Prentað þann 22. nóv. 2024
1025/2022
Reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.
I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að öryggi barna og annarra í leik og umgengni við þar til gerð leikvallatæki eða leiksvæði með því að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frágengin og þeim viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin gildir um öryggi leiksvæða og leikvallatækja og annarra tækja sem börn nota til leikja á skipulögðum leiksvæðum og eftirlit með þeim, hvort sem um er að ræða tímabundna starfsemi eða til frambúðar. Reglugerðin gildir einnig um skapandi leiksvæði.
Reglugerðin gildir um tæki sem falla undir viðauka I og IV.
Um öryggi leiktækja sem ætluð eru til einkanota fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með því að leiktæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi.
3. gr. Skilgreiningar.
Aðalskoðun er skoðun sem ætlað er að staðfesta öryggi tækisins, undirstöðu þess og umhverfis.
Áhættumat er kerfisbundin greining og flokkun áhættuþátta þar sem áhætta er metin í ljósi þess hversu líklegt er að slys verði og hversu alvarlegur áverki geti orðið.
Eftirlitsskoðun á framkvæmdastigi er skoðun sem gerð er á frágangi öryggisundirlags, að gengið sé frá því eins og leiðbeiningar framleiðanda segja til um og tekið sé mið af veðurfari þar sem undirlaginu er komið fyrir. Skoðunin gengur einnig úr skugga um að jarðfestingar tækja séu settar niður samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda.
ÍST EN staðall er staðall sem er samþykktur af evrópskum staðlasamtökum (CEN, CENELEC eða ETSI) og staðfestur af Staðlaráði Íslands sem íslenskur staðall.
Leiksvæði er svæði, hvort sem er innan dyra eða utan, skipulagt fyrir leik barna svo sem í eða við leikskóla, grunnskóla, gæsluvelli og opin leiksvæði. Einnig leiksvæði annarra aðila þar sem börn eiga greiðan aðgang eða sem er ætlað börnum svo sem í eða við fjöleignarhús með sameiginlegu svæði, þjónustusvæði frístundahúsa, tjaldsvæði, skapandi leiksvæði, í verslunarhúsnæði, á veitingastöðum og samkomustöðum.
Leiktæki er leikfang til heimilisnota þar sem stoðvirkið er kyrrstætt á meðan leikið er og sem er ætlað til að barn geti gert eftirfarandi: klifrað, hoppað, rólað, rennt sér, ruggað, snúið og skriðið eða einhverja samsetningu þessara athafna.
Leikvallatæki er þar til gert tæki eða mannvirki, þar með talið hlutar þess, sem börn leika sér í eða á utanhúss og innanhúss og almenningur hefur aðgang að.
Reglubundin yfirlitsskoðun er skoðun sem ætlað er að greina augljósa hættu sem meðal annars má rekja til skemmda, notkunar eða veðurs.
Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi rekstri.
Rekstrarhandbók er handbók sem inniheldur nauðsynlegar upplýsingar um leiksvæðið, leikvallatæki, önnur tæki sem falla undir reglugerð þessa og öryggisundirlag og annan þann búnað sem staðsettur er á leiksvæðinu sem og uppsetningu, rekstur, breytingar, lagfæringar, öryggi og niðurstöður innra eftirlits, utanaðkomandi úttektir og eftirlit heilbrigðisnefndar.
Rekstrarskoðun er skoðun sem er ítarlegri en reglubundin yfirlitsskoðun og lýtur að virkni og stöðugleika leikvallatækisins, skoðun á öryggisundirlagi og öryggi leiksvæðisins og felst í verklegri yfirferð, viðhaldi og viðgerðum.
Skoðun eftir slys er skoðun óháðs aðila í kjölfars alvarlegs slyss til að ganga úr skugga um hvort rekja megi slysið til leikvallatækis eða öryggisundirlags.
Yfirborðsefni eru þau efni sem notuð eru á yfirborði leiksvæða, svo sem gras, möl, sandur, hellur, malbik, timburpallar og samsvarandi. Einnig yfirborðsefni sem hafa eiginleika til dempunar falls, svo sem öryggisundirlag, sbr. ÍST EN 1177 og ÍST EN 1176-1.
