Prentað þann 25. nóv. 2024
430/2022
Reglugerð um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu á stofnunum og í heimahúsum.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr.
Tilgangur reglugerðar þessarar er að setja reglur um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á stofnunum og í heimahúsum til að tryggja samræmda og örugga framkvæmd kosninga.
2. gr.
Reglugerð þessi gildir um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu við sveitarstjórnarkosningar á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum, hér eftir einnig nefndar stofnanir, og í heimahúsi ef kjósandi getur ekki sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar.
II. KAFLI Atkvæðagreiðsla á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum.
3. gr.
Rétt til að greiða atkvæði utan kjörfundar á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum hafa eingöngu þeir kjósendur sem dveljast þar og eru þar til meðferðar eða eru vistmenn þar eða heimilismenn. Aðrir hafa ekki rétt til að greiða þar atkvæði.
4. gr.
Atkvæðagreiðsla á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum skal fara fram sem næst kjördegi í samráði við fyrirsvarsmann viðkomandi stofnunar. Hún má ekki fara fram fyrr en 21 degi fyrir kjördag.
Kjörstjóra ber að kanna í samráði við fyrirsvarsmann hlutaðeigandi stofnunar og að fengnum upplýsingum um þá sem eru þar til meðferðar eða eru þar vistmenn eða heimilismenn, hvort ástæða sé til að láta atkvæðagreiðslu fara þar fram og þá hvenær.
Ákvörðun um þetta efni skal tekin eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag og skal þá birta auglýsingu innan hlutaðeigandi stofnunar um það hvar atkvæðagreiðsla fer fram og á hvaða tíma. Jafnframt skal kjörstjóri tilkynna umboðsmönnum framboðslista um atkvæðagreiðsluna fyrir fram og birta auglýsinguna á vef landskjörstjórnar.
Atkvæðagreiðslan skal hefjast og henni ljúka á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, að höfðu samráði við fyrirsvarsmann stofnunar. Miða skal við að atkvæðagreiðsla fari fram í eitt skipti á hverri stofnun og þess gætt að öllum sem þess óska og rétt hafa gefist hæfilegt ráðrúm til að nýta sér auglýstan tíma. Atkvæðagreiðsla á sjúkrahúsi skal fara fram sem næst kjördegi.
5. gr.
Hlutaðeigandi stofnun skal láta í té hentuga aðstöðu, svo og eftir atvikum aðstoðarfólk, þannig að atkvæðagreiðsla geti gengið sem greiðast fyrir sig og með fyrirskipuðum hætti. Kjósanda ber að koma á fund kjörstjóra þar sem atkvæðagreiðslan fer fram, og því aðeins má atkvæðagreiðsla fara fram á sjúkrastofu eða í herbergjum heimilismanna dvalarheimila og fatlaðs fólks eða vistmanna, að verulegir annmarkar séu á að flytja kjósanda á fund kjörstjóra.
III. KAFLI Atkvæðagreiðsla í heimahúsum.
6. gr.
Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi, nema hann eigi þess kost að greiða atkvæði á stofnun skv. II. kafla.
7. gr.
Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg á þar til gerðu umsóknareyðublaði, sem landskjörstjórn birtir á vef sínum. Umsóknin skal studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Skal umsóknin hafa borist kjörstjóra eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag.
Atkvæðagreiðslan skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður.
IV. KAFLI Kosningaathöfnin og skil atkvæða.
8. gr.
Um kosningaathöfnina sjálfa, m.a. um heimild kjósanda til aðstoðar, gilda að öllu leyti sömu reglur og um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar almennt, sbr. XII. kafla kosningalaga.
Kjósandi, sem greiðir atkvæði hjá kjörstjóra á stofnun eða í heimahúsi, í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá og skilur þar eftir umslag með atkvæði sínu, skal sjálfur láta atkvæðisbréf sitt í atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sitt. Innsigli umboðsmanna skulu ekki skarast við innsigli kjörstjóra. Að lokinni atkvæðagreiðslu á stofnun eða í heimahúsi er kjörstjóra heimilt að rjúfa innsigli atkvæðakassans og setja atkvæðisbréf í atkvæðakassa viðkomandi sveitarfélags. Heimilt er umboðsmönnum að vera viðstaddir þessa flokkun atkvæðisbréfa.
Aðrir kjósendur skulu sjálfir annast sendingu atkvæðisbréfs síns til þess sveitarfélags þar sem þeir eru á kjörskrá. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst og greiða almennt póstburðargjald undir sendinguna. Kjósandi ber að öðru leyti sjálfur kostnað af sendingu atkvæðisbréfsins.
V. KAFLI Lokaákvæði.
9. gr.
Reglugerð þessi er sett skv. 7. mgr. 69. gr. kosningalaga nr. 112/2021, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og tekur þegar gildi.
Jafnframt falla úr gildi leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl., frá 24. ágúst 2021 nr. 954/2021.
Dómsmálaráðuneytinu, 6. apríl 2022.
Jón Gunnarsson.
Haukur Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.