Prentað þann 24. nóv. 2024
821/2021
Reglugerð um viðurkenningu sameiginlegra umsýslustofnana samkvæmt höfundalögum.
1. gr. Tilgangur og gildissvið.
Tilgangur með reglugerð þessari er að kveða á um málsmeðferð vegna viðurkenningar ráðherra til handa þeim samtökum sem hafa umsýslu með höfundarétti fyrir hóp rétthafa þar sem þess er krafist í höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum (höfundalög), þ.m.t. skv. ákvæðum 4. mgr. 11. gr., 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr., 4. mgr. 19. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a, 1. mgr. 23. gr. b, 5. mgr. 25. gr. b, 2. mgr. 26. gr. a, 2. mgr. 47. gr. og 3. mgr. 47. gr b höfundalaga.
2. gr. Skilgreiningar.
Samtök rétthafa sem hljóta viðurkenningu samkvæmt reglugerð þessari teljast vera sameiginlegar umsýslustofnanir í skilningi 1. tölul. 2. gr. laga nr. 88/2019 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar, sbr. einnig ákvæði 26. gr. d og 26. gr. e höfundalaga.
Með samningskvöð er átt við það að ákveðið er með lögum að notendum verka, sem varin eru af höfundarétti og sem gert hafa samning við sameiginlega umsýslustofnun um notkun á verkum félagsmanna eða aðildarfélaga þeirra, skuli einnig vera heimilt að nýta verk utanfélagsmanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins. Samningskvöð í höfundalögum skiptist í sérstakar samningskvaðir, sjá 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr., 4. mgr. 19. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a og 1. mgr. 23. gr. b, sbr. 1. mgr. 26. gr. a, og almenna samningskvöð sem kveður á um sérstaklega afmarkaða notkun í samningi sem grundvöll samningskvaðar, sjá ákvæði 2. mgr. 26. gr. a höfundalaga.
Viðurkenning ráðherra felur í sér að þeim sameiginlegu umsýslustofnunum sem slíka viðurkenningu hljóta er heimilt að hafa með höndum þá umsýslu höfundaréttar sem viðurkenningin tekur til.
Með utanfélagsmanni er átt við rétthafa sem ekki er félagi í sameiginlegri umsýslustofnun og hefur ekki gefið viðkomandi sameiginlegri umsýslustofnun umboð til að hafa umsjón með þeim réttindum sem hún fer með fyrir félagsmenn sína.
3. gr. Skilyrði viðurkenningar.
Allar sameiginlegar umsýslustofnanir sem sækjast eftir viðurkenningu samkvæmt reglugerð þessari þurfa að uppfylla eftirfarandi almenn skilyrði:
- Fyrir liggi upplýsingar um að umsýslustofnun sé í forsvari fyrir verulegan hluta höfunda tiltekinna tegunda verka sem notuð eru hér á landi.
- Samþykktir umsýslustofnana og aðildarfélaga þeirra beri skýrlega með sér að samtökin hafi ótvírætt umboð frá félagsmönnum og aðildarfélögum til þeirrar umsýslu sem viðurkenningin tekur til, sbr. ákvæði 3.-5. gr. laga nr. 88/2019.
- Fyrir liggi upplýsingar sem sýna fram á fjárhagslegt hæfi og stjórnsýslulega getu til umsýslu réttinda í samræmi við ákvæði II. – V. kafla laga nr. 88/2019.
- Umsýslustofnanir sýni fram á verkferla vegna innra eftirlits og fjárvörslu vegna umsýslu fjármuna í þágu félagsmanna í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2019.
Þær sameiginlegu umsýslustofnanir sem sækja um viðurkenningu til að semja á grundvelli samningskvaðaákvæða þurfa að uppfylla eftirfarandi sérstök skilyrði:
- Sýna fram á getu til að gæta réttinda utanfélagsmanna, þar með talið réttar til einstaklingsbundinnar úthlutunar þar sem því verður við komið og miðlun upplýsinga til notenda verka á grundvelli samningskvaðaheimildar um bann við notkun verka utanfélagsmanna, þar sem það á við. Upplýsingar um hvernig utanfélagsmenn sækja um einstaklingsbundinn úthlutunarrétt og hvernig þeir geta notað rétt sinn til að banna notkun verka sinna skv. samningnum skulu birtar á heimasíðu viðkomandi umsýslustofnunar og í einstökum samningum.
