Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 24. sept. 2022

1025/2021

Reglugerð um Ask – mannvirkjarannsóknarsjóð.

1. gr. Askur - mannvirkjarannsóknarsjóður.

Reglugerð þessi gildir um Ask - mannvirkjarannsóknarsjóð, sem er í eigu ríkisins og ber ríkið ábyrgð á skuldbindingum hans. Sjóðurinn heyrir stjórnarfarslega undir innviðaráðherra.

Hlutverk sjóðsins, sem stofnaður var með lögum nr. 25/2021, er að veita styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar í samræmi við markmið laga nr. 160/2010, um mannvirki.

2. gr. Fjármögnun.

Askur er samkeppnissjóður. Sjóðurinn er fjármagnaður sameiginlega af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

Ráðstöfunarfé sjóðsins samanstendur af framlögum frá innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu ásamt öðrum tekjum og framlögum eftir því sem þeim er til að dreifa.

Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af ráðstöfunarfé hans.

3. gr. Stjórn og dagleg umsýsla.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast framkvæmd reglugerðar þessarar, þ.m.t. rekstur og daglega umsýslu sjóðsins, stjórnsýslu, framkvæmd úthlutunar og samskipti við fagráð sjóðsins. Sjóðurinn starfar á grundvelli laga um mannvirki, reglugerðar þessarar og starfsreglna sjóðsins sem er ætlað að tryggja gegnsæi og fagleg vinnubrögð við stjórnun sjóðsins.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mótar áherslur hverrar úthlutunar, í samstarfi við hagaðila og fagráð sjóðsins, og ber undir innviðaráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til samþykktar. Við þá mótun skal horfa til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslna í nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.

Ráðherra setur starfsreglur fyrir sjóðinn, að fenginni tillögu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í reglunum skal m.a. kveðið á um fyrirkomulag auglýsinga, meðferð og mat umsókna, framkvæmd úthlutunar og eftirfylgni styrkveitinga.

4. gr. Fagráð Asks - mannvirkjarannsóknarsjóðs.

Ráðherra skipar fimm manna fagráð Asks - mannvirkjarannsóknarsjóðs til þriggja ára í senn. Fagráð skal skipað fulltrúum með sérþekkingu á sviði mannvirkjamála tilnefndum af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, samstarfsnefnd háskólastigsins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samtökum iðnaðarins. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti. Fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er formaður fagráðsins.

Fagráð skal annast faglegt mat umsókna í samræmi við áherslur á sviði nýsköpunar og atvinnulífs, veita umsögn um styrkumsóknir og gera tillögur til ráðherra um úthlutun styrkja. Fagráð er jafnframt ráðgefandi fyrir ráðherra um fagleg málefni við úthlutanir úr sjóðnum eftir því sem óskað er.

Þóknun fagráðs er ákveðin af ráðherra.

5. gr. Styrkhæfi verkefna.

Styrkjum skal úthlutað til rannsókna- og þróunarverkefna á sviði mannvirkjamála með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar, s.s. grunnrannsóknir, hagnýtar rannsóknir, hönnun, skapandi lausnir, þróun á nýjum hugmyndum og efnum, bestun á verkferlum eða aðlögun á slíkum hugmyndum.

Styrkjum sjóðsins skal úthlutað árlega. Hver einstakur styrkur skal ekki nema hærri fjárhæð en 20% af heildarfjárheimild hvers árs, og skal ekki vera hærri en sem nemur 70% kostnaðaráætlunar viðkomandi verkefnis.

Umsækjendur skulu vera lögráða einstaklingar eða lögaðilar.

Nánar skal fjallað um skilyrði styrkhæfra verkefna í starfsreglum sjóðsins.

6. gr. Auglýsingar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal auglýsa eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Ein úthlutun er á ári og skal auglýst í september ár hvert. Í auglýsingu skal tilgreina áherslur hverrar úthlutunar, umsóknarfrest, hvar og hvernig skuli sækja um og hvenær umsóknir verði afgreiddar. Auglýsingu skal birta á vef stofnunarinnar a.m.k. 30 dögum áður en umsóknarfrestur rennur út.

7. gr. Umsóknir.

Umsóknum skal skilað með rafrænum hætti í gegnum vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum. Stofnunin tekur ekki til umfjöllunar umsóknir sem berast eftir öðrum leiðum, né umsóknir sem berast utan tilskilins umsóknarfrests.

Upplýsingar um ferli umsókna, eyðublöð og annað ítarefni er að finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Öllum umsóknum skal svarað skriflega.

Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:

  1. Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur.
  2. Upplýsingar um aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
  3. Nafn þess sem annast samskipti við ráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  4. Lýsing á því hvernig verkefnið fellur að markmiðum sjóðsins og áherslum hans hverju sinni.
  5. Tíma- og verkáætlun.
  6. Fjárhagsáætlun, þar sem koma m.a. fram upplýsingar um áætlaðan kostnað, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða hefur sótt um.
  7. Staðfest gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn sem kalla þarf eftir til stuðnings umsókn.

8. gr. Viðmið við úthlutun.

Við mat á umsóknum er fagráði heimilt að leita umsagnar fagaðila, gerist þess þörf. Við mat á umsóknum skal litið til forsendna og eðlis verkefna. Umsóknir skulu metnar og þeim gefnar einkunnir á grundvelli gæðaviðmiða sem lýst er í starfsreglum sjóðsins. Gæðaviðmið skulu taka mið af tilgangi sjóðsins og hvort í auglýsingu hafi verið óskað eftir styrkumsóknum með tilteknum áherslum. Innbyrðis vægi gæðaviðmiða skal ákveðið fyrir fram fyrir hverja úthlutun og birt á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á umsóknartíma.

Eftirtalin atriði skulu vega inn í mat á umsóknum og ákvörðun úthlutana, að teknu tilliti til annarra skilyrða reglugerðar þessarar:

  1. Nýnæmi hugmyndar, nýsköpun og rannsóknarþörf:

    1. Nýnæmi og frumleiki verkefnisins og/eða þörf fyrir rannsóknarumhverfið.
    2. Verkefnið er til þess fallið að auka þekkingu, skapa nýjar lausnir, auka gæði, bæta verklag og/eða stuðla að framþróun/virðissköpun á sviði mannvirkjagerðar.
  2. Samfélagslegt gildi og ávinningur:

    1. Mikilvægi verkefnis fyrir samfélagslegar áskoranir.
    2. Umhverfis-, efnahags- og félagslegur ávinningur verkefnis, þ.m.t. að verkefnið hefur ávinning sem snýr að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  3. Samstarf:

    1. Stuðningur frá og/eða samstarf við háskóla, opinberar stofnanir, sveitarfélög, viðskiptalíf eða aðra aðila á innlendum eða alþjóðlegum vettvangi.
  4. Faglegir þættir:

    1. Geta umsækjenda til að leysa verkefnið, þ.m.t. faglegur bakgrunnur umsækjenda og annarra þátttakenda.
    2. Gæði verkefnis m.t.t. verkefnalýsingar, verkáætlunar og fjárhagsáætlunar, þ.m.t. hvort markmið og skipulag verkefnis eru skýr og hvernig markmiðum verkefnis verði náð.

9. gr. Úthlutun og skilmálar.

Umsóknir skulu metnar af fagráði sem leggur fram röðun umsókna og gerir tillögu um úthlutun og ráðstöfun fjár til verkefna fyrir ráðherra til ákvörðunar.

Tillögur fagráðsins skulu vera skriflegar og geyma í stuttu máli almenna lýsingu á framkvæmd og málsmeðferð við tillögugerðina auk umsagnar þar sem fram kemur efnisleg afstaða fagráðsins til umsókna og eftir atvikum skilmála styrkveitingar. Ráðherra tekur ákvörðun um styrkveitingar á grundvelli framkominna tillagna fagráðs. Ráðherra skal tilkynna öllum umsækjendum um afgreiðslu viðkomandi umsóknar. Ráðherra er heimilt að hafna öllum umsóknum, að tillögu fagráðs, ef fagráð telur að þau verkefni sem sótt er um styrk til falli ekki innan markmiða sjóðsins eða uppfylli að öðru leyti ekki þær kröfur sem gerðar eru til verkefna. Við endanlega niðurstöðu fagráðs er stefnt að því að velja verkefni úr öllum áhersluflokkum ef umsóknir allra flokka uppfylla skilyrði og standast mat. Einnig má horfa til þess við heildarúthlutun að verkefni séu fjölbreytt og sprottin úr misjöfnum jarðvegi. Við heildarmat er fagráði einnig heimilt að líta til þarfar umsækjenda fyrir fjármagn og þarfa á markaði.

