Prentað þann 25. nóv. 2024
961/2018
Reglugerð um enduraðlögunarstyrk og ferðastyrk til umsækjanda um alþjóðlega vernd.
1. gr.
Þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur dregið umsókn sína til baka, hann fengið synjun um vernd og ákvörðun hefur verið tekin um aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar í samstarfi við Útlendingastofnun, Alþjóðafólksflutningastofnunina (IOM) eða önnur sambærileg samtök er Útlendingastofnun heimilt að greiða honum ferðastyrk og/eða enduraðlögunarstyrk sem stuðla á að árangursríkri enduraðlögun einstaklingsins í heimaríki og styðja viðkomandi við að koma þar undir sig fótunum á nýjan leik.
Ferða- og/eða enduraðlögunarstyrkur greiðist í samræmi við eftirfarandi töflu.
Flokkur | Ríki | Ferðastyrkur, til greiðslu á Keflavíkurflugvelli | Enduraðlögunarstyrkur greiddur í heimaríki, allt að | Heildarupphæð á hvern einstakling, allt að |
1.1 Fullorðinn | Afganistan Íran Írak Nígería Sómalía Palestína Pakistan | 200 evrur | 800 evrur | 1.000 evrur |
1.2 Barn | Afganistan Íran Írak Nígería Sómalía Palestína Pakistan | 100 evrur | 500 evrur | 600 evrur |
2.1 Fullorðinn | Alsír Egyptaland Kasakstan Marokkó | 200 evrur | 500 evrur | 700 evrur |
2.2 Barn | Alsír Egyptaland Kasakstan Marokkó | 100 evrur | 200 evrur | 300 evrur |
3 Fylgdarlaust barn | Ofangreind upprunaríki | 200 evrur | 800 evrur | 1.000 evrur |
4.1 Fullorðinn | Önnur ríki | 200 evrur | 200 evrur | |
4.2 Barn | Önnur ríki | 100 evrur | 100 evrur | |
4.3 Fylgdarlaust barn | Önnur ríki | 200 evrur | 200 evrur |
Umsækjandi um alþjóðlega vernd getur óskað eftir ferða- og/eða enduraðlögunarstyrk samhliða því sem hann óskar eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför. Beiðni um aðstoð við sjálfviljuga heimför og e.a. ferða- og/eða enduraðlögunarstyrk skal lögð fram innan þess frests sem umsækjanda hefur verið veittur til sjálfviljugrar heimfarar.
Útlendingastofnun hefur heimild til þess að greiða framangreinda styrki á meðan styrktarveitingin rúmast innan þeirra fjárheimilda sem stofnunin hefur. Þá á útlendingur eingöngu rétt á enduraðlögunarstyrk einu sinni.
Skilyrði fyrir greiðslu ferða- og/eða enduraðlögunarstyrks er að umsækjandi undirriti skuldaviðurkenningu hjá Útlendingastofnun þess efnis að hann samþykki að endurgreiða veittan styrk komi til þess að hann sæki síðar um dvalarleyfi hér á landi.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Dómsmálaráðuneytinu, 16. október 2018.
Sigríður Á. Andersen.
Haukur Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.