Prentað þann 3. des. 2024
466/2023
Reglugerð um skoðanir á skipum og búnaði þeirra.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Almenn ákvæði.
- II. KAFLI Fyrirkomulag og framkvæmd skoðunar.
- 3. gr. Fyrirkomulag skoðunar.
- 4. gr. Skoðun.
- 5. gr. Skoðunaraðili.
- 6. gr. Dæming skoðunaratriða.
- 7. gr. Niðurstaða skoðunar.
- 8. gr. Endurskoðun.
- 9. gr. Skráning og staðfesting á niðurstöðu skoðunar.
- 10. gr. Málskot.
- 11. gr. Ábyrgð útgerðar gagnvart eftirliti, skoðun og viðhaldi skips.
- 12. gr. Nýsmíði skipa.
- 13. gr. Breytingar á skipi.
- 14. gr. Viðgerðir á skipi.
- III. KAFLI Skoðanir og skírteini.
- 15. gr. Fiskiskip, önnur skip sem eru minni en 15 metrar að mestu lengd og farþegabátar óháð stærð.
- 16. gr. Fiskiskip og önnur skip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd.
- 17. gr. Skemmtiskip.
- 18. gr. Farþegaskip í innanlandssiglingum sem falla ekki undir reglugerð nr. 666/2001.
- 19. gr. Farþegaskip og háhraðafarþegaför í innanlandssiglingum sem falla undir reglugerð nr. 666/2001.
- 20. gr. Farþegaskip í millilandasiglingum og flutningaskip.
- 21. gr. Skoðun ekjuferja og háhraðafarþegafara.
- IV. KAFLI Ýmis ákvæði.
- Viðauki I
- Viðauki II
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið, markmið og tilgangur.
Ákvæði þessarar reglugerðar gilda um öll íslensk skip sem skráð eru á íslenska skipaskrá.
Markmið og tilgangur þessarar reglugerðar er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna og farþega og efla varnir gegn mengun sjávar.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu sem hér að neðan greinir:
- Afmælisdagsetning (e. anniversary date) er sá mánaðardagur og mánuður á hverju ári sem samsvarar gildislokadegi viðkomandi skírteinis og skoðunarfyrirkomulags.
- Annað skip er skip sem hvorki telst fiskiskip, farþegaskip, farþegabátur flutningaskip, varðskip eða skemmtiskip.
- Árleg skoðun (Á) er almenn skoðun sem tengist viðeigandi skírteini skipsins og þeirri notkun sem skipinu er ætlað.
- Endurnýjunarskoðun (E) er víðtæk skoðun sem tengist upphafi á nýjum skoðunarhring fyrir skip í 5 ára skoðunarfyrirkomulagi eða endurnýjun á öryggisskírteini.
- Farþegabátur er hvert það skip, skrásett sem farþegabátur, sem hefur heimild til að flytja að hámarki tólf farþega á sjó, ám eða vötnum, til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
- Farþegaskip er hvert það skip, skrásett sem farþegaskip, sem hefur heimild til að flytja fleiri en tólf farþega á sjó, ám eða vötnum, til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
- Fiskiskip er hvert það skip, skrásett sem fiskiskip samkvæmt skipalögum, sem notað er í atvinnuskyni til að veiða fisk eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.
- Flutningaskip er hvert það skip, skrásett sem flutningaskip, sem siglir með varning til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
- Milliskoðun (M)er skoðun sem tengist viðeigandi skírteini skipsins og þeirri notkun sem skipinu er ætlað.
- Skemmtiskip er skip, skrásett sem skemmtiskip samkvæmt skipalögum, sem er ekki notað í atvinnuskyni og ætlað til skemmtisiglinga, óháð þeirri orku sem knýr skipið. Til skemmtiskipa teljast jafnframt skemmtibátar.
- Skipstjóri er sá sem fer með æðsta vald á skipi.
- Skoðunaraðili er aðili sem hefur heimild samkvæmt reglugerð þessari eða lögum til að skoða skip og búnað þeirra. Þeirra á meðal eru Samgöngustofa, auk skoðunarstofa, viðurkenndra flokkunarfélaga eða annarra aðila sem Samgöngustofa hefur veitt heimild til að skoða skip og búnað þeirra í samræmi við reglur þar að lútandi.
