Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Stofnreglugerð

444/2024

Reglugerð um óleyfilegan kosningaáróður, kosningaspjöll og aðra starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kosningar geti farið fram með friðsamlegum hætti og ekkert það sé haft í frammi sem ógnað getur öryggi eða truflað framkvæmd kosninga.

2. gr. Skyldur kjörstjórna og kjörstjóra.

Kjörstjórnum og kjörstjórum ber að sjá til þess að hvorki fari fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga eins og nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

3. gr. Takmörkun fjölda fólks.

Kjörstjórnir og kjörstjórar hafa heimild til að takmarka fjölda fólks inni á kjörstað til að halda uppi röð og reglu.

4. gr. Óleyfilegur kosningaáróður.

Á kjörstað og þar sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram er óheimilt að hafa í frammi hvers konar kosningaáróður. Á það við um bygginguna sem atkvæðagreiðslan fer fram í og lóð hennar.

Það er kosningaáróður að hafa í frammi nokkuð það sem getur haft áhrif á afstöðu kjósenda. Til kosningaáróðurs geta m.a. talist auglýsingar, merki, slagorð eða önnur auðkenni framboða sem og að auglýsa eða vekja athygli á málefnum í samfélagslegri umræðu.

Það telst ekki til kosningaáróðurs þótt umboðsmenn framboða beri skilríki þar sem fram kemur nafn framboðs þess sem þeir starfa fyrir.

5. gr. Kosningaspjöll og önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

Óheimilt er aðhafast nokkuð sem getur spillt umhverfi, aðföngum eða öðru sem haft getur áhrif á framkvæmd kosninga. Jafnframt er óheimilt að hafa í frammi hegðun sem ógnað getur öryggi og truflað framkvæmd kosninga.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 4. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 81. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og öðlast þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 8. apríl 2024.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.