- Ef sótt er um viðurkenningu á grundvelli 2. mgr. 26. gr. a höfundalaga skal liggja fyrir samningur um afmarkað og vel skilgreint notkunarsvið. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um af hverju samningskvaðaleyfi sé forsenda þess að viðkomandi nýting sé möguleg. Þá skal í samningi tiltaka að um sé að ræða samningskvaðasamning, sbr. c-lið, 2. mgr. 26. gr. a höfundalaga.
- Eftir að viðurkenning hefur verið veitt vegna samningskvaða, hvort sem um er að ræða vegna sérstakra samningskvaðaákvæða eða vegna
sérstakraalmennrarsamningskvaðasamningskvaðar, og samningur gerður á grundvelli þeirrar viðurkenningar skal birta upplýsingar á viðeigandi hátt um að slíkur samningur hafi verið gerður ásamt upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að utanfélagsmenn geti gert kröfur um þóknun, sbr. 3. mgr. 26. gr. b höfundalaga.
4. gr. Málsmeðferð.
Viðurkenning ráðherra til sameiginlegra umsýslustofnana er ótímabundin, sbr. þó ákvæði 5. mgr. Viðurkenning á grundvelli 2. mgr. 26. gr. a höfundalaga skal þó aðeins veitt til fimm ára. Sameiginlegum umsýslustofnunum sem fá viðurkenningu ráðherra er skylt að senda mennta- og menningarmálaráðuneyti árlega skýrslu um starfsemina og veita allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi samtakannaumsýslustofnana þegar óskað er.
Ráðherra getur ákveðið að sameiginlegar umsýslustofnanir sem viðurkenningu hljóta á nánar tilteknu sviði skuli vera sameiginleg samtök tveggja eða fleiri umsýslustofnana sem uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. 26. gr. a höfundalaga.
Ráðuneytið skal að jafnaði taka ákvörðun um veitingu viðurkenningar innan þriggja mánaða eftir að umsókn og öll nauðsynleg gögn hafa borist eða ef málið er að öðru leyti að fullu upplýst. Ef umfang umsóknar er verulegt skal heimilt að taka ákvörðun innan sex mánaða. Hyggist ráðherra beita heimild þessari skal hann tilkynna það viðkomandi sameiginlegri umsýslustofnun.
Hafi sameiginleg umsýslustofnun sótt um endurnýjun viðurkenningar áður en hún rennur út skal eldri viðurkenning halda gildi sínu þar til ný viðurkenning hefur verið gefin út eða umsókn hafnað.
Uppfylli sameiginleg umsýslustofnun ekki lengur þau skilyrði sem höfundalög setja og þær reglur sem finna má í reglugerð þessari getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna. Áður en til afturköllunar kemur skal stofnuninni send aðvörun þar sem lýst er þeim athugasemdum sem gerðar eru við starfsemi stofnunarinnar og henni veittur allt að sex mánaða frestur til að bregðast við athugasemdum og bæta úr ágöllum á starfseminni.
Ef umsókn um endurnýjun viðurkenningar er hafnað eða viðurkenning afturkölluð skulu þeir samningar sem gerðir hafa verið á grundvelli viðkomandi viðurkenningar verða ógildir frá sama tíma að því er varðar verk utanfélagsmanna.
Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 26. gr. a laga nr. 73/1972 og öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð um flutningsrétt á ritverkum og tónsmíðum nr. 3/1976.
Allar sameiginlegar umsýslustofnanir skulu sækja um viðurkenningu í samræmi við ákvæði 4. mgr. 26. gr. a höfundalaga við gildistöku reglugerðar þessarar en eldri viðurkenningar skulu gilda þar til nýjar hafa verið veittar eða umsóknum um viðurkenningu hafnað.
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 25. júní 2021.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Páll Magnússon.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.