- Skoðunarfyrirkomulag skips táknar það fyrirkomulag skoðana sem skal viðhafa eins og því er lýst í I. kafla I. viðauka reglugerðar nr. 122/2004 um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd, 8. gr. reglugerðar nr. 666/2001 um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, SOLAS, viðeigandi alþjóðasamningum og ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.1156(32) með síðari breytingum eins og við getur átt. Skoðunarfyrirkomulagi er lýst nánar í viðauka I og II við reglugerð þessa og má útfæra nánar í skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins.
- Skoðunargluggi eru þeir mánuðir sem heimilt er að framkvæma skoðanir miðað við afmælisdagsetningu skírteinis og skoðunarfyrirkomulagsins.
- Skyndiskoðun er fyrirvaralaus skoðun Samgöngustofu eða Landhelgisgæslu Íslands á ástandi og búnaði skips og skírteinum þess.
- SOLAS er alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu frá árinu 1974 með síðari breytingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist.
- Upphafsskoðun (U) er allsherjarskoðun á skipi áður en það er tekið í notkun. Skoðunin felur í sér skoðun á öllum atriðum sem tengjast skírteinum og þeirri notkun sem skipinu er ætlað. Upphafsskoðun skal framkvæmd af Samgöngustofu eða öðrum sem hún felur skoðunina.
- Útgerð er sá aðili sem mannar skip, ræður ferðum þess, ber kostnaðinn af þeim og nýtur arðs af þeim. Í tilviki skemmtiskips telst eigandi útgerð óháð arði.
- Varðskip er skip, skrásett sem varðskip eða gæsluskip samkvæmt skipalögum, sem notað er til landhelgisgæslu og björgunarstarfa undir yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.
- Viðurkennt flokkunarfélag er félag sem starfar skv. reglugerð um viðurkenningu flokkunarfélaga og um reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun nr. 142/2004 og hefur gert samning við Samgöngustofu skv. 6. gr. þeirrar reglugerðar.
- Öryggisskírteini er skírteini sem Samgöngustofa gefur út sem staðfestir að fullnægjandi skoðun hafi farið fram á skipinu.
II. KAFLI Fyrirkomulag og framkvæmd skoðunar.
3. gr. Fyrirkomulag skoðunar.
Skoðun skipa sem falla undir reglugerð þessa skal vera samkvæmt 5 ára skoðunarfyrirkomulagi, eins og nánar er lýst í þessari reglugerð og viðauka I og II.
Skoðanir skulu fara fram árlega miðað við afmælisdagsetningu skoðunarfyrirkomulagsins að teknu tilliti til skoðunargluggans, sbr. viðauka I og II.
Afmælisdagsetning skoðunarfyrirkomulags skips er dagsetning upphafsskoðunar skips. Við innflutning skips sem er í sambærilegu skoðunarfyrirkomulagi er heimilt að viðhalda fyrri afmælisdagsetningu og skoðunarfyrirkomulagi.
Afmælisdagsetningu skoðunarfyrirkomulagsins verður aðeins breytt undir þeim kringumstæðum sem lýst er í 14. reglu, I. kafla SOLAS, 11. reglu I. kafla I. viðauka reglugerðar nr. 122/2004 um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd, eða með því að framkvæma heildarskoðun á skipinu sem samræmist endurnýjunarskoðun gagnvart viðkomandi skipsskírteini.
4. gr. Skoðun.
Með skoðun á skipum og búnaði þeirra skal skoðunaraðili ganga úr skugga um hvort skipið og búnaður þess uppfyllir gildandi ákvæði laga og reglna þar um. Einnig skal með skoðun skipa og búnaðar staðfesta að samræmi sé á milli skipsins og skráningarupplýsinga. Skoðun skips og búnaðar skal framkvæma í samræmi við skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins sem Samgöngustofa gefur út. Viðurkennd flokkunarfélög skulu jafnframt framkvæma skoðanir í samræmi við samning sinn við Samgöngustofu.
