Fara beint í efnið

Prentað þann 27. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 6. apríl 2022 – 1. sept. 2022 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 6. apríl 2022 af rg.nr. 401/2022

964/2019

Reglugerð um veiðar á rækju.

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til rækjuveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands. Allar rækjuveiðar við Ísland eru óheimilar nema þeim skipum sem hafa aflamark á viðkomandi veiðisvæði.

II. KAFLI Veiðarfæri.

2. gr.

Lágmarksmöskvastærð rækjuvörpu skal vera 45 mm í vængjum aftur að fremsta netþaki (miðneti) en 36 mm í öðrum hlutum rækjuvörpunnar.

Við veiðar á rækju skal nota þvernetspoka með fjórum byrðum felldan á línur og skal þvernetspokinn vera í a.m.k. 4 öftustu metrum vörpunnar við rækjuveiðar á grunnslóð en í a.m.k. 8 öftustu metrum vörpunnar við úthafsrækjuveiðar.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt við veiðar á úthafsrækju að nota net á legg í a.m.k. 8 öftustu metrum vörpunnar í stað þvernetspoka.

Við notkun leggpoka eða þvernetspoka er heimilt að hafa þrjá síðumöskva fyrir framan kolllínumöskvana.

3. gr.

Við veiðar með rækjuvörpu er óheimilt að nota nokkurn þann útbúnað, sem þrengir, herpir eða lokar á nokkurn hátt möskvum vörpunnar eða nota umbúnað af nokkru tagi til þess að koma í veg fyrir rennsli afla aftur í poka eða nota net eða annað til þéttingar poka að aftan. Þó er heimilt:

  1. Að nota hlífðarpoka utan um pokann sjálfan. Lágmarksmöskvastærð slíks hlífðarpoka skal vera 100 mm.
  2. Að binda fyrir rækjupoka allt að 40 sm fyrir ofan pokaendann og stinga lausa netinu inn í pokann til að þétta pokahnútinn.
  3. Rækjupokinn skal ekki vera meira en 50 sm lengri en hlífðarpokinn. Heimilt er að binda fyrir hlífðarpokann að aftan.
  4. Að festa undir 8 öftustu metra vörpunnar húðir eða mottur úr gerviefnum í því skyni að auka núningsþol pokans.

4. gr.

Skylt er að nota seiðaskilju við rækjuveiðar. Við veiðar á úthafsrækju og við rækjuveiðar á grunnslóð á veiðisvæðum H (Eldeyjarsvæði) og I (við Snæfellsnes) skal seiðaskilja þannig gerð að bil milli rimla skal mest vera 22 mm, en við rækjuveiðar á grunnslóð á veiðisvæðum A (Breiðafjörður, norðurhluti) til og með G (Öxarfjörður) skal seiðaskilja þannig gerð að bil milli rimla skal mest vera 19 mm.

Skiljunni skal komið fyrir í belg vörpunnar með u.þ.b. 45-50 gráðu halla þannig að neðri kantur skiljunnar nái lengra fram. Skiljan skal fylla út í belginn og skulu allir jaðrar hennar festir við netið í belgnum. Á efra byrði vörpunnar fyrir framan skiljuna skal vera gat þar sem fiskur skilst út.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að stunda veiðar á rækju án seiðaskilju í Ísafjarðardjúpi innan línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

  1. 66°03,00´N - 22°56,00´V (Kambsnes)
  2. 66°07,00´N - 22°39,00´V (Snæfjallaströnd)

III. KAFLI Úthafsrækjuveiðar.

5. gr.

Skipum sem hafa aflamark í úthafsrækju er heimilt að stunda veiðar á rækju utan viðmiðunarlínu, sbr. lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með eftirfarandi takmörkunum:

  1. Fyrir Suðurlandi eru allar rækjuveiðar óheimilar á svæði milli 14°30´V og 23°00´V allt árið.
  2. Við Eldey eru úthafsrækjuveiðar óheimilar á svæði sem að sunnan markast af línu sem dregin er réttvísandi 245° frá Reykjanesaukavita. Að vestan markast svæðið af 23°40´V og að norðan af 64°05´N.
  3. Við Snæfellsnes eru úthafsrækjuveiðar óheimilar á svæði sem afmarkast milli eftirfarandi hnita:

    1. 64°04,90´N - 22°43,60´V
    2. 64°43,70´N - 23°48,20´V
    3. 64°45,00´N - 23°55,30´V
    4. 64°51,30´N - 24°02,50´V
    5. 64°53,10´N - 24°02,50´V
    6. 65°15,00´N - 24°02,50´V
    7. 65°15,00´N - 25°40,00´V
    8. 64°05,00´N - 25°40,00´V
    9. 64°04,90´N - 22°43,60´V

6. gr.

Heimilt er að nota yfirpoka við úthafsrækjuveiðar á þeim svæðum þar sem viðkomandi skipum eru heimilar veiðar með fiskibotnvörpu samkvæmt 5. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þó er óheimilt að nota yfirpoka á svæðum þar sem veiðar með fiskibotnvörpu eru óheimilar samkvæmt reglugerðum og skyndilokunum. Yfirpokanum skal komið fyrir á efra byrði poka vörpunnar yfir opinu þar sem fiskur skilst út.

