Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Stofnreglugerð

565/2022

Reglugerð um skattalegt fyrningarálag á grænar eignir og aðrar eignir sem sambærilegar geta talist.

I. KAFLI Markmið og gildissvið.

1. gr. Fyrningarálag.

Reglugerð þessi skilgreinir af hvaða eignum heimilt er að reikna sérstakt fyrningarálag, sbr. bráðabirgðaákvæði LXX laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðinnar er að styðja með skattalegum hvötum við eitt eða fleiri eftirfarandi markmiða í umhverfismálum:

  1. Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  2. Aðlögun að loftslagsbreytingum.
  3. Sjálfbær nýting og verndun vatns og sjávarauðlinda.
  4. Umskipti yfir í hringrásarhagkerfi.
  5. Auknar mengunarvarnir.
  6. Aukin vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

3. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi á við um eignir sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

  1. Að eign sé í formi lausafjár sem telst til fyrnanlegra eigna, þ.e. varanlegra rekstrarfjármuna sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, sbr. 1. tölul. 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
  2. Að eignar sé aflað á árunum 2021 til 2025 í þeim tilgangi að vera nýtt í atvinnurekstri kaupanda. Hér er átt við að bindandi skriflegur kaupsamningur, eða kaupleigusamningur, um eign hafi komist á fyrir árslok 2025. Sama á við hafi verið gerður bindandi samningur um framleiðslu hennar og afhending á sér stað fyrir árslok 2025.
  3. Að fjárfestingarákvörðun um öflun eignar sé ótengd skyldu eða kröfum sem kaupanda ber að uppfylla í rekstri sínum og rekstrarumhverfi samkvæmt gildandi lögum eða alþjóðasamningum. Jafnframt að ekki sé um að ræða aðila og eignakaup til starfsemi, sem þeim ber að lögum að hafa með höndum og er á þeim sviðum sem tilgreind eru í 6. til 8. gr.
  4. Að eign valdi ekki svo umtalsverðu tjóni gagnvart öðrum markmiðum í umhverfismálum, sbr. 2. gr., með þeim hætti að heildar jákvæð áhrif eignarinnar lækki um meira en helming þess sem ella hefði orðið.
  5. Að eign falli undir II. eða III. kafla og sýnt sé fram á að uppfyllt séu tilgreind skilyrði með fullnægjandi gögnum.

II. KAFLI Grænar eignir.

4. gr.

Eignir sem falla undir kafla þennan eru þær sem falla undir eftirfarandi flokka eins og þeir eru skilgreindir í einstökum greinum kaflans:

  1. Vistvænar samgöngur.
  2. Endurnýjanleg orka.
  3. Hreinsun fráveituvatns og endurnýting úrgangs.
  4. Sjálfbær og umhverfisvæn stýring á náttúruauðlindum.

5. gr. Vistvænar samgöngur.

Eftirfarandi eignir falla undir flokkinn vistvænar samgöngur, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum:

  1. Ökutæki.
  2. Loftför.
  3. Flutningaskip, farþegaskip (t.d. skemmtiferðaskip) og ferjur.

Ofangreindar eignir teljast grænar ef þær falla í einn af neðangreindum flokkum og sýnt hefur verið fram á að þær uppfylli tilgreind skilyrði:

  1. Ökutæki, hjól og vinnuvélar sem ganga fyrir 100% hreinni orku.
  2. L, M+, N+ ,T og G flokkar ökutækja, eins og þeir eru skilgreindir af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins:

    1. 100% rafknúin ökutæki fyrir farþega og vöruflutninga.
    2. 100% vetnisknúin ökutæki fyrir farþega og vöruflutninga.
    3. Ökutæki fyrir farþega og vöruflutninga sem knúin eru 100% rafeldsneyti, lífgasi, hauggasi og/eða 100% lífeldsneyti1).
  3. Hjól og L flokkar ökutækja: 100% rafknúin ökutæki eða sem losa ekkert CO2 við notkun.
  4. Loftför og sjóför: För sem nota eldsneyti sem ekki er jarðefnaeldsneyti, t.d. knúin af sólarorku, raforku eða lífeldsneyti. För sem losa minna en 50 gCO2e/pkm og keypt eru fyrir 31. desember 2025 og nýtt til almenningssamgangna.

Tengdir innviðir ofangreindra flokka s.s. hleðslustöðvar og vetnisáfyllingarstöðvar, falla einnig undir vistvænar samgöngur í skilningi greinarinnar. Með tengdum innviðum er átt við nauðsynlegan búnað til notkunar ökutækis.
_______________
1) Repjuolía sem hefur fengið vottun sem samþykkt er af framkvæmdastjórn ESB fyrir lífeldsneyti. Annað fyrstu kynslóðar lífeldsneyti er ekki gjaldgengt. Að öðru leyti er lífeldsneyti gjaldgengt samkvæmt skilgreiningum í gr. 2 (34) og gr. 2 (36) tilskipunar (ESB) 2018/2001 sem og vottað lífeldsneyti með lágt-ILUC.