Skoðun og dæming skips og búnaðar skal byggjast á ástandi þess þegar skoðun er gerð.
Þegar skoðunaraðili metur að ástand skips eða búnaðar þess sé efnislega ekki í samræmi við einstök atriði skírteinis þess, eða að skipið sé ekki haffært skal skoðunaraðili þegar í stað gera viðeigandi ráðstafanir, t.d. að fjarlægja viðeigandi skírteini, tilkynna eiganda, útgerð eða skipstjóra um niðurstöðu sína, skrá niðurstöður skoðunar í skipaskrá og tilkynna málið til Samgöngustofu.
5. gr. Skoðunaraðili.
Til að framfylgja ákvæðum þessarar reglugerðar skulu skoðanir skipa og búnaðar þeirra vera á hendi skoðunaraðila.
Skoðanir skipa og búnaðar þeirra samkvæmt reglugerð þessari eru á ábyrgð Samgöngustofu.
Til skoðunaraðila teljast Samgöngustofa, faggildar skoðunarstofur skv. reglugerð um starfshætti faggiltra skoðunarstofa skipa og viðurkennd flokkunarfélög skv. reglugerð um viðurkenningu flokkunarfélaga og um reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun.
Í undantekningartilvikum getur Samgöngustofa tilnefnt skoðunaraðila til að framkvæma skoðun eða annast eftirlit fyrir hönd stofnunarinnar skv. reglugerð þessari.
6. gr. Dæming skoðunaratriða.
Dæming skoðunaratriða skal vera í samræmi við skoðunarhandbók fyrir tegund skips og miðast við hve alvarlegt ástand er á viðkomandi skoðunaratriði að teknu tilliti til öryggis og mengunar.
Fjórir möguleikar eru gefnir á dæmingu skoðunaratriða, dæming 0, 1, 2 eða 3:
- "0" felur í sér að viðkomandi skoðunaratriði er greinilega óskemmt, óslitið og hefur fulla virkni.
- "1" er þess eðlis að viðkomandi skoðunaratriði er greinilega skemmt, greinilega slitið eða hefur takmarkaða virkni, ekki til staðar eða í samræmi við kröfur.
- "2" er þess eðlis að viðkomandi skoðunaratriði er mikið skemmt, mikið slitið eða hefur ófullnægjandi virkni, ekki til staðar eða í samræmi við kröfur.
- "3" felur í sér að viðkomandi skoðunaratriði er alvarlega skemmt, alvarlega slitið eða hefur alvarlega skerta virkni, ekki til staðar eða í samræmi við kröfur.
Hvert einstakt skoðunaratriði skal dæmt út af fyrir sig og án tillits til annarra dæminga.
7. gr. Niðurstaða skoðunar.
Niðurstaða skoðunar skal færð í skoðunarskýrslu í samræmi við hæstu tölu dæmingar hvers einstaks skoðunaratriðis. Niðurstaða skoðunar getur verið ferns konar, þ.e. án athugasemdar, lagfæring, endurskoðun eða sjósókn óheimil:
- Engin athugasemd leiðir af sér niðurstöðuna "án athugasemdar".
- "1" sem hæsta tala dæmingar felur í sér kröfu um að skoðunaratriðið verði lagfært, án þess að krafa sé gerð um endurskoðun. Niðurstaða skoðunarinnar er "lagfæring". Innan eins mánaðar skal eigandi/útgerð hafa bætt úr þeim frávikum sem komið hafa í ljós við skoðun.
- "2" sem hæsta tala dæmingar felur í sér kröfu um að skoðunaratriðið verði lagfært innan tilskilins frests og skipið eða búnaður þess skoðað endurskoðun. Niðurstaða skoðunarinnar er "endurskoðun". Til endurskoðunar má veita allt að 3ja mánaða frest, sbr. 8. gr.
- "3" sem hæsta tala dæmingar hefur í för með sér að skipi má ekki sigla með eigin vélarafli. Niðurstaða skoðunarinnar er "sjósókn óheimil". Framkvæma skal endurskoðun áður en dæming 3 er felld brott eða lækkuð í lægri dæmingu.
