Prentað þann 27. des. 2024
919/2021
Reglugerð um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022.
1. gr. Heildaraflaheimildir.
Á fiskveiðiárinu 2021/2022 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthluta aflamarki sem nemur allt að 5.357 þorskígildistonnum af botnfiski og ráðstafa til stuðnings byggðarlögum, þannig:
- Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og/eða vinnslu á botnfiski.
- Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn.
Byggðarlög, skv. 1. mgr. eru byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. janúar 2021.
2. gr. Skipting aflaheimilda eftir botnfisktegundum.
Aflaheimildir, skv. 1. gr. skulu skiptast á eftirgreindar tegundir: Þorsk, ýsu, ufsa, steinbít, gullkarfa, keilu og löngu samkvæmt eftirfarandi töflu:
Tegundir | Tonn upp úr sjó | Þorskígildistonn |
Þorskur | 4.500 | 3.780 |
Ýsa | 800 | 605 |
Ufsi | 1.400 | 647 |
Steinbítur | 155 | 71 |
Gullkarfi | 300 | 201 |
Keila | 43 | 11 |
Langa | 96 | 42 |
Samtals: | 7.294 | 5.357 |
3. gr. Úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga.
Við úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga skal miðað við að allt að 5.357 þorskígildistonnum sé ráðstafað til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og/eða vinnslu á botnfiski.
Þá skal miðað við að allt að 1.200 þorskígildistonnum sé ráðstafað til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa, sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í þeim.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skal við útreikning á hlut hvers byggðarlags sá kostur ávallt valinn fyrir hvert byggðarlag sem gefur því mestar aflaheimildir samkvæmt útreikningi 4. gr. A eða samtölu 4. gr. B og C.
4. gr. Útreikningur á aflaheimildum til byggðarlaga.
Við útreikning á aflaheimildum sem koma í hlut hvers byggðarlags skal leggja til grundvallar eftirfarandi forsendur:
-
Ráðuneytið skal reikna út aflaheimildir, skv. 1. mgr. 3. gr. sem koma í hlut hvers byggðarlags þar sem íbúar eru færri en 2.000 þann 1. janúar 2021. Við þann útreikning skal gefa hverju byggðarlagi punkta sem fundnir eru þannig:
- Fyrir hvert 0,1% sem botnfiskafli fiskiskipa hefur mest dregist saman, frá fiskveiðiárinu 2011/2012 að telja til fiskveiðiársins 2020/2021, sem hlutfall af heildarbotnfiskafla allra byggðarlaga með færri en 2.000 íbúa þann 1. janúar 2021, skal gefa tvo punkta.
- Fyrir hvert 0,1% sem botnfiskaflaheimildir fiskiskipa frá byggðarlagi hafa mest dregist saman, frá fiskveiðiárinu 2011/2012 að telja til fiskveiðiársins 2021/2022, sem hlutfall af heildarbotnfiskaflaheimildum allra byggðarlaga með færri en 2.000 íbúa þann 1. janúar 2021, skal gefa tvo punkta.
- Fyrir hvert 0,1% sem vinnsla botnfiskafla í byggðarlagi hefur mest dregist saman, frá fiskveiðiárinu 2011/2012 að telja til fiskveiðiársins 2020/2021, sem hlutfall af heildarbotnfiskafla sem unninn hefur verið í öllum byggðarlögum með færri en 2.000 íbúa þann 1. janúar 2021, skal gefa fjóra punkta.
Ráðuneytið metur hvaða viðmiðunarár er hagstæðast hverju byggðarlagi til útreiknings aflaheimilda samkvæmt þessari reglugerð og leggur þar til grundvallar tölulegar upplýsingar frá Fiskistofu. Sama fiskveiðiárið skal ávallt lagt til grundvallar við mat á öllum þáttum fyrir hvert byggðarlag, sbr. 1.-3. tl. 1. mgr., og hafi aukning orðið í einum þætti milli viðmiðunarára kemur hún til frádráttar. Samanlagðir punktar vegna samdráttar í einstökum byggðarlögum ráða því hversu mikið af aflaheimildum kemur í þeirra hlut samkvæmt þessari grein en skulu þó að lágmarki vera 15 þorskígildistonn og að hámarki 300 þorskígildistonn.
