Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

724/2008

Reglugerð um hávaða.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til hávaða af mannavöldum. Reglugerðin tekur þó ekki til hávaða frá neyðarstarfsemi.

Um hljóðeinangrun, ómtíma og skyld atriði er fjallað í byggingarreglugerð. Um atvinnustarfsemi gildir ennfremur reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun.

Um hávaða á vinnustöðum gilda lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Aðgerðaáætlun: Áætlun um aðgerðir sem hafa það að markmiði að stýra hávaða og draga úr hávaða og óæskilegum áhrifum hans.

Almannafæri: Götur og svæði ætluð til almenningsnota sem og aðrir staðir, sem opnir eru almenningi, s.s. verslanir, veitingastaðir, leiktækjastaðir, kvikmyndahús, samkomuhús, biðskýli og söfn.

Almenningur: Einn eða fleiri einstaklingar, lögaðilar og félög þeirra, samtök eða hópar eftir því sem við á.

Desíbel A [dB(A)]: Mælieining fyrirhljóðstyrk, mælt í desíbelum með svonefndri A-síu sem líkir eftir næmi eyrans.

Desíbel C [dB(C)]: Mælieining fyrirhljóðstyrk, mælt í desíbelum með svonefndri C-síu sem líkir eftir næmi eyrans þar sem vægi lágtíðnihljóða er meira en í A-síu.

Dvalarrými: Svefnherbergi, sjúkrastofur og dagstofur á þjónustustofnunum þar sem sjúklingar eða vistmenn dvelja.

Dvalarsvæði á lóð: Leiksvæði og önnur svæði á lóðum íbúðarhúsa og þjónustustofnana sem sérstaklega eru hugsuð til að njóta útiveru.

Frístundabyggð: Byggð frístundahúsa, þ.e. byggð sem ekki er ætluð til heilsársbúsetu.

Frísviðsgildi: Hljóðstig þar sem ekki er tekið tillit til endurkasts hljóðbylgna frá því mannvirki sem hljóðið er mælt við. Á opnu svæði er frísviðsgildi sama og mælt gildi.

Hámarkshljóðstig: Hljóðstig í dB(A) sem er hæsta hljóðstig sem mælist á mælitímanum þegar hljóðmælir er stilltur á staðlaða tímastillingu "F" eða "FAST" (ein sekúnda) og getur verið lægra en hæsti toppur sbr. lið e undir skilgreiningu á hávaðavísi.

Hávaði: Óæskileg eða skaðleg hljóð sem stafa m.a. frá athöfnum fólks, umferð eða atvinnustarfsemi.

Hávaðavísir: Vísir til að lýsa hávaða, notaður til að meta neikvæð áhrif hávaða:

  1. Lden (hávaðavísir að degi - kvöldi - nóttu): Hávaðavísir fyrir heildarónæði.
  2. LAeqT: Jafngildishljóðstig, mælt yfir tímabil T (t.d. T=24 stundir eða T=frá kl. 07 til kl. 19)
  3. LAFmax: Hámarkshljóðstig.
  4. LAFmax5%: Hámarkshljóðstig þar sem gert er ráð fyrir að í 5% tilvika sé heimilt að fara yfir það gildi sem tilgreint er sem umhverfismörk.
  5. LCpeak: Hæsti hljóðtoppur.

Hljóðstig: Mælikvarði á hljóðstyrk, oftast mælt í desíbelum með svonefndri A - síu sem líkir eftir næmi eyrans. Hljóðstigið er þá táknað LA og mælieiningin er dB(A).

Hæsti hljóðtoppur: Hæsti hljóðtoppur (sekúndubrot) á mælitímanum skv. C-síu.

Ef hæsti hljóðtoppur er mældur í dB(C), er hann táknaður LCpeak. Ef mælt er með C-síu þá er hljóðstigið táknað LC og mælieiningin dB(C).

Íbúðarsvæði: Svæði þar sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar kann þó einnig að vera gert ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt er að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verður ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.

Jafngildishljóðstig: Vegið meðaltalshljóðstig, táknað Leq, sem samsvarar sömu hljóðorku á mælitímanum og hinn raunverulegi breytilegi hávaði. Ef jafngildishljóðstigið er mælt í dB(A), er það táknað LAeq.

Kyrrlátt svæði: Svæði sem er ætlað til útivistar og afmarkað er í skipulagi, sbr. 3. mgr. 9. gr. reglugerðar um kortlagningu hávaða, nr. 1000/2005.

Miðsvæði: Svæði þar sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Á miðsvæðum kunna að vera íbúðir þar sem aðstæður leyfa, sérstaklega á efri hæðum bygginga.

