Prentað þann 21. nóv. 2024
895/2021
Reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Orðskýringar.
- 4. gr. Öryggisráðstafanir.
- 5. gr. Stjórnvald.
- 6. gr. Stjórnandi jarðganga.
- 7. gr. Öryggisfulltrúi.
- 8. gr. Reglubundið eftirlit.
- 9. gr. Áhættugreining.
- 10. gr. Undanþágur fyrir aðferðir sem byggja á nýsköpun.
- 11. gr. Sérstakar kröfur til jarðganga eftir flokkum.
- 12. gr. Skýrslugjöf.
- 13. gr. Ákvæði er varða umferð.
- 14. gr. Innleiðing.
- 15. gr. Viðaukar.
- 16. gr. Gildistaka.
- Viðaukar
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðarinnar er að kveða á um ráðstafanir sem stuðla að öryggi vegfarenda í jarðgöngum með því að koma í veg fyrir hættuleg atvik sem kunna að stefna mannslífum, umhverfinu og gangamannvirkjum í hættu og með því að kveða á um viðeigandi ráðstafanir ef slys eiga sér stað.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin gildir um öll jarðgöng hér á landi, lengri en 500 metrar, sem opin eru almennri umferð, hvort sem þau eru í notkun, á framkvæmdastigi eða hönnunarstigi.
3. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari merkir:
Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES);
Jarðgöng í flokki I: Jarðgöng sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og öll jarðgöng tekin í notkun eftir 31. apríl 2006, hvort sem þau tilheyra samevrópska vegakerfinu eða ekki;
Jarðgöng í flokki II: Jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins sem tekin voru í notkun fyrir 1. maí 2006;
Jarðgöng sem fyrir eru: Jarðgöng sem höfðu samþykkta hönnun fyrir 1. maí 2006;
Lengd jarðganga: Lengd lengstu akreinar mæld milli gangamunna;
Neyðarþjónusta: Öll staðbundin þjónusta, hvort sem hún tengist opinberum aðilum, einkaaðilum eða starfsfólki jarðganga sem er kölluð út ef slys ber að höndum, þ.m.t. lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir;
Samevrópska vegakerfið: Vegakerfið sem skilgreint er í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 1315/2013 og skýrt með kortum í lið 11.4 í III. viðauka, eins og liðnum var breytt með framseldri breytingarreglugerð framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) 2016/758;
Stjórnandi jarðganga: Sá aðili, hvort sem er opinber eða einkaaðili, sem ber ábyrgð á stjórn, daglegum rekstri og öryggi jarðganga, á því stigi sem um ræðir, hvort sem þau eru á hönnunarstigi, verið að grafa þau eða þau eru í rekstri, t.d. eigandi jarðganga eða annar aðili sem ber ábyrgð á rekstri jarðganga fyrir hönd eiganda;
Öryggisfulltrúi: Aðili sem tilnefndur er af stjórnanda jarðganga og samþykktur af Samgöngustofu;
Öryggisstjórnunarkerfi: Kerfisbundin nálgun við öryggisstjórnun, þ.m.t. nauðsynlegt stjórnskipulag, ábyrgðarskylda, stefnumál, viðbragðsáætlun og verklagsreglur.
4. gr. Öryggisráðstafanir.
Jarðgöng sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar skulu að lágmarki uppfylla viðeigandi kröfur samkvæmt viðaukum við reglugerðina, sbr. nánar 11. gr. Þá skal virkt öryggisstjórnunarkerfi vera til staðar.
Ef ekki er hægt að fullnægja með tæknilausnum þeim byggingarkröfum, sem mælt er fyrir um í I. viðauka, að því er varðar jarðgöng sem fyrir eru, eða ef kostnaður við þær er óhóflegur, er Samgöngustofu heimilt að samþykkja aðrar ráðstafanir til að draga úr áhættu, að því tilskildu að þær ráðstafanir leiði til sambærilegrar eða aukinnar verndar. Sýna skal fram á skilvirkni þessara ráðstafana með áhættugreiningu, sbr. 9. gr. Samgöngustofa skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um slíkar ráðstafanir að því er varðar jarðgöng sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og skal ákvörðunin vera rökstudd.
5. gr. Stjórnvald.
Samgöngustofa hefur eftirlit með því að öryggiskröfur séu uppfylltar í jarðgöngum.
Áður en jarðgöng eru tekin í notkun skal afla samþykkis Samgöngustofu sem hefur eftirlit með því að fullnægt sé málsmeðferð skv. II. viðauka.