Að minnsta kosti 8 öftustu metrar yfirpokans skulu vera með lágmarksmöskvastærð 135 mm að innanmáli.

IV. KAFLI Rækjuveiðar á Dohrnbanka.

7. gr.

Úthafsrækju sem veidd er á Dohrnbanka vestan 26°V og norðan 65°30´N skal skrá sérstaklega. Skip sem stunda veiðar á Dohrnbanka skulu búin fjarskiptabúnaði, sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til Landhelgisgæslunnar um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti, frá því skipið lætur úr höfn og þar til það kemur til hafnar að nýju til löndunar afla.

V. KAFLI Rækjuveiðar á grunnslóð.

8. gr.

Veiðitímabil rækju á grunnslóð er fiskveiðiárið nema annað sé ákveðið samhliða úthlutun aflamarks á viðkomandi veiðisvæði.

9. gr.

Einungis skipum minni en 230 brúttótonn að stærð er heimilt að stunda rækjuveiðar á grunnslóð innan viðmiðunarlínu.

10. gr.

Veiðisvæði rækju á grunnslóð eru þessi:

  1. Breiðafjörður, norðurhluti:

    1. Að sunnan markast svæðið af 65°15,00´N
    2. A vestan markast svæðið af 24°00,00´V
  2. Arnarfjörður. Svæðið markast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

    1. 65°47,68´N - 24°06,60´V (Kópanesviti)
    2. 65°54,59´N - 23°50,76´V (Svalvogaviti)
  3. Ísafjarðardjúp. Svæðið markast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

    1. 66°12,00´N - 23°28,00´V (Deild)
    2. 66°21,00´N - 23°11,00´V (Ritur)
  4. Húnaflói. Svæðið markast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

    1. 66°07,50´N - 21°30,00´V (Selsker)
    2. 66°05,00´N - 20°25,20´V (Rifsnes)
  5. Skagafjörður. Svæðið markast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

    1. 66°07,16´N - 20°05,93´V (Skagatáarviti)
    2. 66°11,22´N - 18°57,06´V (Sauðanesviti)
  6. Skjálfandaflói. Svæðið markast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

    1. 66°10,03´N - 17°50,30´V (Flatey)
    2. 66°17,22´N - 17°08,67´V
    3. 66°12,40´N - 17°08,67´V (Tjörnesviti)
  7. Öxarfjörður. Svæðið markast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

    1. 66°12,40´N - 17°08,67´V (Tjörnesviti)
    2. 66°17,22´N - 17°08,67´V
    3. 66°30,50´N - 16°32,17´V (Rauðanúpsviti)
  8. Eldeyjarsvæði:

    1. Að sunnan markast svæðið af línu sem dregin er réttvísandi 245° frá 63°48,03´N - 22°41,86´V Reykjanesaukavita
    2. Að vestan markast svæðið af 23°40,00´V
    3. Að norðan af 64°05,00´N
  9. Við Snæfellsnes:

    1. Í Kolluál og Jökuldjúpi, á svæði sem afmarkast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

      1. 64°04,90´N - 22°43,60´V
      2. 64°43,70´N - 23°48,20´V
      3. 64°45,00´N - 23°55,30´V
      4. 64°51,30´N - 24°02,50´V
      5. 64°53,10´N - 24°02,50´V
      6. 65°15,00´N - 24°02,50´V
      7. 65°15,00´N - 25°40,00´V
      8. 64°05,00´N - 25°40,00´V
      9. 64°04,90´N - 22°43,60´V
    2. Á Breiðafirði á tímabilinu frá og með 8. maí til og með 31. júlí ár hvert er skipum sem eru 105 brl að stærð eða minni og hafa aflamark til veiða á rækju á veiðisvæðinu við Snæfellsnes heimilt að stunda rækjuveiðar á svæði sem afmarkast af línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

      1. 64°58,28´N - 23°21,42´V
      2. 65°10,00´N - 23°21,42´V
      3. 65°10,00´N - 24°02,50´V
      4. 64°53,10´N - 24°02,50´V

VI. KAFLI Viðurlög og gildistaka.

11. gr.

Brot á ákvæðum þessarar reglugerðar varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar til þess að öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar falla úr gildi reglugerð nr. 396/2005, um úthafsrækjuveiðisvæði og notkun seiðaskilju, reglugerð nr. 258/2012, um rækjuveiðar innfjarða, reglugerð nr. 542/2014, um veiðar á rækjustofninum á miðunum við Snæfellsnes og reglugerð nr. 739/2000, um gerð og búnað smárækjuskilju.

 Ákvæði til bráðabirgða.

 Allar veiðar á rækju í Ísafjarðardjúpi eru bannaðar frá og með 30. mars 2022 til og með 31. ágúst 2022.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.