6. gr. Endurnýjanleg orka.

Eftirfarandi eignir falla undir flokkinn endurnýjanleg orka og teljast grænar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum:

  1. Vistvæn eldsneytisframleiðsla:

    1. Eignir ætlaðar til framleiðslu lífeldsneytis eða hauggass af urðunarstað sem hefur gilt starfsleyfi.
    2. Eignir ætlaðar til framleiðslu vetnis og annars rafeldsneytis.
    3. Eignir í virðiskeðju sem ætlaðar eru til framleiðslu endurnýjanlegrar orku, s.s. sérstakir geymslutankar og pípulagnir til að geyma og flytja vistvænt eldsneyti.
  2. Framleiðsla á endurnýjanlegri og/eða lágkolefna orku:

    1. Eignir ætlaðar til framleiðslu rafmagns úr endurnýjanlegum auðlindum.
    2. Eignir ætlaðar til framleiðslu varma úr endurnýjanlegum auðlindum.

Endurnýjanleg og lágkolefna orkuframleiðsla er skilgreind sem eftirfarandi:

  1. Raforkuframleiðsla:

    1. Bein losun gróðurhúsalofttegunda sé minni en 100 gCO2/kWh.
    2. Eign losi að lágmarki 80% minna af gróðurhúsalofttegundum (gCO2/kWh) en sambærileg eign sem notar óendurnýjanlega orkugjafa.
    3. Lífeldsneyti skal unnið úr þeim sjálfbærum hráefnum sem talin eru upp í A hluta IX. viðauka tilskipunar (ESB) 2018/2001.
  2. Hitun:

    1. Bein losun gróðurhúsalofttegunda skal vera minni en 100 gCO2/kWh.
    2. Jarðvarmadælur, loft í vatn varmadælur og loft í loft varmadælur, með kælivökva sem er með undir 675 í GWP (Global Warming Potential) og vera með orkunýtni í samræmi við tilskipun 2009/125/EB.
  3. Samvinnsla rafmagns og varma: Bein losun gróðurhúsalofttegunda skal vera minni en 100 gCO2/kWh.

Eignir ætlaðar til framleiðslu á vistvænu eldsneyti skulu uppfylla neðangreind skilyrði:

  1. Eign þarf að lágmarki að losa 80% minna af gróðurhúsalofttegundum (gCO2/kWh) en sambærileg eign sem notar óendurnýjanlega orkugjafa.
  2. Vetnisframleiðsla sem losar minna en 5,8 tCO2/tonn í beinni losun, rafmagnsnotkun er minni en 58 MWh/tonn af vetni og losunarstuðull rafmagnsframleiðslu í vetnisframleiðslunni er í samræmi við viðmið vegna raforkuframleiðslu.
  3. Lífeldsneyti verður að vinna úr sjálfbærum hráefnum sem uppfylla A hluta IX. viðauka tilskipunar (ESB) 2018/2001.

7. gr. Hreinsun fráveituvatns og endurnýting úrgangs.

Eftirfarandi eignir falla undir flokkinn hreinsun fráveituvatns og endurnýting úrgangs, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum:

  1. Búnaður tengdur fráveitu.
  2. Eignir sem ætlaðar eru til söfnunar, flokkunar, geymslu, böggunar eða pökkunar úrgangs.
  3. Eignir sem stuðla að endurvinnslu eða annarri endurnýtingu úrgangs.
  4. Eignir sem meðhöndla lífrænan úrgang og koma í veg fyrir urðun.
  5. Eignir sem tilheyra urðunarstöðum sem fanga yfir 75% af metangasi sem verður til vegna urðunar.

Ofangreindar eignir teljast grænar ef þær uppfylla að lágmarki eitt eftirfarandi skilyrða:

  1. Búnaður hefur yfir 85% endurheimtartíðni endurnýtanlegs eða endurvinnanlegs efnis.
  2. Eignin endurnýjar eða lagfærir vörur eða hreinsar íhluti eða vörur til endurnotkunar miðað við upprunalegan tilgang.
  3. Eignin er notuð til endurvinnslu, s.s. málma, plasts, glers, textíls, pappírs eða pappa.
  4. Eignin er notuð til framleiðslu á lífgasi úr lífrænum úrgangi.
  5. Eignin er notuð til framleiðslu á moltu, áburði eða öðru jarðvegsbætandi efni úr lífrænum úrgangi.
  6. Eignin er notuð til að bæta föngun gass við urðunarstað sem er með gilt starfsleyfi við gildistöku reglugerðar þessarar.
  7. Eignin er hreinsivirki fyrir frárennsli eða hreinsistöð fyrir áburð og mykju.
  8. Eignin er notuð til meðhöndlunar á úrgangi til framleiðslu á rafmagni eða hita sem aukaafurð.

