Prentað þann 22. nóv. 2024
1250/2020
Reglugerð um endurnýjanlegt eldsneyti sem telur tvöfalt í markmiði laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, með síðari breytingum.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um þær tegundir endurnýjanlegs eldsneytis sem telja má tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, með síðari breytingum.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:
- Endurnýjanlegt eldsneyti: Eldsneyti sem er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
- Leifar: Hvers kyns efni eða hlutir sem verða afgangs að loknu framleiðsluferli, þegar meginmarkmið framleiðslunnar er ekki að framleiða viðkomandi efni eða hlut.
- Lífeldsneyti: Endurnýjanlegt eldsneyti, í formi vökva eða gass, sem er unnið úr lífmassa.
- Lífmassi: Lífbrjótanlegur hluti afurða. Úrgangur og leifar af lífrænum uppruna frá landbúnaði, skógrækt og tengdum iðnaði, fiskveiðum og fiskeldi ásamt lífrænum hluta úrgangs frá iðnaði og heimilum.
- Losun gróðurhúsalofttegunda: Það magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar í andrúmsloftið á lífsferli eldsneytis frá framleiðslu til og með notkun.
- Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt.
3. gr.
Endurnýjanlegt eldsneyti með tvöfalt vægi.
A-hluti. Hráefni og eldsneyti hvers orkuinnihald má telja tvöfalt skv. 3. gr. laga nr. 40/2013:
- Þörungar, ef þeir eru ræktaðir á landi í tjörnum eða í ljósræktunartönkum (e. photobioreactor).
- Lífmassahluti úr blönduðum heimilis- og rekstrarúrgangi en ekki flokkuðu húsasorpi sem fellur undir endurvinnslumarkmið skv. a-lið 2. mgr. 11. gr. tilskipunar 2008/98/EB um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana.
- Lífúrgangur, eins og hann er skilgreindur í 4. mgr. 3. gr. tilskipunar 2008/98/EB, frá einkaheimilum með fyrirvara um sérstaka söfnun eins og skilgreint er í 11. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar.
- Lífmassahluti úr iðnaðarúrgangi, sem er ekki hæfur til notkunar í matvæla- eða fóðurferli, þ.m.t. efni úr heildsölu- og smásöluiðnaði, efni sem fellur til í matvælaiðnaði, í landbúnaði, í fiskvinnslustöðvum og í lagareldisiðnaði, að undanskildum hráefnum sem eru talin upp í B‑hluta þessarar greinar.
- Hálmur.
- Húsdýraáburður og skólpeðja.
- Frárennsli frá pálmaolíuverksmiðjum og tómir klasar olíupálmaaldina.
- Furuolíubik.
- Óunnið glýserín.
- Kraminn sykurreyr.
- Þrúguhrat og víndreggjar.
- Hnetuskurn.
- Klíð.
- Kólfar sem búið er að hreinsa maískorn af.
- Lífmassahluti úr úrgangi og leifar úr skógrækt og iðnaði sem byggir á skógafurðum, t.d. börkur, greinar, grisjaður viður sem ekki hefur verið settur í sölu, lauf, nálar, trjátoppar, sag, spænir, svartlútur, brúnlútur, trefjaeðja, lignín og furuolía.
- Önnur sellulósaefni sem eru ekki matvæli, eins og skilgreint er í s-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun 2009/28/EB um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
- Annað lignósellulósaefni eins og skilgreint er í r-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB, að undanskildum sögunar- og spónabolum.
- Endurnýjanlegt fljótandi og loftkennt flutningaeldsneyti af ólífrænum uppruna.
- Kolefnisföngun og notkun til flutninga, ef orkugjafinn er endurnýjanlegur í samræmi við a-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB.
- Bakteríur, ef orkugjafinn er endurnýjanlegur í samræmi við a-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB.
B-hluti. Hráefni hvers orkuinnihald má telja tvöfalt skv. 3. gr. laga nr. 40/2013:
- Notuð olía til matargerðar.
- Dýrafita sem flokkast í 1. og 2. flokk í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1774/2002 (reglugerð um aukaafurðir úr dýrum).
4. gr. Raforka.
Til að ná markmiðum 3. gr. laga, nr. 40/2013, má telja tvöfalt orkuinnihald raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum og nýtt er til hleðslu raf- og tengiltvinnbíla til nota í samgöngum á landi.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. nóvember 2020.
F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,
Ingvi Már Pálsson.
Erla Sigríður Gestsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.