Prentað þann 24. nóv. 2024
479/2024
Reglugerð um fyrirkomulag og fjárhæð sekta skv. 2. mgr. 21. gr. laga um landamæri nr. 136/2022.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um fjárhæð og beitingu sekta vegna brota á 1. mgr. 17. gr., sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um landamæri.
2. gr. Tímabundið eftirlit á innri landamærum.
Í ákvörðun ráðherra um að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum skv. 13. gr. laga um landamæri skal þess getið hvort ákvæði 1. mgr. 17. gr., sbr. 2. mgr. 21. gr. laganna um skyldur flutningsaðila skuli gilda.
3. gr. Fjárhæð og beiting sekta.
Lögreglustjóri í því umdæmi sem brot er framið leggur sektir á stjórnanda skips eða loftfars vegna brota á 1. mgr. 17. gr., sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um landamæri. Um sektarákvörðun fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglugerðar nr. 205/2009.
Fjárhæð sektar fyrir hvern farþega sem fluttur er skal nema 500.000 kr., hvort sem hún beinist að stjórnanda skips eða loftfars eða lögaðila, sbr. 4. mgr. 21. gr. laganna.
4. gr. Innleiðing.
Með reglugerð þessari eru innleiddar bótafjárhæðir á flutningsaðila í samræmi við 1. mgr. 4. gr. tilskipunar ráðsins 2001/51/EB frá 28. júní 2001 um viðbót við ákvæði 26. gr. samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í j-lið 1. mgr. 23. gr. laga um landamæri nr. 136/2022, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga, og öðlast þegar gildi.
Dómsmálaráðuneytinu, 4. apríl 2024.
Guðrún Hafsteinsdóttir.
Haukur Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.