4. gr. Úttekt og starfsleyfi.
Fyrsta aðalskoðun, þ.e. upphafsskoðun, skal fara fram eftir uppsetningu leikvallatækja og annars búnaðar áður en nýtt leiksvæði er tekið í notkun. Aðalskoðun skal einnig fara fram áður en leiksvæði er aftur tekið í notkun eftir umfangsmiklar breytingar, endurgerð og viðhald. Áður en leiksvæði er tekið í notkun skal jafnframt fara fram öryggisúttekt byggingarfulltrúa samkvæmt byggingarreglugerð, sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða.
Um starfsleyfi og starfsleyfisskyldu leiksvæða fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti.
5. gr. Ábyrgð.
Rekstraraðili ber ábyrgð á að leiksvæði og leikvallatæki þess sé samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar og skal kynna ákvæði reglugerðarinnar, innra eftirlit og starfsleyfisskilyrði fyrir starfsmönnum sínum. Á heimasíðum grunn- og leikskóla skal rekstraraðili setja upplýsingar um öryggismál á viðkomandi skólalóð og jafnframt hvetja forráðamenn barna í leik- og grunnskóla til að kynna sér öryggismál á skóla- og leikskólalóðum og upplýsa um hvar hægt er að koma ábendingum á framfæri um það sem betur má fara. Eigendur fjöleignarhúsa bera ábyrgð á rekstri og eftirliti leiksvæða við sín hús. Tilkynna skal leikvallatæki við hús eða á lóð fjöleignarhúsa til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Rekstraraðili ber ábyrgð á að innra eftirlit með leiksvæði sé virkt, sbr. 12. gr. Til að tryggja öryggi á öllum stigum framkvæmda ber rekstraraðili ábyrgð á að nauðsynlegt samstarf á hönnunarstigi fari fram og skal hann fá til verksins hæfan verktaka/framkvæmdaaðila sem fer eftir fyrirmælum hönnuðar og leiðbeiningum sem fylgja með tækjum um uppsetningu þeirra og frágang. Rekstraraðili skal jafnframt tryggja að verktaki sem annast uppsetningu og frágang leiksvæða og leikvallatækja hafi til þess tilskilin réttindi, t.d. réttindi á sviði skrúðgarðyrkju þar sem við á, eða viðeigandi hæfni.
Framleiðandi er ábyrgur fyrir að leggja fram vottun á því að leikvallatæki og öryggisundirlag uppfylli kröfur er fram koma í stöðlum ÍST EN 1176 og ÍST EN 1177 og öðrum stöðlum sem snerta búnað og tæki sem reglugerðin nær yfir. Framleiðandi er jafnframt ábyrgur fyrir því að leggja fram leiðbeiningar um uppsetningu, frágang og viðhald tækja. Sé söluaðili annar en framleiðandi skal hann leggja fram vottun og leiðbeiningar, skv. 1. og 2. ml.
6. gr. Rekstrarhandbók.
Rekstraraðili skal halda rekstrarhandbók fyrir starfsemi sem fellur undir reglugerð þessa, í samræmi við viðauka V. Rekstrarhandbók skal vera aðgengileg á rafrænan hátt fyrir eftirlitsaðila og skoðunaraðila.
II. KAFLI Almenn ákvæði um leiksvæði.
7. gr. Umhverfi.
Við frágang leiksvæða, aðkomu og umhverfis skal þess gætt, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, að öryggi og aðgengi notenda verði sem best tryggt.
Hvert leiksvæði skal merkt með sýnilegum hætti með t.d. nafni, heimilisfangi og auðkennisnúmeri svæðis. Nánari ákvæði um innihald merkinga leikvallasvæðis skal vera í leiðbeiningum Umhverfisstofnunar.
Óheimilt er að staðsetja leiksvæði þar sem ætla má að börnum geti stafað hætta eða ónæði af umhverfinu svo sem frá umferð, vegna fallhættu, hruns eða hættu á drukknun.
Aðkoma að svæðinu fyrir gangandi, hjólandi og eftir atvikum akandi vegfarendur skal vera þannig að ekki skapist óþarfa hætta á og við leiksvæðið. Aðkoma sjúkrabíla og annarra neyðartækja, svo sem slökkviliðs og lögreglu skal vera merkt.