Samgöngustofu er heimilt að stöðva tímabundið eða takmarka starfsemi jarðganga ef öryggiskröfum er ekki fullnægt. Samgöngustofa getur sett skilyrði fyrir því að opnað sé fyrir almenna umferð að nýju.
Samgöngustofa skal tryggja að eftirfarandi verkefnum sé sinnt til að tryggja öryggi jarðganga:
- að fram fari reglulegar prófanir og skoðanir á jarðgöngum samkvæmt viðkomandi öryggiskröfum,
- að í notkun séu skipulags- og rekstraráætlanir (þ.m.t. neyðaráætlanir) fyrir þjálfun og búnað neyðarþjónustu,
- að til séu verklagsreglur um tafarlausa lokun jarðganga á neyðarstundum,
- að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr áhættu.
6. gr. Stjórnandi jarðganga.
Samgöngustofa skal halda skrá yfir stjórnanda fyrir sérhver jarðgöng. Stjórnandi jarðganga ber ábyrgð á daglegum rekstri jarðganganna og öryggisstjórnun þeirra.
Stjórnandi jarðganga skal sjá til þess að allir aðilar með starfsemi í jarðgöngunum, þ.m.t. verktakar, fylgi fyrirfram skráðu verklagi. Þetta felur meðal annars í sér formlega tilkynningarskyldu um atvik í starfsemi sem kunna að hafa áhrif á öryggisþætti.
Stjórnandi jarðganga skal gera skýrslu um öll umtalsverð atvik eða slys sem eiga sér stað í jarðgöngunum og senda öryggisfulltrúa, Samgöngustofu og viðkomandi neyðarþjónustu innan eins mánaðar frá atvikinu.
7. gr. Öryggisfulltrúi.
Stjórnandi jarðganga skal tilnefna einn öryggisfulltrúa fyrir sérhver jarðgöng sem skal samræma allar forvarnar- og öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda og starfsfólks. Samgöngustofa samþykkir tilnefningu öryggisfulltrúa að fenginni yfirlýsingu stjórnanda um sjálfstæði öryggisfulltrúans í störfum sem varða öryggi jarðganga. Öryggisfulltrúi má vera starfsmaður í jarðgöngum en skal vera óháður í málum er varða öryggi jarðganga og njóta sjálfstæðis í störfum sem varða þau mál. Öryggisfulltrúa er heimilt að starfa í fleiri en einum jarðgöngum.
Öryggisfulltrúi skal sinna eftirfarandi störfum og verkefnum:
- Tryggja samstarf við neyðarþjónustu og taka þátt í undirbúningi viðbragðsáætlana;
- Taka þátt í skipulagningu, framkvæmd og mati á neyðaraðgerðum;
- Taka þátt í skilgreiningu öryggisáætlana og gerð forskrifta fyrir byggingu, búnað og rekstur jarðganga, hvort sem þau eru ný eða vegna breytinga á þeim;
- Hafa eftirlit með að starfsfólk jarðganga og neyðarþjónustu fái þjálfun og fræðslu um öryggi jarðganga. Taka þátt í skipulagningu reglubundinna viðbragðsæfinga;
- Veita ráðgjöf um öryggisþætti í tengslum við að ný jarðgöng eru tekin í notkun, búnað og rekstur jarðganga og hafa eftirlit með því að öryggisstjórnunarkerfi stjórnanda jarðganga sé viðhaldið;
- Hafa eftirlit með að viðhald mannvirkja og búnaðar í jarðgöngum uppfylli öryggiskröfur;
- Taka þátt í mati á öllum umtalsverðum atvikum eða slysum, sbr. 3. mgr. 6. gr., og tryggja að greining á atvikum fari fram.
8. gr. Reglubundið eftirlit.
Samgöngustofa skal framkvæma reglubundnar skoðanir til að tryggja að öll jarðgöng sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru. Stjórnanda jarðganga skal tilkynnt um niðurstöður skoðunar. Samgöngustofa getur heimilað óháðum skoðunaraðila að annast slíkar skoðanir og skal skoðunaraðili þá tilkynna Samgöngustofu og stjórnanda jarðganga niðurstöður skoðunar. Skoðunaraðili skal vera hæfur til að sinna eftirliti, mati og prófunum og starfa eftir verklagsreglum sem tryggja gæði skoðunar. Skoðunaraðili skal við skoðanir starfa óháð fyrirmælum frá stjórnanda jarðganga.
Ekki mega líða meira en sex ár milli skoðana á hverjum jarðgöngum.