Ónæði: Veruleg eða ítrekuð truflun eða áreiti af völdum hávaða sem sker sig úr því umhverfi sem um ræðir.

Samkomustaður: Staður þar sem fólk kemur saman s.s. kvikmynda- og leikhús, veitinga- og skemmtistaðir, líkamsræktarstöðvar og íþróttahús.

Sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir: Vinna sem hefur í för með sér mikinn hávaða svo sem vinna við höggbor, háværa háþrýstidælu, meitlun á bergi eða sprengingar.

Verslunar- og þjónustusvæði: Svæði þar sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir verslunum og þjónustustarfsemi sem þjónar viðkomandi hverfi. Á verslunar- og þjónustusvæðum kunna að vera íbúðir þar sem aðstæður leyfa.

Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.

4. gr. Mörk fyrir hávaða.

Í viðauka, töflum I-III, eru tilgreind viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi. Þar sem dvalarsvæði á lóð er skilgreint skal þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir 55 LAeq. Á kyrrlátu svæði skal hljóðstig í þéttbýli ekki fara yfir Lden 50 dB(A) og í dreifbýli ekki yfir Lden 40 dB(A).

5. gr. Stjórnvöld o.fl.

Við skipulagsgerð skal miðað við að hljóðstig verði undir mörkum í viðauka. Skipulagsyfirvöld geta þó ákveðið að í stað marka í viðauka gildi um íbúðarhúsnæði á afmörkuðum svæðum staðallinn ÍST 45:2003: Hljóðvist - Flokkun íbúðarhúsnæðis. Flokkur C í staðlinum er lágmarkskrafa fyrir nýjar íbúðir.

Við hönnun samgöngumannvirkja skal miðað við að hljóðstig verði undir mörkum í töflum I og II í viðauka. Við breytingu á umferðaræð í byggð sem fyrir er, sem leitt getur til aukins hávaða, skal grípa til mótvægisaðgerða til þess að koma í veg fyrir að hljóðstig hækki.

Mengunarvarnir og kröfur um hollustuhætti í starfsleyfi sbr. 4. og 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, skal jafnframt miða við að hljóðstig verði undir mörkum í töflu III í viðauka.

6. gr. Skyldur rekstraraðila.

Við rekstur flugvalla skal miða við að hljóðstig verði undir mörkum í töflu II í viðauka.

Rekstraraðilar atvinnustarfsemi skulu miða rekstur sinn við að hljóðstig í byggð sem verður fyrir áhrifum af starfseminni, verði ekki yfir mörkum í töflu III í viðauka.

Um framkvæmdir gildir 9. gr.

7. gr. Heilsuspillandi hávaði.

Viðmið heilsuspillandi hávaða er 85 desíbel(A) LAeq (jafngildishljóðstig í 8 klst). Þegar heilsuspillandi áhrif hávaða eru metin, skal sérstaklega hafa í huga eftirfarandi atriði:

  1. Styrk hávaðans mældan í desíbelum(A).
  2. Tónhæð hávaðans.
  3. Hvort hávaðinn er stöðugur eða breytilegur.
  4. Daglega tímalengd hávaðans.
  5. Tíma sólarhringsins er hávaðinn varir.
  6. Heildartímabil, sem ætla má að hávaðinn vari (dagar/vikur).
  7. Að börn eru viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir.

8. gr. Aðgæslureglur.

Forráðamönnum fyrirtækja og stofnana er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða og ónæði af völdum hávaða.

Eigendur vélknúinna ökutækja skulu sjá svo um að farartæki þeirra valdi ekki óþarfa hávaða. Gæta skal þess að hljómflutningstæki og önnur tæki á almannafæri valdi ekki heilsuspillandi hávaða eða óþarfa ónæði. Í íbúðarhverfum skulu íbúar og aðrir koma í veg fyrir ónæði gagnvart nágrönnum vegna hávaða.

Gæta skal sérstaklega að hávaðavörnum í og við leik- og grunnskóla sem og dvalarrými þjónustustofnana.

9. gr. Framkvæmdir.

Við allar framkvæmdir, svo sem byggingar, gröft, gatnagerð o.fl., skal þess sérstaklega gætt að sem minnst ónæði verði af völdum hávaða.