Komi í ljós veruleg breyting á reiknuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein skal ráðuneytið kanna, hvort raunverulegar breytingar hafi orðið á útgerð eða botnfiskvinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Hafi svo ekki orðið er heimilt að halda úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein óbreyttum frá úthlutun fiskveiðiárið 2020/2021. - Ráðuneytið skal reikna út hve miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags, skv. 2. mgr. 3. gr. Við þann útreikning skal leggja eftirfarandi forsendur til grundvallar:
Hafi samdráttur í byggðarlagi í vinnslu á rækju, sem veidd er hér við land, verið 400 þorskígildistonn eða minni frá fiskveiðiárinu 2011/2012, 2012/2013, 2013/2014, 2014/2015, 2015/2016, 2016/2017, 2017/2018, 2018/2019 eða 2019/2020 að telja til fiskveiðiársins 2020/2021 koma aflaheimildir, sem nema 70 þorskígildistonnum í þess hlut. Hafi samdrátturinn í vinnslu verið meiri en 400 þorskígildistonn en minni en 1.500 þorskígildistonn í byggðarlagi koma 140 þorskígildistonn í þess hlut. Hafi samdráttur í vinnslu verið 1.500 þorskígildistonn eða meiri í byggðarlagi koma 210 þorskígildistonn í þess hlut. - Hafi samdráttur í byggðarlagi í vinnslu á skel (hörpudisk og/eða kúfskel), sem veidd er hér við land, verið 400 þorskígildistonn eða minni frá fiskveiðiárinu, 2011/2012, 2012/2013, 2013/2014, 2014/2015, 2015/2016, 2016/2017, 2017/2018, 2018/2019 eða 2019/2020 að telja til fiskveiðiársins 2020/2021 koma aflaheimildir, sem nema 70 þorskígildistonnum í þess hlut. Hafi samdrátturinn í vinnslu verið meiri en 400 þorskígildistonn en minni en 1.500 þorskígildistonn í byggðarlagi koma 140 þorskígildistonn í þess hlut. Hafi samdráttur í vinnslu verið 1.500 þorskígildistonn eða meiri í byggðarlagi koma 210 þorskígildistonn í þess hlut.
- Nú sýna útreikningar að aflaheimildir koma einnig í hlut tiltekins byggðarlags samkvæmt A-lið þessarar greinar og skal þá einungis úthluta aflaheimildum til byggðarlags á grundvelli þess ákvæðis sem meira gefur, þ.e. A-liðar eða samtölu B- og C- liðar.
- Þegar reiknaður hefur verið út hlutur einstakra byggðarlaga samkvæmt A-lið hér að ofan, skal hlutur byggðarlaga með færri íbúa en 400 og sem úthlutað var aflaheimildum á fiskveiðiárinu 2020/2021, og eiga rétt til úthlutunar fiskveiðiárið 2021/2022, leiðréttur þannig að ekkert þeirra lækki um meira en 15 þorskígildistonn, milli fiskveiðiáranna 2020/2021 og 2021/2022.
- Þrátt fyrir ákvæði A-liðar skal úthlutun byggðakvóta til þeirra byggðarlaga sem fengið hafa úthlutað aflaheimildum frá Byggðastofnun, skv. 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, ekki vera lægri en nam úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2020/2021.
5. gr. Tilkynningar um byggðakvóta til sveitarstjórna.
Ráðuneytið tilkynnir sveitarstjórnum hversu miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags sem undir þær falla.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er, skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, öðlast gildi 1. september 2021. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 731/2020, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2020/2021 þann 1. september 2021.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. ágúst 2021.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.