Fara beint í efnið

Prentað þann 27. nóv. 2024

Stofnreglugerð

440/2023

Reglugerð um vörslufjárreikninga vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vátryggingamiðlara sem hafa útgefið starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins skv. 6. gr. laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga og vátryggingaumboðsmenn sem eru skráðir hjá vátryggingafélagi og Fjármálaeftirlitinu skv. 2. mgr. 16. gr. sömu laga.

2. gr. Aðgreining fjármuna.

Vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanni er skylt að halda þeim fjármunum, sem tekið er við í þágu annarra, aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi. Þeim er jafnframt skylt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um vörslufé í samræmi við reglugerð þessa.

II. KAFLI Vörslufé.

3. gr. Viðskiptareikningur vegna vörslufjár.

Vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður, sem varðveita fé viðskiptavina sinna, skulu færa sérstakan viðskiptareikning í bókhaldi sínu, sem sýnir inneign viðskiptavinar á hverjum tíma. Á reikninginn skal færa allt fé, sem vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður tekur við til varðveislu vegna dreifingar vátrygginga. Ekki er skylt að færa á reikninginn fé, sem tekið er við og skilað samdægurs.

Vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður skulu einnig færa sérstakan, sameiginlegan viðskiptareikning, vörslufjárreikning, sem sýnir á hverjum tíma samanlagðar innstæður allra viðskiptavina á viðskiptareikningum skv. 1. mgr. Þegar sérstakar aðstæður mæla með því er heimilt að færa vörslufjárreikninga vegna einstakra viðskiptavina.

4. gr. Vörslufjárreikningur í viðskiptabanka eða sparisjóði.

Fjárhæð, sem samsvarar stöðu vörslufjárreiknings í bókhaldi vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns, skal varðveitt á sérstökum bankareikningi/-reikningum í viðskiptabanka eða sparisjóði, vörslufjárreikningi. Ef vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður er jafnframt viðskiptabanki eða sparisjóður skal þeim heimilt að stofna sjálfir slíka vörslufjárreikninga. Vörslufjárreikningur skal stofnaður á nafni vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns og hefur hann formlega ráðstöfunarheimild yfir reikningnum. Vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður er ekki eigandi innstæðu á reikningi samkvæmt þessari grein og er innstæðan ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum eða grundvöllur trygginga fyrir viðskiptum hans eða annarra. Reikningurinn skal aðgreindur frá eigin fé vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns og stendur innstæðan á honum utan skuldaraðar við skipti á búi hans. Hið sama á við ef starfsemi vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns er rekin í nafni félags.

5. gr. Sérstakar reglur um vörslufjárreikninga.

Vörslufjárreikninga er einungis heimilt að stofna í viðskiptabönkum eða sparisjóðum, sem með tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins hafa skuldbundið sig til þess að fylgja eftirfarandi reglum:

  1. Viðskiptabanka eða sparisjóði skal óheimilt að skuldfæra á vörslufjárreikning nokkurn kostnað vegna viðskipta við vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmann eða nota innstæðuna til skuldajöfnunar krafna gegn honum eða einstökum viðskiptamönnum hans.
  2. Viðskiptabanka eða sparisjóði skal óheimilt að ráðstafa fjármunum af vörslufjárreikningi nema gegn skriflegum eða rafrænum fyrirmælum frá vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni. Skulu slík fyrirmæli varðveitt hjá viðkomandi lánastofnun með sama hætti og bókhaldsgögn.
  3. Viðskiptabanka eða sparisjóði er skylt að senda Fjármálaeftirlitinu staðfest yfirlit um stöðu og hreyfingar á vörslufjárreikningi hvenær sem Fjármálaeftirlitið kallar eftir slíku yfirliti.
  4. Viðskiptabanka eða sparisjóði er skylt að sæta því að Fjármálaeftirlitið stöðvi notkun vörslufjárreiknings. Hafi notkun verið stöðvuð er óheimilt að greiða af reikningnum án heimildar trúnaðarmanns, sem Fjármálaeftirlitið tilnefnir.

6. gr. Skylda til að leggja fé á vörslufjárreikning.

Vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður skal eftir að hann hefur móttekið fjármuni frá viðskiptamanni sínum eða öðrum leggja allt fé sem hann tekur við og honum ber að færa á vörslufjárreikning í bókhaldi sínu skv. 4. gr., á vörslufjárreikning í viðskiptabanka eða sparisjóði.

7. gr. Heimild til greiðslu af vörslufjárreikningi.

Út af vörslufjárreikningi má aðeins taka ef og þegar:

  1. Fé greiðist til viðskiptavinar eða er notað til greiðslu fyrir hans hönd samkvæmt skriflegri heimild þar um;
  2. Vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður á fé hjá viðskiptavini sínum vegna gjaldfallins endurgjalds eða útlagðs kostnaðar samkvæmt rétt bókfærðri stöðu viðskiptareiknings hans, enda sé fullnægt skilyrðum til skuldajöfnunar;
  3. Rétt uppgjör og afstemming vörslufjárreiknings hefur farið fram og sannreynt er að á honum er fé, sem er umfram skuldbindingar.

8. gr. Skylda til að stemma af reikninga.

Vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður skulu á minnst þriggja mánaða fresti bera saman og staðreyna að innstæða á vörslufjárreikningi samsvari bókfærðri stöðu vörslufjárreiknings í bókhaldi. Á sama hátt skulu þeir bera saman og staðreyna að samtala viðskiptareikninga viðskiptavina samsvari stöðu vörslufjárreiknings í bókhaldi. Komi í ljós, að innstæða á vörslufjárreikningi er lægri en nemur heildarskuldbindingum vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns samkvæmt vörslufjárreikningi í bókhaldi hans, skal hann tafarlaust bæta úr því. Gögn, sem sýna að vörslufjárreikningur í banka og bókhaldi hafi verið stemmdur af, skal vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður varðveita með sama hætti og önnur bókhaldsgögn.

III. KAFLI Eftirlit.

9. gr. Yfirlýsing til Fjármálaeftirlitsins.

Vátryggingamiðlari skal fyrir lok aprílmánaðar ár hvert senda Fjármálaeftirlitinu, á þar til gerðu eyðublaði, sem Fjármálaeftirlitið lætur í té, yfirlýsingu, staðfesta af löggiltum endurskoðanda, um stöðu vörslufjárreiknings í banka 31. desember á liðnu ári. Staða vörslufjár á reikningnum skal ekki vera lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi.

Vátryggingaumboðsmaður og/eða það vátryggingafélag sem hann starfar fyrir skal fyrir lok aprílmánaðar ár hvert senda Fjármálaeftirlitinu, á þar til gerðu eyðublaði, sem Fjármálaeftirlitið lætur í té, yfirlýsingu, staðfesta af löggiltum endurskoðanda, um stöðu vörslufjárreiknings í banka 31. desember á liðnu ári. Staða vörslufjár á reikningnum skal ekki vera lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 21. gr. laga um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, öðlast þegar gildi. Samtímis fellur úr gildi reglugerð um fjárvörslureikninga vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna nr. 590/2005.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 24. apríl 2023.

F. h. r.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Elísabet Júlíusdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.