Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 1. ágúst 2024

755/2019

Reglugerð um fyrirkomulag innkaupa ríkisins.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Markmið reglugerðar þessarar er að innkaup ríkisins séu hagkvæm, fagleg og markviss ásamt því að ná fram auknum sameiginlegum innkaupum.

Reglugerðin tekur til þeirra opinberu aðila sem lög um opinber innkaup nr. 120/2016 gilda um, einkum ríkisstofnana í A-hluta.

2. gr. Ríkiskaup.

Ríkiskaup er miðlæg innkaupastofnun á vegum ríkisins sem heyrir undir ráðherra. Forstjóri Ríkiskaupa veitir henni forstöðu og gerir fjárhagsáætlun stofnunarinnar og mótar stefnu um helstu áherslur, verkefni og starfshætti stofnunarinnar.

Hlutverk Ríkiskaupa er að stuðla að bættum rekstri og árangri í starfsemi ríkisins. Ríkiskaup skulu með gagnsæjum, hagkvæmum og markvissum hætti annast innkaup fyrir ríkisstofnanir í A-hluta, rannsaka sameiginlegar þarfir fyrir vörur og þjónustu, nýta sameiginleg innkaup til þarfa ríkisins og vinna að þróun skilvirkra innkaupakerfa.

Stofnunin skal einnig annast almenna fræðslu um opinber innkaup og veita aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur.

Ráðherra er heimilt að fela Ríkiskaupum að annast önnur verkefni sem eru í nánum tengslum við starfsemi stofnunarinnar samkvæmt nánari ákvörðun.

3. gr. Fyrirkomulag innkaupaferla.

Ríkiskaup gera samninga um sameiginleg innkaup fyrir hönd ríkisins, þar sem lagt er mat á hæfi, verð og eftir atvikum magn innkaupa, og annast útboð og önnur innkaupaferli sem fram fara á vegum ríkisstofnana í A-hluta vegna innkaupa, hvort heldur er yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum eða viðmiðunarfjárhæðum fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Ráðherra getur þó heimilað einstökum ríkisstofnunum að annast eigin innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum með sérstakri ákvörðun.

Komi upp ágreiningur um ákvörðun við val á tilboðum milli Ríkiskaupa sem umsjónaraðila útboðs og kaupanda á vegum ríkisins er heimilt að vísa ágreiningnum til ráðuneytisins.

Öðrum opinberum aðilum, sem falla undir lög um opinber innkaup og reglugerðir sem settar eru á grundvelli laganna, er jafnframt heimilt að nota innkaupaþjónustu Ríkiskaupa.

4. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 99. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 og öðlast gildi 1. september 2019.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 27. ágúst 2019.

F. h. r.

Sigurður H. Helgason.

Hrafn Hlynsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.