8. gr. Sjálfbær og umhverfisvæn stýring á náttúruauðlindum og landnotkun.

Eftirfarandi eignir falla undir flokkinn sjálfbær og umhverfisvæn stýring á náttúruauðlindum og landnotkun, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum:

  1. Eignir sem ætlaðar eru til skógræktar og timburframleiðslu í atvinnuskyni.
  2. Eignir sem ætlaðar eru í atvinnuskyni til úrbóta á landi og hreinsunar á náttúrulegum vistkerfum, þ. á m. eignir sem ætlaðar eru til að fanga og/eða fjarlægja koltvísýring (CO2) úr andrúmsloftinu eða frá útblástursvirkjum og eignir sem eru hluti af framleiðsluferli á afurð sem ætlað er að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu.
  3. Eignir sem ætlaðar eru til endurheimtar votlendis eða annarra vistkerfa.

Ákvæði 1. mgr. á einnig við um eignir til stjórnunar ofangreindra þátta, upplýsingakerfi og aðra tækni því tengdu.

Eignir skv. 1. og 2. mgr. teljast grænar ef þær falla í neðangreinda flokka, annan eða báða, og sýnt hefur verið fram á að þær uppfylli tilgreind skilyrði:

  1. Skógrækt:

    1. Að skógræktarstjórnun sé í samræmi við staðla PEFC (e. the Programme for the Endorsement of Forest Certification) eða sambærilegan viðurkenndan staðal.
    2. Að skógrækt leiði ekki til neikvæðra áhrifa á líffræðilega fjölbreytni vistkerfa og verulegra umbreytinga á náttúrulegu landslagi.
  2. Verndun, úrbætur, hreinsun og endurreisn vistkerfa: Búsvæði er viðeigandi hvað staðsetningu varðar og vistkerfi er haldið við góða heilsu.

III. KAFLI Aðrar eignir sem telja má sambærilegar grænum eignum skv. II. kafla.

9. gr.

Eignir sem falla undir kafla þennan eru þær sem falla ekki undir II. kafla um grænar eignir en telja má sambærilegar grænum eignum að því tilskildu að þær stuðli að sömu markmiðum, sbr. 2. gr. enda séu uppfyllt skilyrði 10. eða 11. gr.

10. gr.

Til sambærilegra grænna eigna teljast eignir sem bera opinbert umhverfismerki (Svanurinn og Blómið), sbr. reglugerð um umhverfismerki, eignir sem uppfylla viðmið ESB um græn opinber innkaup, sbr. Handbók um vistvæn opinber innkaup, og eignir sem eru umhverfisvottaðar af viðurkenndum aðilum.

11. gr.

Til sambærilegra grænna eigna teljast enn fremur eignir sem uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:

  1. Eru með A+ eða hærri einkunn samkvæmt orkuviðmiðum Evrópusambandsins.
  2. Eru hluti af kerfi eða starfsemi sem felst í framleiðslu á vöru sem hefur hlotið umhverfisvottun frá viðurkenndum aðilum.
  3. Eru tilgreindar í viðeigandi BAT-niðurstöðum og uppfylla losunarviðmið í viðeigandi BAT-niðurstöðum í samræmi við reglugerð nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun.
  4. Eru knúnar a.m.k. 85% af raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, lífeldsneyti eða rafeldsneyti.
  5. Minnka rafmagnsnotkun um a.m.k. 30% eða minnka losun loftmengunarefna eða gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 50% samanborið við hina útskiptu eign eða samanburðareign á markaði. Enn fremur eignir sem koma í stað eigna sem innihalda efni eða efnablöndur (s.s. blýsýru) sem geta haft í för með sér óæskileg áhrif á heilsu manna og skaðað umhverfið enda sé um mun vistvænni valkost að ræða.

IV. KAFLI Önnur ákvæði.

12. gr. Breyting á eign.

Sé lagt í kostnað vegna breytinga á eign þannig að eignin uppfylli að gerðum breytingum skilyrði reglugerðarinnar fyrir því að teljast með grænum eignum, sbr. II. kafla, eða sambærileg grænum eignum, sbr. III. kafla, má líta svo á að uppfyllt sé það skilyrði að um öflun eignar hafi verið að ræða skv. b-lið 3. gr. Séu öll önnur skilyrði uppfyllt heimilast fyrningarálag af kostnaði við breytingarnar.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. mgr. bráðabirgðaákvæðis LXX laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. lög nr. 33/2021, öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 3. maí 2022.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Vilmar F. Sævarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.