Ef í ljós kemur að jarðgöng uppfylla ekki kröfur samkvæmt reglugerð þessari skal Samgöngustofa leggja fyrir stjórnanda jarðganganna að gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta þar úr og auka öryggi. Samgöngustofa skal setja skilyrði fyrir áframhaldandi rekstri jarðganganna eða fyrir því að þau verði tekin í notkun á ný. Ekki skal falla frá skilyrðunum fyrr en ráðstafanir til úrbóta hafa verið gerðar eða aðrar viðeigandi takmarkanir eða skilyrði hafa verið sett.
Ef ráðstafanir til úrbóta fela í sér verulegar breytingar á jarðgöngunum sjálfum eða starfsemi þeirra skal Samgöngustofa fylgja málsmeðferð samkvæmt II. viðauka áður en stofnunin samþykkir að þau verði tekin í notkun á ný.
9. gr. Áhættugreining.
Áhættugreining er greining áhættu í tilteknum jarðgöngum þar sem tekið er tillit til allra hönnunarþátta og umferðaraðstæðna sem hafa áhrif á öryggi, einkum einkenna og gerðar umferðar, lengdar og lögunar jarðganga og fjölda þungaflutningabifreiða sem áætlað er að fari um þau á dag.
Þegar reglugerð þessi mælir fyrir um að framkvæma skuli áhættugreiningu skal stjórnandi jarðganga láta óháðan aðila framkvæma slíka greiningu. Áhættugreiningin skal gerð í samræmi við ítarlega og vel skilgreinda aðferðarfræði í samræmi við bestu mögulegu starfshætti. Innihald og niðurstöður áhættugreiningar skulu vera hluti af gögnum um öryggi sem afhent eru Samgöngustofa.
Samgöngustofa skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hvaða aðferðafræði er beitt að því er varðar jarðgöng sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu.
10. gr. Undanþágur fyrir aðferðir sem byggja á nýsköpun.
Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu frá kröfum þessarar reglugerðar á grundvelli formlegrar beiðni frá stjórnanda jarðganga svo kleift sé að setja upp eða nota öryggisbúnað sem byggir á nýsköpun eða beita öryggisreglum sem byggja á nýsköpun og veita sambærilega eða betri vernd en fyrirliggjandi tækni sem mælt er fyrir um í reglugerðinni. Áður en slík undanþága er veitt skal fylgja málsmeðferðarreglum 14. gr. tilskipunar 2004/54/EB.
11. gr. Sérstakar kröfur til jarðganga eftir flokkum.
Um jarðgöng í flokki I gilda allar kröfur viðauka I-III.
Um jarðgöng í flokki II gilda liðir 2.8-4 í viðauka I og viðaukar II og III.
12. gr. Skýrslugjöf.
Samgöngustofa skal á tveggja ára fresti taka saman skýrslur um eldsvoða í jarðgöngum, slys og önnur alvarleg atvik og um orsakir og tíðni slíkra atvika, meta þau og veita upplýsingar um skilvirkni öryggisaðstöðu og ráðstafana. Samgöngustofa skal senda Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) skýrslur sem varða jarðgöng sem tilheyra samevrópska vegakerfinu, fyrir lok septembermánaðar næsta árs á eftir tímabilinu sem skýrslurnar taka til.
13. gr. Ákvæði er varða umferð.
Viðeigandi ákvæði umferðarlaga og reglugerða settra samkvæmt þeim gilda um umferð í jarðgöngum, þar á meðal um flutning á hættulegum farmi og merkingar.
14. gr. Innleiðing.
Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2006 frá 27. janúar 2006 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 30. mars 2006, bls. 11 eru með reglugerð þessari tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/54/EB frá 29. apríl 2004 um lágmarksöryggiskröfur fyrir jarðgöng í samevrópska vegakerfinu og hefur tilskipunin fullt gildi hér á landi. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44 frá 18. júlí 2008, bls. 49-69.
15. gr. Viðaukar.
Eftirfarandi viðaukar skoðast sem hluti reglugerðar þessarar og eru birtir með henni:
I. viðauki: Öryggisráðstafanir sem um getur í 4. gr.
II. viðauki: Samþykki fyrir hönnun, gögn um öryggi, opnun jarðganga, breytingar og reglubundnar æfingar.
III. viðauki: Sérstök umferðarmerki fyrir jarðgöng.
16. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 42. og 46. gr., sbr. 5. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Fellur þá úr gildi reglugerð nr. 992/2007, um öryggiskröfur fyrir jarðgöng.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. skulu kröfur liða 2.8.3 og 2.14.1 í viðauka I uppfylltar eigi síðar en 1. júní 2031 að því er varðar jarðgöng í flokki I utan samevrópska vegakerfisins sem tekin voru í notkun fyrir 1. janúar 2021 og að því er varðar jarðgöng í flokki II.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 13. júlí 2021.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.