Niðurstaða hverrar skoðunar skal vera óháð niðurstöðum undangenginna skoðana.
8. gr. Endurskoðun.
Þegar endurskoðun fer fram skv. c- eða d-lið 7. gr. beinist hún aðallega að þeim athugasemdum sem veittur hefur verið frestur á að lagfæra eða hömluðu sjósókn. Hafi öll atriði ekki verið lagfærð, en þó bætt úr að verulegu leyti má framlengja frest um allt að 3 mánuði, t.d. í þeim tilfellum þegar ekki er unnt að útvega nauðsynlega varahluti og efni eða fá verkstæðis- eða slippþjónustu að því gefnu að engin dæming standi eftir með niðurstöðuna 3.
9. gr. Skráning og staðfesting á niðurstöðu skoðunar.
Skoðunaraðili skal skrá niðurstöður skoðana og aðrar tæknilegar upplýsingar í skoðunarskýrslu í samræmi við skoðunarhandbók fyrir tegund skips, staðfesta hana og afhenda eiganda eða útgerð afrit hennar. Samgöngustofu er heimilt að ákveða að skoðunarskýrsla og afrit megi vera rafrænt.
Skoðunaraðili skal skrá skoðun í skipaskrá svo fljótt sem verða má.
10. gr. Málskot.
Sá sem ekki vill una niðurstöðu skoðunaraðila getur, að undangenginni umfjöllun hans um umkvörtunarefnið, skotið niðurstöðu skoðunar til Samgöngustofu.
11. gr. Ábyrgð útgerðar gagnvart eftirliti, skoðun og viðhaldi skips.
Útgerð og skipstjóri eru ábyrg fyrir því að fyrirmæli um eftirlit og skoðanir skips og búnaðar séu framkvæmdar á þann hátt sem reglugerð þessi mælir fyrir um.
Útgerð ber að óska eftir skoðun á skipi sínu tímanlega í samræmi við reglugerð þessa og nota til þess þjónustu skoðunaraðila.
Útgerð er ábyrg fyrir því að skip hans sé aðgengilegt og ber honum að sýna öll gögn er varða skipið og niðurstöður eldri skoðana óski skoðunaraðili eftir því. Útgerð er enn fremur ábyrg fyrir því að skoðun geti farið fram á skilvirkan hátt.
Útgerð ber að halda skipi og búnaði þess í því ástandi sem ákvæði gildandi laga og reglugerða krefjast og að tryggja að skipið sé haffært.
12. gr. Nýsmíði skipa.
Um eftirlit með nýsmíði skipa og skoðanir fer eftir 26. gr. skipalaga nr. 66/2021, reglugerðum settum á grundvelli þeirra, reglugerð um starfshætti faggiltra skoðunarstofa skipa og búnaðar nr. 94/2004, reglugerð um viðurkenningu flokkunarfélaga og um reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun nr. 142/2004 og reglugerð þessari.
Áður en nýsmíði hefst skulu teikningar, verklýsingar og önnur nauðsynleg gögn sem Samgöngustofa ákveður berast á því formi sem stofnunin ákveður til umsagnar og samþykktar eftir því sem við á. Að lokinni yfirferð á þessum gögnum skal afrit sent skipasmíðastöð eða hönnuði og jafnframt sent skoðunaraðila sem hefur eftirlit með smíðinni. Að smíði lokinni skal skipið skoðað upphafsskoðun af Samgöngustofu nema stofnunin ákveði annað.
13. gr. Breytingar á skipi.
Um eftirlit og skoðanir vegna breytinga á skipi fer eftir 27. gr. skipalaga nr. 66/2021, reglugerðum settum á grundvelli þeirra og reglugerð þessari.