Umferð vél- og rafknúinna farartækja er bönnuð á leiksvæðum utan þess sem nauðsyn krefur, svo sem vegna viðhalds eða endurnýjunar tækja og búnaðar.
Hindra skal að börn geti hlaupið beint út af leiksvæði þangað sem umferð er.
Á leiksvæðum skal vera góð lýsing eftir því sem við á.
Þar sem grindverk og hlið eru á lóðum leiksvæða skal frágangi þeirra þannig hagað að börnum stafi ekki hætta af.
Við framkvæmdir og viðhald leiksvæða skal taka tillit til eðlis starfseminnar.
Skapandi leiksvæði geta verið hluti af hefðbundnu leiksvæði eða eitt og sér og skulu ávallt vera undir eftirliti og á ábyrgð rekstraraðila. Á skapandi leiksvæðum og náttúrulegum leiksvæðum skal efniviður taka mið af gildandi stöðlum ÍST EN 1176 og ÍST EN 1177, sbr. viðauka I.
8. gr. Hreinlæti.
Rekstraraðili leiksvæðis skal halda leiksvæði snyrtilegu.
Um frágang, viðhald og sandskipti í sandkössum skal fara eftir leiðbeiningum Umhverfisstofnunar.
Á og við leiksvæði skal gert ráð fyrir að hægt sé að losa rusl og sorp eftir því sem við á.
Rekstraraðili leiksvæðis skal sjá um að rusl sé fjarlægt reglulega, sbr. ákvæði reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Hættulegt rusl ber að fjarlægja jafnóðum, svo sem tóbak, sprautunálar og gler.
III. KAFLI Öryggi.
9. gr. Öryggi leiksvæða.
Við frágang leikvallatækja á lóðum og annars búnaðar sem er tengdur þeim skal þess gætt, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, að öryggi og aðgengi notenda verði sem best tryggt. Leikvallatæki skulu þannig gerð, staðsett og frágengin að ekki skapist hætta á slysum við notkun þeirra.
Til að tryggja öryggi barna á leiksvæðum skal við hönnun og gerð leiksvæða fara eftir ákvæðum í viðauka II.
Leiktæki má ekki setja upp á leiksvæði sem almenningur hefur aðgang að.
10. gr. Öryggi leikvallatækja.
Þeir sem flytja inn, framleiða, markaðssetja, leigja eða dreifa leikvallatækjum hér á landi eða ætla að flytja þau út til annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu skulu geta sýnt fram á að viðkomandi tæki uppfylli kröfur sem fram koma í stöðlum um leikvallatæki og undirlag þeirra, ÍST EN 1176 ásamt ÍST EN 1177 sem taldir eru upp í viðauka I. Þetta skal a.m.k. gert með yfirlýsingu framleiðenda, ásamt prófunarniðurstöðu þar sem fram skulu koma tæknilegar upplýsingar um einstök leikvallatæki unnin af aðila með sérþekkingu á framangreindum stöðlum.
Með leikvallatækjum sem sett eru á markað skulu fylgja leiðbeiningar um uppsetningu og viðhald tækjanna svo og upplýsingar um þá staðla sem framleiðslan byggist á. Teikningar af tækinu fullbúnu skulu enn fremur fylgja með, upplýsingar um nauðsynleg verkfæri og önnur hjálpargögn við uppsetningu tækjanna.
Upplýsingar um ráðlagða notkun og fyrir hvaða aldurshópa tækið er skulu fylgja með leikvallatækjum. Ef tækið er eingöngu ætlað til notkunar innanhúss skal greint frá því sérstaklega með viðeigandi merkingum.
Leikvallatæki sem sett eru á markað hér á landi skulu merkt nafni framleiðanda, vörumerki hans eða öðru kennimerki. Ef um er að ræða erlenda framleiðslu skal nafn innflytjenda koma fram á leikvallatækinu.
Allar upplýsingar er varða rétta samsetningu, uppsetningu, viðhald og notkun leikvallatækja skulu fylgja með á íslensku.
11. gr. Hönnun leikvallatækja.
