Prentað þann 28. des. 2024
1128/2019
Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
1. gr.
Við 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó er heimilt að telja atvinnutekjur til tekna greiðsluþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað.
2. gr.
1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Komi fram upplýsingar frá þeim aðilum sem getið er um í 1. mgr. 3. gr. eða við eftirlit Tryggingastofnunar sem leiða til breytinga á tekjuáætlun innan ársins og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna skal stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær upplýsingar og upplýsa bótaþega samstundis um breytinguna. Telji bótaþegi upplýsingarnar ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar.
3. gr.
Á eftir 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein sem orðast svo:
Ef um atvinnutekjur er að ræða skal Tryggingastofnun við endurreikning bótafjárhæða gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.
4. gr.
Á eftir 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein sem orðast svo:
Við endurreikning bóta til þeirra sem fá atvinnutekjur, sbr. 3. mgr. 6. gr., gildir eftirfarandi:
- Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða atvinnutekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
- Aðrar atvinnutekjur en þær sem greinir í a-lið skulu hafa áhrif á endurreikning bóta í samræmi við 2. og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar. Þó er heimilt að telja þær atvinnutekjur til tekna í þeim mánuðum sem þeirra er aflað komi fram ósk greiðsluþega um það og að því tilskildu að greiðsluþegi leggi fram fullnægjandi gögn til staðfestingar á því hvenær teknanna var aflað.
5. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 13. mgr. 16. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2020.
Félagsmálaráðuneytinu, 13. desember 2019.
Ásmundur Einar Daðason.
Gunnhildur Gunnarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.