Áður en meiri háttar breytingar hefjast skulu teikningar, verklýsingar og önnur nauðsynleg gögn sem Samgöngustofa ákveður berast stofnuninni á því formi sem stofnunin ákveður og samþykktar eftir því sem við á. Að lokinni yfirferð á þessum gögnum skal afrit þeirra sent skipasmíðastöð eða hönnuði og jafnframt sent skoðunaraðila sem hefur eftirlit með breytingunum. Að breytingum loknum skal skipið skoðað upphafsskoðun af Samgöngustofu nema stofnunin ákveði annað.
14. gr. Viðgerðir á skipi.
Skoðunaraðilar sem hafa heimild til að annast skoðun skipa og búnaðar þeirra skulu í samræmi við skoðunarskýrslur og skoðunarhandbók fyrir tegund skips krefjast viðgerða á skipi og hafa eftirlit með viðgerðum samkvæmt beiðni útgerðar eða Samgöngustofu.
III. KAFLI Skoðanir og skírteini.
15. gr. Fiskiskip, önnur skip sem eru minni en 15 metrar að mestu lengd og farþegabátar óháð stærð.
Við skoðun skipa samkvæmt þessari grein skal þess gætt að þau uppfylli ákvæði skipalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim auk annarra ákvæða laga og reglna sem um þau fjalla og eftir því sem nánar er kveðið á um í skoðunarskýrslum og skoðunarhandbók fyrir tegund skips.
Skip samkvæmt þessari grein skulu skoðuð upphafsskoðun, árlegri skoðun, milliskoðun og endurnýjunarskoðun í samræmi við viðauka I með reglugerð þessari, hvað varðar smíði skipsins, þar með talið bol, vél- og rafbúnað, björgunar- og öryggisbúnað, fjarskiptabúnað, siglingatæki og búnað, aðbúnað og vinnuöryggi.
Að öðru leyti fer um skoðanir á skipum og umfang þeirra skv. þessari grein eftir ákvæðum reglugerðar um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd.
Í framhaldi af skoðunum skoðunaraðila þessara skipa skal Samgöngustofa gefa út haffærisskírteini í samræmi við fyrirmynd sem hún ákveður, sbr. 23. gr.
16. gr. Fiskiskip og önnur skip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd.
Við skoðun skipa samkvæmt þessari grein skal þess gætt að þau uppfylli ákvæði skipalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim auk annarra ákvæða laga og reglna sem um þau fjalla og eftir því sem nánar er kveðið á um í skoðunarskýrslum og skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins.
Skip samkvæmt þessari grein skulu skoðuð upphafsskoðun, árlegri skoðun, milliskoðun og endurnýjunarskoðun í samræmi við viðauka I með reglugerð þessari, hvað varðar smíði skipsins, þar með talið vél- og rafbúnað, björgunar- og öryggisbúnað, fjarskiptabúnað, siglingatæki og búnað, aðbúnað og vinnuöryggi.
Að öðru leyti fer um skoðanir og umfang þeirra, útgáfu eða áritun skírteina, gerð og varðveislu skírteina, tímalengd og gildi skírteina á skipum skv. þessari grein eftir ákvæðum reglugerðar um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd. Í framhaldi af skoðunum skoðunaraðila þessara skipa skal Samgöngustofa gefa út öryggisskírteini og önnur skírteini í samræmi við fyrrgreinda reglugerð.
Fyrir skip samkvæmt þessari grein skal Samgöngustofa gefa út haffærisskírteini í samræmi við fyrirmynd sem hún ákveður, sbr. 23. gr.
17. gr. Skemmtiskip.
Við skoðun skemmtiskipa skal þess gætt að þeir uppfylli ákvæði skipalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim auk annarra ákvæða laga og reglna sem um þá fjalla eftir því sem nánar er kveðið á um í skoðunarskýrslum og skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins.
Skemmtiskip skulu skoðuð upphafsskoðun áður en heimiluð er skráning þeirra á skipaskrá.
