Prentað þann 26. des. 2024
900/2017
Reglugerð um tilkynningu atvika í almenningsflugi sem og greiningu á og eftirfylgni með þeim.
1. gr. Markmið.
-
Markmiðið með reglugerð þessari er að bæta öryggi í flugi með því að tryggja tilkynningu, söfnun, geymslu, verndun, skipti á, miðlun og greiningu viðeigandi öryggisupplýsinga um almenningsflug.
Þessi reglugerð tryggir:
- að gripið sé tímanlega til öryggisaðgerða, eftir því sem við á, á grundvelli greiningar á upplýsingum sem hefur verið safnað,
- að aðgengi að öryggisupplýsingum sé viðhaldið með því að innleiða reglur um trúnaðarkvöð og viðeigandi notkun upplýsinga og með samræmdri og aukinni vernd fyrir tilkynnendur og einstaklinga, sem tilgreindir eru í tilkynningum um atvik, og
- að áhætta í tengslum við flugöryggi sé tekin til athugunar og að brugðist sé við henni á Evrópska efnahagssvæðinu og á landsvísu.
- Meginmarkmiðið með því að tilkynna atvik er að koma í veg fyrir slys og flugatvik, ekki að skipta sök eða ábyrgð.
2. gr. Efni og gildissvið.
-
Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur:
- um tilkynningu atvika, sem stofna eða, ef ekki er gripið til aðgerða eða gerðar úrbætur, gætu stofnað í hættu loftfari, farþegum þess eða öðrum einstaklingum, tækjabúnaði eða uppsettum búnaði, sem hefur áhrif á starfrækslu loftfars, og tilkynning annarra viðeigandi öryggistengdra upplýsinga í þessu samhengi,
- um greiningu og framhaldsaðgerðir að því er varðar tilkynnt atvik og aðrar öryggistengdar upplýsingar,
- um vernd fagfólks í flugi,
- um viðeigandi notkun öryggisupplýsinga sem hefur verið safnað,
- um skráningu upplýsinga í miðlæga, evrópska gagnasafnið og
- um nafnleynd við miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila í þeim tilgangi að láta slíkum aðilum í té upplýsingarnar, sem þeir þurfa á að halda, til að auka flugöryggi.
- Þessi reglugerð gildir um atvik og aðrar öryggistengdar upplýsingar þar sem almenningsloftför eiga í hlut.
- Reglugerð þessi gildir einnig fyrir loftför sem um getur í II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 216/2008.
3. gr. Lögbært stjórnvald.
Samgöngustofa er lögbært stjórnvald samkvæmt reglugerð þessari og skulu atvik í almenningsflugi tilkynnt Samgöngustofu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
Ráðuneyti samgöngumála ber ábyrgð á framkvæmd 12. mgr. 16. gr. í reglugerð (ESB) nr. 376/2014 og getur launafólk og samningsbundið starfsfólk tilkynnt ráðuneytinu um meint brot á reglunum.
4. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum.
5. gr. Innleiðing EES-gerða.
Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirfarandi EES-gerðir, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 376/2014 frá 3. apríl 2014 um tilkynningu atvika í almenningsflugi sem og greiningu á og eftirfylgni með þeim, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 996/2010 og um niðurfellingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/42/EB og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1321/2007 og (EB) nr. 1330/2007, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2015 frá 30. október 2015. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 376/2014 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 74 frá 10. desember 2015, bls. 491-516.
Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1018 frá 29. júní 2015 um skrá þar sem flokkuð eru atvik í almenningsflugi sem falla undir tilkynningarskyldu samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 376/2014, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 276/2015 frá 30. október 2015. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1018 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 74 frá 10. desember 2015, bls. 517-533.
Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2034 frá 6. október 2020 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 376/2014 að því er varðar sameiginlega evrópska áhættuflokkunarkerfið, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2023 frá 17. mars 2023. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2034 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30 frá 20. apríl 2023, bls. 460-469.
Framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/2082 frá 26. nóvember 2021 um tilhögun um framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 376/2014 að því er varðar sameiginlega evrópska áhættuflokkunarkerfið, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2023 frá 17. mars 2023. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/2082 er birt EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30 frá 20. apríl 2023, bls. 470-478.
6. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 47. gr. og 47. gr. a, sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 53/2006 um tilkynningarskyldu flugslysa, alvarlegra flugatvika og atvika, með síðari breytingum.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 12. október 2017.
F. h. r.
Sigurbergur Björnsson.
Björn Freyr Björnsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.