Háværar framkvæmdir, s.s. byggingar, gröftur, sprengingar og gatnagerð á íbúðarsvæðum eða nágrenni þeirra, við skóla og dvalarrými þjónustustofnana, skal framkvæmdaraðili kynna fyrir íbúum nærliggjandi svæða með sannarlegum hætti áður en framkvæmd hefst. Fram skal koma tímalengd framkvæmdar, hvaða þættir hennar séu líklegir til að valda ónæði og hvenær unnið verði að þeim þáttum.

Takmarka skal hávaða vegna framkvæmda sem tilgreindar eru í töflu IV í viðauka við þau tímamörk sem þar eru tilgreind.

10. gr. Samkomustaðir og sérstakir viðburðir.

Viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða á samkomustöðum, útiskemmtunum og öðrum stöðum, þar sem fólk dvelur í skamman tíma eru tilgreind í töflu V í viðauka.

Heilbrigðisnefnd getur beint tilmælum til rekstraraðila um sérstakan útbúnað á þessum stöðum til að fyrirbyggja að gestir verði fyrir óþægindum eða heyrnarskaða af völdum hávaða og til að upplýsa gesti um hljóðstig á staðnum.

Ef um er að ræða staði sem eru sérstaklega ætlaðir til tónleikahalds er leyfilegt að heimila í starfsleyfi hærra hljóðstig á einstökum viðburðum en tafla V í viðauka greinir. Þó skal jafngildishljóðstig aldrei fara yfir þau mörk sem tilgreind eru í töflu V í viðauka.

Ábyrgðaraðila staðarins er skylt að tilkynna heilbrigðisnefnd um viðburði þar sem búast má við að hljóðstig verði hærra en tilgreint er í 1. mgr. með hæfilegum fyrirvara og ber hann kostnað við eftirlit á tónleikunum þ.m.t. hljóðmælingum skv. gjaldskrá. Heilbrigðisnefnd getur beint þeim tilmælum til ábyrgðaraðila staðarins að hann bjóði gestum eyrnatappa og hengi upp sérstök viðvörunarskilti um hátt hljóðstig á áberandi hátt, setji aldurstakmörk fyrir gesti, geri grein fyrir staðsetningu hátalara og öðru sem heilbrigðisnefnd telur þurfa til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða.

Ef í ljós kemur við eftirlit að hljóðstig fer yfir mörk skv. töflu V í viðauka sbr. eftir atvikum ákvæði starfsleyfis sbr. 3. mgr. skulu heilbrigðisfulltrúar leggja fyrir rekstraraðila að dregið verði úr hávaða tafarlaust.

Ábyrgðaraðili skal auglýsa og kynna fyrir íbúum með sannanlegum hætti útiskemmtanir og útitónleika, sem haldnir eru í þéttbýli a.m.k. sólarhring áður en skemmtun eða tónleikar hefjast. Í kynningu skal koma fram hvenær atburður hefst og hvenær honum lýkur hið síðasta. Hátalarar skulu þannig staðsettir að óviðkomandi komist ekki að þeim.

11. gr. Framkvæmd og eftirlit.

Umhverfisstofnun skal í samstarfi við Skipulagsstofnun og önnur stjórnvöld eftir því sem við á gefa út leiðbeiningar um:

  1. meðhöndlun hljóðvistarkrafna í skipulagi.
  2. viðmiðanir um hljóðvistarkröfur í leik- og grunnskólum og annars staðar sem börn dvelja og hætta er talin á að hávaði geti valdið þeim ónæði eða verið heilsuspillandi.
  3. mæliaðferðir við hljóðmælingar vegna eftirlits.

Heilbrigðisnefndir skulu hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar. Heilbrigðisnefndir skulu eftir þörfum framkvæma eða láta framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða.

12. gr. Þvingunarúrræði.

Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari getur heilbrigðisnefnd:

  1. veitt áminningu,
  2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
  3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun þar sem það á við til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða t.d. umferð hávaðasamra flutninga- og farartækja um tilteknar götur í íbúðahverfum og í nágrenni sjúkrahúsa eða annarra heilbrigðisstofnana að höfðu samráði við lögreglu.

Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum heilbrigðisnefndar um að draga úr heilsuspillandi hávaða eða virðir ekki mörk um hávaða skv. töflum í viðauka innan þess frests sem tiltekinn er, getur heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir, allt að kr. 500.000 á dag, þar til úr er bætt.

13. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum 6.-10. gr. reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.

14. gr. Lagastoð, gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. gr. og 15. tl. 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Einnig er höfð hliðsjón af VI. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, tölulið 32g, tilskipun 2002/49/EB um stjórn og mat á hávaða.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 933/1999 um hávaða, með síðari breytingum.

Umhverfisráðuneytinu, 7. júlí 2008.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.