Hönnun, framleiðsla, frágangur og viðhald leikvallatækis og öryggisundirlags þess skal vera þannig að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi af leik í tækinu þegar það er notað eins og til er ætlast eða eins og búast má við að það sé notað. Öryggisundirlag skal vera samkvæmt ÍST EN 1177. Taka skal mið af veðurfari á hverjum þeim stað sem því er komið fyrir og skal Umhverfisstofnun setja leiðbeiningar þar sem m.a. skal tilgreina til hvaða aðgerða/úrræða skuli grípa við mismunandi veðurfarsaðstæður, svo sem til tímabundinnar lokunar svæða eða stýringar á notkun.
Þar sem það á við skulu leikvallatæki sérstaklega merkt með áberandi hætti hvaða aldri barna þau eru ætluð. Umhverfisstofnun skal hafa upplýsingar um staðlaðar merkingar skv. 1. ml. á heimasíðu sinni.
Mörk, körfuboltaspjöld, ærslabelgi og samsvarandi búnað skal festa tryggilega niður. Að öðru leyti skal fara eftir stöðlum sem taldir eru upp í viðauka IV.
12. gr. Slys.
Skráning slysa skal vera rafræn í samræmi við rafrænt slysaskráningarblað. Skráning slysa í leikskóla skal vera samkvæmt handbók um velferð og öryggi barna í leikskólum, sbr. reglugerð um starfsumhverfi leikskóla. Skráning slysa í grunnskóla skal vera samkvæmt handbók um velferð og öryggi barna í grunnskólum, sbr. reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.
Forstöðumenn grunn- og leikskóla og rekstraraðilar opinna leiksvæða skulu tilkynna alvarleg slys, svo og slys sem telja má að rekja megi til leikvallatækis, búnaðar eða leiksvæðis, til heilbrigðiseftirlits.
IV. KAFLI Eftirlit með leikvallatækjum og leiksvæðum.
13. gr. Eftirlit.
Eftirlit með leikvallatækjum og leiksvæðum skal vera í samræmi við kröfur samkvæmt staðlaröðinni ÍST EN 1176 ásamt ÍST EN 1177 sem taldir eru upp í viðauka I. Við endurútgáfu staðla er heimilt að nota þá útgáfu sem fellur úr gildi í tólf mánuði eftir gildistöku þess nýrri. Eftirlit með öðrum tækjum sem falla undir reglugerð þessa skal fara eftir stöðlum sem taldir eru upp í viðauka IV.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi, þ.e. markaðssetningu á nýjum leikvallatækjum. Um málsmeðferð og réttarfarsúrræði fer eftir ákvæðum laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.
Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar varðandi leikvallatæki í notkun og öryggi leiksvæða. Tíðni þess eftirlits er háð mati eftirlitsaðila og við slíkt mat skal tekið tillit til umfangs og innra eftirlits þess leiksvæðis sem um ræðir.
Rekstraraðili ber ábyrgð á að innra eftirlit á leiksvæðum og með leikvallatækjum sé virkt.
Heilbrigðisfulltrúi skal hafa aðgang að rekstrarhandbók, þ.e. öllu skráðu og skjalfestu efni er eftirlitið varðar, svo sem skráningu á innra eftirliti. Skoðunaraðili skal senda upplýsingar um aðalskoðun til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Heilbrigðisnefnd metur tíðni milli aðalskoðunar, sbr. ákvæði 14. gr.
14. gr. Innra eftirlit.
Innra eftirlitið er eftirlit rekstraraðila og skal framkvæmt samkvæmt gátlistum og ákvæðum ÍST EN 1176 og ÍST EN 1177 hvað varðar leikvallatæki og undirlag. Hvað varðar önnur tæki sem falla undir reglugerð þessa skal fara eftir ákvæðum staðla sem taldir eru upp í viðauka IV. Innra eftirlit skal færa rekstrarhandbók, sbr. ákvæði 6. gr. Jafnframt skal tilgreina til hvaða úrbóta skuli grípa þegar frávik verða frá ákvæðum reglugerðarinnar og hvenær úrbótum var lokið.