Við móttöku á styrk ábyrgist styrkþegi að honum verði einungis varið til þess verkefnis sem getið er í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila greinargerð um framvindu verkefnisins og fjárhagsuppgjöri samkvæmt skilmálum styrkveitingar. Styrkþegi skal auk þess hlíta öðrum þeim skilmálum sem fram koma í reglugerð þessari og skilmálum styrkveitingar. Lokagreiðsla styrkfjár kemur að jafnaði ekki til greiðslu fyrr en við skil til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á gögnum sem gerð er krafa um hverju sinni, svo sem greinargerð um framgang og lok verkefnis ásamt fjárhagsuppgjöri.

Miða skal við að helmingur styrkfjárhæðar sé greiddur út við upphaf verkefnisins og síðan fari greiðslur eftir framvindu verkefnisins í samræmi við skilmála styrkveitingar, þó þannig að lokagreiðsla fari ekki fram fyrr en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur móttekið lokaskýrslu. Nýti styrkþegi ekki styrk innan tíma- og verkáætlunar verkefnisins fellur styrkurinn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun á ráðstöfun hans. Umsókn þess efnis skal vera skrifleg og rökstudd.

Óheimilt er að styrkja fyrirtæki í samkeppnisrekstri umfram þá hámarksfjárhæð sem leyfilegt er samkvæmt reglugerð ESB nr. 1998/2006 um minniháttaraðstoð (de minimis regla), nú að hámarki 200.000 evrur á hverju 36 mánaða tímabili að frádregnum öðrum styrkjum frá opinberum sjóðum sem viðkomandi hefur fengið til sömu verkefna á sama tímabili.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um úthlutun styrkja birtir ráðherra nöfn styrkþega, heiti verkefnis og upphæð styrks á vef sínum.

Fagráð og ráðherra skulu byggja ákvarðanir sínar á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og málsmeðferð skal vera í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gæta ber jafnræðis við mat umsókna og ákvörðun um úthlutun. Ákvarðanir ráðherra eru undanþegnar skyldu til rökstuðnings, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

10. gr. Upplýsingagjöf, uppgjör og endurkröfuréttur.

Umsýsla sjóðsins er hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Styrkþega ber ávallt að verða við beiðni stofnunarinnar um upplýsingar um stöðu verkefnisins og láta henni í té allar upplýsingar og gögn um verkefnið, þar á meðal bókhaldsgögn. Styrkþegum er skylt að tilkynna stofnuninni tafarlaust ef upp koma aðstæður sem seinka verkefninu eða koma í veg fyrir að markmiðum eða skilyrðum fyrir styrkveitingu sé fullnægt.

Verði óhóflegur frestur á að ráðist sé í verkefnið, framkvæmd þess tefjist úr hófi eða önnur skilyrði styrkveitingar ekki uppfyllt innan eðlilegra tímamarka teljast forsendur brostnar. Ráðherra er þá heimilt að afturkalla styrkveitinguna að hluta til eða í heild og getur falið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að krefja styrkþega um endurgreiðslu á greiddum styrk. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa afstöðu sinni til málsins.

Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrkþegi endurgreiða ofgreiddan styrk innan 30 daga frá því að fjárhagsuppgjör lá fyrir. Að öðrum kosti innheimtir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ofgreiddan styrk.

Styrkþegi skal senda Húsnæðis- og mannvirkjastofnun greinargerð um verkefnið og fjárhagsuppgjör vegna þess áður en kemur að lokagreiðslu. Ljúki verkefninu ekki á því ári sem styrkurinn er veittur, skal stofnunin upplýst um stöðu verkefnisins fyrir árslok.

Styrkþegi skal varðveita öll gögn verkefnisins, þ.m.t. bókhaldsgögn, í a.m.k. sjö ár og hafa þau tiltæk sé þess óskað af hálfu Ríkisendurskoðunar.

11. gr. Kynningarefni og tengd verkefni.

Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það sé styrkt af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

12. gr. Skýrslugjöf.

Niðurstöðum þeirra rannsókna sem hljóta styrki úr sjóðnum skal safnað saman á miðlægan stað innan Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og þær birtar í þeim tilgangi að styrkja eftirlits- og þjónustuhlutverk stofnunarinnar í tengslum við kynningu, fræðslu og gagnasöfnun varðandi mannvirkjarannsóknir.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal árlega skila innviðaráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skýrslu um sjóðinn, þ.m.t. yfirlit yfir fjárhag og úthlutanir úr sjóðnum og stutta samantekt um lokaniðurstöður þeirra rannsókna sem hlotið hafa styrki úr sjóðnum.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 54. gr. a, sbr. 15. tölul. 60. gr., laga nr. 160/2010, um mannvirki, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.