Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Stofnreglugerð Reglugerð án breytinga, sjá breytingasögu.

442/2024

Reglugerð um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga í kosningum.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að skýrt og fyrirsjáanlegt sé hvernig kostnaður við kosningar skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga eftir því um hvaða kosningar og verkefni er að ræða.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur.

3. gr. Alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Kostnaður við alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur greiðist úr ríkissjóði.

4. gr. Sveitarstjórnarkosningar.

Kostnaður við sveitarstjórnarkosningar greiðist af sveitarfélögum nema annað sé tekið fram í kosningalögum, svo sem vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, sbr. 5. gr. og vegna kjörgagna og áhalda er landskjörstjórn lætur kjörstjórnum í té.

5. gr. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla.

Kostnaður vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar greiðist úr ríkissjóði að því frátöldu að fari atkvæðagreiðsla fram á grundvelli 2. tölul. 2. mgr. 69. gr. kosningalaga ber viðkomandi sveitarfélag kostnaðinn.

6. gr. Annar kostnaður vegna framkvæmdar kosningalaga.

Kostnaður vegna landskjörstjórnar og úrskurðarnefndar kosningamála greiðist úr ríkissjóði. Annar kostnaður sem til fellur vegna framkvæmdar kosningalaga og fellur ekki undir ákvæði reglugerðar þessarar greiðist úr ríkissjóði.

7. gr. Fjárframlag ríkissjóðs til sveitarfélaga.

Við alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur skal ríkissjóður greiða sveitarfélögum sérstakt fjárframlag vegna verkefna þeirra við framkvæmd kosninganna.

Við forsetakosningar 2024 skal ríkissjóður greiða hverju sveitarfélagi 937 kr. fyrir hvern kjósanda á kjörskrá í viðkomandi sveitarfélagi og 697.000 kr. fyrir hvern kjörstað. Telji sveitarfélag að sá kostnaður sem það hefur haft af kosningunum sé umfram framlag ríkissjóðs getur það óskað eftir auknu framlagi ríkissjóðs til að mæta þeim kostnaði. Beiðni um aukið framlag ásamt sundurliðuðu kostnaðaryfirliti skal sent landskjörstjórn sem tekur ákvörðun um endurgreiðslu.

Að loknum forsetakosningum 2024 skal sérhvert sveitarfélag senda landskjörstjórn sundurliðað kostnaðaryfirlit þar sem fram kemur á skýran og greinargóðan hátt í hverju kostnaður þess vegna kosninganna hafi verið fólginn og þær fjárhæðir sem um er að ræða. Landskjörstjórn í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga skal greina upplýsingarnar þannig að ljóst sé hver raunkostnaður sveitarfélaga hafi verið við kosningarnar.

Landskjörstjórn skal að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja fram tillögur um fjárframlög ríkisins til sveitarfélaga á grundvelli upplýsinga skv. 3. mgr. vegna hlutverks þeirra við framkvæmd annarra kosninga en sveitarstjórnarkosninga.

8. gr. Skipting kostnaðar milli sveitarfélaga og Þjóðskrár Íslands.

Þjóðskrá Íslands ber kostnað af gerð og rekstri kjörskrár og af þeirri þjónustu sem stofnuninni ber að veita í því sambandi, s.s. vegna leiðréttinga á kjörskrá. Þjóðskrá Íslands skal senda sveitarstjórnum kjörskrá með rafrænum hætti, án endurgjalds.

Landskjörstjórn tryggir að fyrir hendi sé rafrænt meðmælendakerfi sem aðgengilegt er fyrir öll sveitarfélög. Þjóðskrá Íslands er þjónustu- og rekstraraðili kerfisins. Kjósi sveitarfélag að nota meðmælendakerfið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga skal það greiða fyrir þá þjónustu sem Þjóðskrá Íslands veitir notendum kerfisins vegna meðmælendasöfnunar í viðkomandi sveitarfélagi.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 139. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og tekur þegar gildi. Ákvæði 7. gr. reglugerðarinnar skal tekið til endurskoðunar fyrir árslok 2024.

Dómsmálaráðuneytinu, 8. apríl 2024.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.