Endurnýjunarskoðun skemmtiskips skal framkvæmd fimmta hvert ár en árleg milliskoðun þess á milli í samræmi við viðauka II við reglugerð þessa. Samgöngustofa skal framkvæma upphafsskoðun á skemmtiskipum. Samgöngustofa eða skoðunaraðili skulu framkvæma endurnýjunarskoðun og árlegar milliskoðanir, en eiganda skemmtiskips sem er styttri en 15 metrar að skráningarlengd, er heimilt að annast framkvæmd árlegra milliskoðana á eigin skemmtiskipi, sé skemmtiskipið ekki notað eða ætlað til útleigu. Skoðanir skulu gerðar samkvæmt skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins, skoðunarskýrslum og fyrirmælum Samgöngustofu um skoðanir skemmtiskipa. Skoðun öryggisbúnaðar skal vera í samræmi við reglugerð um björgunar- og öryggisbúnað skemmtibáta. Í framhaldi af skoðunum skoðunaraðila eða eiganda skemmtiskips gefur Samgöngustofa út haffærisskírteini að uppfylltum skilyrðum, í samræmi við 23. gr.
Eigandi skemmtiskips sem annast sjálfur árlegar milliskoðanir á skipi sínu skal varðveita skoðunarskýrslu að skoðun lokinni og geta framvísað henni síðar sé þess óskað.
18. gr. Farþegaskip í innanlandssiglingum sem falla ekki undir reglugerð nr. 666/2001.
Við skoðun skipa samkvæmt þessari grein skal þess gætt að þau uppfylli ákvæði skipalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim auk annarra ákvæða laga og reglna sem um þau fjalla og eftir því sem nánar er kveðið á um í skoðunarskýrslum og skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins.
Skip samkvæmt þessari grein skulu skoðuð upphafsskoðun og endurnýjunarskoðun í samræmi við viðauka I með reglugerð þessari, hvað varðar smíði skipsins, þar með talið vél- og rafbúnað, björgunar- og öryggisbúnað, fjarskiptabúnað, siglingatæki og búnað, aðbúnað og vinnuöryggi.
Sé skip yfir 24 metrum að skráningarlengd úr öðru smíðaefni en tré þá fer um skoðanir á því og umfang þeirra skv. þessari grein eftir ákvæðum reglugerðar um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001 með áorðnum breytingum.
Farþegaskip samkvæmt þessari grein skulu fá útgefið öryggisskírteini með mest 12 mánaða gildistíma. Að öðru leyti fer um útgáfu eða áritun skírteina, gerð og varðveislu skírteina, tímalengd og gildi skírteina á skipum skv. þessari grein eftir ákvæðum reglugerðar um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, nr. 666/2001, með síðari breytingum.
Í framhaldi af skoðunum skoðunaraðila skipa samkvæmt þessari grein skal Samgöngustofa gefa út haffærisskírteini í samræmi við fyrirmynd sem hún ákveður, sbr. 23. gr.
19. gr. Farþegaskip og háhraðafarþegaför í innanlandssiglingum sem falla undir reglugerð nr. 666/2001.
Við skoðun skipa samkvæmt þessari grein skal þess gætt að þau uppfylla ákvæði skipalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim, þ.m.t. ákvæði reglugerðar um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001 með síðari breytingum, kóða Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sem þar er vísað til auk annarra ákvæða laga og reglna sem um þau fjalla og eftir því sem nánar er kveðið á um í skoðunarskýrslum og skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins.
Skip samkvæmt þessari grein skulu skoðuð í samræmi við reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001 með áorðnum breytingum. Um skoðanir, útgáfu eða áritun skírteina, gerð og varðveislu skírteina, tímalengd og gildi skírteina á skipum skv. þessari grein fer eftir ákvæðum sömu reglugerðar og ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.1156(32) með síðari breytingum eins og við getur átt, sbr. viðauka I með reglugerð þessari.
Í framhaldi af skoðunum skoðunaraðila þessara skipa skal Samgöngustofa gefa út öryggisskírteini farþegaskips með mest 12 mánaða gildistíma og önnur skírteini í samræmi við fyrrgreinda reglugerð og haffærisskírteini skv. 23. gr.
20. gr. Farþegaskip í millilandasiglingum og flutningaskip.
Við skoðun farþegaskipa í millilandasiglingum og allra flutningaskipa skal þess gætt að þau uppfylli ákvæði viðeigandi alþjóðasamninga, skipalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim auk annarra ákvæða laga og reglna sem um þau fjalla og eftir því sem nánar er kveðið á um í skoðunarskýrslum og skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins.