Innra eftirlit greinist í reglubundna yfirlitsskoðun, rekstrarskoðun og aðalskoðun, sbr. ákvæði í viðauka III. Rekstraraðili ber ábyrgð á innra eftirliti og að eftirlitsskoðun á framkvæmdastigi fari fram. Tilgreindur ábyrgðaraðili skal vera að hverjum eftirlitsþætti innra eftirlits og skal hann gera rekstraraðila viðvart um það sem aflaga fer og benda á nauðsynlegar úrbætur. Rekstraraðili skal gera nauðsynlegar úrbætur eða taka hlutaðeigandi tæki úr notkun.
Aðalskoðun skal framkvæmd samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda leikvallatækja af óháðum aðila sem hlotið hefur faggildingu samkvæmt kröfum ÍST ISO/IEC 17020. Umhverfisstofnun skal halda lista yfir þá sem eru með faggildingu til aðalskoðunar.
Eftir fyrstu aðalskoðun, þ.e. upphafsskoðun, skal aðalskoðun framkvæmd árlega komi fram frávik með talsverðri eða hámarks áhættu við aðalskoðun eða að rekstrarskoðun hafi ekki verið sinnt. Heilbrigðisnefnd metur alvarleika frávika og hvort að það þurfi að fylgja þeim eftir. Leiði aðalskoðun ekki í ljós alvarleg frávik eða rekstraraðili hefur brugðist við frávikum og bætt úr og rekstrarskoðun sinnt er heilbrigðisnefnd heimilt að ákveða lengri tíðni milli aðalskoðana en þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Nefndin skal meta tíðnina út frá niðurstöðum aðalskoðunar, niðurstöðum rekstrarskoðana og áhættu.
Rekstraraðili skal fyrir 1. febrúar ár hvert senda hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd upplýsingar um niðurstöður rekstraskoðana liðins árs. Jafnframt skal rekstraraðili birta niðurstöðurnar á heimasíðu sinni.
Verði alvarlegt slys skal án tafar taka leikvallatækið, undirlag þess, búnaðinn og/eða svæðið þar sem slysið varð úr notkun og framkvæma skoðun samkvæmt ákvæðum staðalsins ÍST EN 1176 ásamt ÍST EN 1177 sem taldir eru upp í viðauka I, til að hægt sé að lagafæra tækið eða hluta þess eða öryggisundirlagið í kringum það. Sama á við um önnur tæki sem falla undir reglugerð þessa og skal fara eftir ákvæðum staðla sem taldir eru upp í viðauka IV. Sé ekki mögulegt að bæta úr þannig að tækið og öryggisundirlagið verði öruggt skal taka tækið varanlega úr notkun. Rekstraraðili skal tilkynna slysið með formlegum hætti til framleiðanda/innflytjanda.
V. KAFLI Ýmis ákvæði.
15. gr. Undanþágur.
Rekstraraðilar leiksvæða sem hafa sérstakt menningar- og sögulegt gildi geta sótt um undanþágu frá einstökum ákvæðum 4., 5., 6., 9., 10., 11., 13. og 14. gr. sem gilda um leiksvæðið og leikvallatækin til Umhverfisstofnunar, enda sé umrætt leiksvæði sérstakt, um 50 ára gamalt eða eldra og hafi frá upphafi verið og sé enn hluti af sérstöðu sveitarfélags. Umsókn um undanþágu skal fylgja rökstuðningur um sérstöðu svæðisins, sögulegt ágrip, rökstuðningur fyrir undanþágunni og greinargerð um hvað sé gert til að tryggja öryggi á svæðinu. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar áður en undanþága er veitt. Afmarka skal undanþáguna á þann hátt að tryggja sem best öryggi barna og annarra í leik og umgengni við leikvallatæki og leiksvæði. Heilbrigðisnefnd skal taka mið af veittri undanþágu við gerð starfsleyfis og eftir aðstæðum setja inn sértækar kröfur til að tryggja öryggi. Skilyrði undanþágu er að merkt sé með skýrum og sýnilegum hætti á svæðinu að leiksvæðið og tækin uppfylli ekki að fullu reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða.
16. gr. Valdsvið, viðurlög og þvingunarúrræði.
Um valdsvið, viðurlög og þvingunarúrræði fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
17. gr. Lagastoð, gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu að höfðu samráði við innviðaráðherra. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 30. ágúst 2022.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.