 21. hluta í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 748/2012 (samþykki fyrir hönnunarfyrirtæki)
[1] Afstaða Evrópuþingsins frá 18. desember 2020 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 22. desember 2020.
[2] Stjtíð. ESB L 29, 31.1.2020, bls. 7.
[3] Ákvörðun ráðsins (ESB) 2020/135 frá 30. janúar 2020 um gerð samningsins um útgöngu Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og NorðurÍrlands úr Evrópusambandinu og Kjarnorkubandalagi Evrópu (Stjtíð. ESB L 29, 31.1.2020, bls. 1).
[4] Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1139 frá 4. júlí 2018 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 2111/2005, (EB) nr. 1008/2008, (ESB) nr. 996/2010, (ESB) nr. 376/2014 og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB og 2014/53/ESB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 og (EB) nr. 216/2008 og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 (Stjtíð. ESB L 212, 22.8.2018, bls. 1).
[5] Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008 frá 20. febrúar 2008 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfellingu tilskipunar ráðsins 91/670/EBE, reglugerðar (EB) nr. 1592/2002 og tilskipunar 2004/36/EB (Stjtíð. ESB L 79,
19.3.2008, bls. 1).
[6] Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 748/2012 frá 3. ágúst 2012 um framkvæmdarreglur varðandi lofthæfi- og umhverfisvottun loftfara og tilheyrandi framleiðsluvara, hluta og búnaðar og varðandi vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja (Stjtíð. ESB L 224, 21.8.2012, bls. 1).
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.