Skoðunarfyrirkomulag þessara skipa skal vera með sama hætti og lýst er í ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.1156(32) með síðari breytingum eins og við getur átt, sbr. viðauka I með reglugerð þessari. Um skoðanir, útgáfu eða áritun skírteina, gerð og varðveislu skírteina, tímalengd og gildi skírteina á skipum skv. þessari grein fer eftir ákvæðum viðeigandi alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er aðili að.
Öryggisskírteini fyrir flutningaskip í innanlandssiglingum skal gefið út á því formi sem Samgöngustofa ákveður í samræmi við skoðunarfyrirkomulag þeirra.
Í framhaldi af skoðunum skoðunaraðila þessara skipa skal Samgöngustofa gefa út haffærisskírteini skv. 23. gr.
21. gr. Skoðun ekjuferja og háhraðafarþegafara.
Samgöngustofa annast skoðun ekjuferja og háhraðafarþegafara í innanlandssiglingum á hafsvæði A í samræmi við ákvæði reglugerðar um skoðanakerfi fyrir öruggan rekstur ekjufarþegaskipa og háhraðafarþegafara í áætlunarferðum nr. 1188/2020. Þar sem ákvæðum þeirrar reglugerðar sleppir skal beita 19. gr. að breyttu breytanda.
Samgöngustofa annast skoðun ekjuferja og háhraðafarþegafara í millilandasiglingum í samræmi við ákvæði reglugerðar um hafnarríkiseftirlit, nr. 816/2011, með áorðnum breytingum. Þar sem ákvæði þeirrar reglugerðar sleppir skal beita 20. gr. að breyttu breytanda.
IV. KAFLI Ýmis ákvæði.
22. gr. Skyndiskoðun.
Um skyndiskoðun skipa fer eftir ákvæðum 34. gr. skipalaga nr. 66/2021.
Samgöngustofa ákveður að hvaða marki hún beitir skyndiskoðunum í tengslum við eftirlit sitt með skoðunaraðilum skv. 5. gr.
23. gr. Útgáfa, gildistími og varðveisla skírteina.
Samgöngustofa skal gefa út haffærisskírteini fyrir öll skip skv. reglugerð þessari og öryggisskírteini fyrir fiskiskip og önnur skip skv. ákvæðum 16. gr. og öll skip samkvæmt 18., 19. og 20. gr. Samgöngustofa gefur jafnframt út viðeigandi alþjóðaskírteini, skírteini um tímabundið ómannað vélarúm og skal hún eða annar skoðunaraðili sem hún tilnefnir annast skoðun í tengslum við útgáfu slíks skírteinis eftir því sem nánar kemur fram í skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins.
Gildistími skírteina skal taka mið af niðurstöðum skoðana, sem undir skírteinið falla. Hámarksgildistími skírteina skal vera í samræmi við það sem vísað til í 16., 18., 19. og 20. gr. eða í samræmi við alþjóðasamninga, eftir því sem við á. Hafi skip hlotið dæmingu 0, 1 eða 2 í skoðun, er heimilt að gefa út skírteini með hámarksgildistíma enda verði endurskoðun sett á dagskrá í samræmi við skoðunarhandbók fyrir tegund skipsins eins og við á. Sé ekki bætt úr dæmingum innan tímafresta og frekari frestir ekki veittir þá fellur skírteini skips sjálfkrafa úr gildi.
Samgöngustofu er heimilt að fela skoðunaraðila að árita öryggisskírteini.
Eftir hverja skoðun skv. 16., 18., 19. og 20. gr. skal Samgöngustofa gefa út nýtt eða árita öryggisskírteini fyrir skipið í samræmi við reglugerðir sem vísað er til í fyrrnefndum greinum.
Hafi skoðun ekki farið fram innan skoðunarglugga skv. I. og II. viðauka við reglugerð þessa þá falla þau sjálfkrafa úr gildi.
Þrátt fyrir önnur ákvæði reglugerðar þessarar skal viðurkenndum flokkunarfélögum heimilt að gefa út skipsskírteini í samræmi við samning sinn við Samgöngustofu.
Öll skjöl, skírteini um skipið og síðustu útfylltu skoðunareyðublöð skulu á hverjum tíma vera varðveitt um borð í skipinu og vera aðgengileg áhöfn skips og skoðunaraðila. Heimilt er að varðveita gögn með rafrænum hætti sé það unnt.
Leitast skal við að afmælisdagsetning skírteina skipsins sé samræmd, til samræmis við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.1156(32) með síðari breytingum eins og við getur átt.
Skírteini skulu vera á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Í þeim tilvikum sem skírteini eru gefin út samkvæmt alþjóðasamningum eða Evrópugerðum skal skírteinið vera í samræmi við ákvæði þeirra.
24. gr. Gjöld.
Fyrir skoðun sem skoðunaraðili framkvæmir greiðir útgerð gjald í samræmi við gjaldskrá skoðunaraðila. Fyrir útgáfu skírteina skal greiða gjald í samræmi við gjaldskrá Samgöngustofu.
25. gr. Refsiákvæði.
Brot á reglugerð þessari varða refsingu eða stjórnvaldssektum samkvæmt skipalögum, nr. 66/2021.
26. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 1. og 3. mgr. 30. gr. skipalaga nr. 66/2021 og tekur þegar gildi. Á sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1017/2003 um skoðanir á skipum og búnaði þeirra með áorðnum breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða.
- Við gildistöku reglugerðar þessarar skal afmælisdagsetning skoðunarfyrirkomulags skips sem þegar er á skipaskrá ákvarðast af gildistíma öxulskoðunar. Þó skal afmælisdagsetning skoðunarfyrirkomulags skemmtibáta samkvæmt 17. gr. ákvarðast af síðustu skoðun sem var framkvæmd af viðurkenndum skoðunaraðila.
- Þrátt fyrir ákvæði reglugerðar þessarar og þeirrar tíðni skoðana sem lýst er í 5 ára skoðunarfyrirkomulagi skipa þá er Samgöngustofu heimilt við gangsetningu á nýrri skipaskrá og gagnaflutning skoðana fyrir skip, að framlengja og stytta gildistíma skoðana fyrir þau skip sem passa ekki inn skoðunarfyrirkomulagið og gefa út eða framlengja viðeigandi skipsskírteini í samræmi.
- Þrátt fyrir bráðabirgðaákvæði B skal haffæri skips sem gefið hefur verið út við gildistöku reglugerðarinnar halda fullu gildi sínu. Þegar það haffæri fellur úr gildi skal ýmist framkvæma skoðun á þeim tímapunkti sem fær skertan gildistíma fram að lokum næsta skoðunarglugga eða framlengja haffæri svo það dugi inn í næsta skoðunarglugga. Við ákvörðun um hvort skuli gert skal meta hversu langur tími er í næsta skoðunarglugga og skal tími milli skoðana ekki verða lengri en mesti tími sem getur liðið milli skoðana skv. skoðunarfyrirkomulaginu skv. viðauka I og II.
- Skip sem eru í flokki hjá viðurkenndu flokkunarfélagi skulu færð inn í skoðunarfyrirkomulag afmælisdagsetningar skv. viðauka I innan tveggja ára frá gildistöku reglugerðar þessarar í samráði við viðurkennda flokkunarfélagið sem skipið er í flokki hjá. Sé skipið með afmælisdagsetningu hjá viðurkennda flokkunarfélaginu er heimilt að nota þá dagsetningu.
- Ef bráðabirgðaákvæði A leiðir til þess að mati Samgöngustofu að skoðanir passa illa inn í skoðunarfyrirkomulagið við gildistöku reglugerðarinnar er stofnuninni heimilt að beiðni útgerðar að miða afmælisdagsetningu skoðunarfyrirkomulagsins við aðrar skoðanir sem leiða til minna óhagræðis fyrir útgerð.
Innviðaráðuneytinu, 10. maí 2023.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Hermann Sæmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.