Prentað þann 4. des. 2024
390/2023
Reglugerð um atvinnusjúkdóma.
I. KAFLI Gildissvið og markmið.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um viðurkenningu á rétti slysatryggðra skv. lögum nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga, með síðari breytingum, til bóta vegna atvinnusjúkdóma sem þeir hafa verið greindir með, sbr. 5. gr. laganna og III. kafla reglugerðar þessarar.
2. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessara er að tryggja slysatryggðum bætur frá almannatryggingum vegna atvinnusjúkdóma sem þeir hafa greinst með, óháð tekjum þeirra, sbr. lög um slysatryggingar almannatrygginga.
II. KAFLI Stjórnsýsla.
3. gr. Umsókn slysatryggðs um bætur.
Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. lög um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Sjúkratryggingum Íslands er meðal annars falið að meta hvort sjúkdómur sem hinn slysatryggði hefur greinst með telst hafa orsakast af vinnu eða starfsumhverfi hins tryggða á grundvelli læknisfræðilegra gagna eða annarra viðurkenndra gagna.
Slysatryggðum er heimilt að sækja um bætur vegna atvinnusjúkdóma sem þeir hafa greinst með, sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar. Með umsókninni skulu fylgja öll læknisfræðileg gögn sem málið varðar ásamt upplýsingum um núverandi og fyrrverandi vinnustaði hins tryggða og önnur nauðsynleg gögn sem hann telur geta sýnt fram á tengsl milli skaðlegra áhrifa áhættuþátta í starfsumhverfi og sjúkdómsins. Sjúkratryggingar geta óskað eftir öðrum gögnum við meðferð málsins hjá hinum slysatryggða eða öðrum samkvæmt umboði hins slysatryggða, svo sem heilbrigðisstarfsfólki, atvinnurekendum, tryggingafélögum, rannsóknarstofum eða Vinnueftirlitinu, þannig að málið teljist upplýst áður en ákvörðun er tekin um rétt til bóta, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Sjúkratryggingar Íslands skulu við afgreiðslu umsókna um bætur vegna atvinnusjúkdóma fara að reglugerð þessari og leiðbeiningum Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma, lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
4. gr. Kæruheimild.
Slysatryggðum er heimilt að kæra ákvarðanir Sjúkratrygginga Íslands um synjun um bætur til úrskurðarnefndar velferðarmála. Stjórnsýslukæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra telst nógu snemma fram komin ef kærubréf hefur borist nefndinni eða verið póstlagt áður en fresturinn rennur út. Að öðru leyti gilda lög nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála, og stjórnsýslulög um málsmeðferð stjórnsýslukæru.
III. KAFLI Orsakasamband milli sjúkdóms og starfsumhverfis hins tryggða.
5. gr. Atvinnusjúkdómur.
Sjúkdómur sem talinn er upp í viðauka I við reglugerð þessa telst atvinnusjúkdómur í skilningi þessarar reglugerðar þegar hann er talinn að mati Sjúkratrygginga Íslands hafa orsakast af vinnu eða starfsumhverfi hins slysatryggða, sbr. einnig 6. og 7. gr. reglugerðar þessarar og leiðbeiningar Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma.
6. gr. Orsakasamband við vinnu eða aðstæður í starfsumhverfi.
Við mat á því hvort sjúkdómur sem talinn er upp í viðauka I við reglugerð þessa geti talist atvinnusjúkdómur, sbr. 5. gr., skulu eftirfarandi skilyrði vera fyrir hendi:
- Klínísk birtingarmynd sjúkdómsins, þar á meðal einkenni og niðurstöður rannsókna, skal vera í samræmi við þekkingu á áhrifum þess að hinn slysatryggði sé útsettur fyrir tilteknum áhættuþáttum, sem koma fyrir eða hafa komið fyrir í starfsumhverfi hins tryggða, á heilsu hans. Við greiningu getur í sumum tilvikum verið stuðst við viðeigandi rannsóknir.
- Skýr tengsl skulu vera milli þess að hinn slysatryggði hafi verið úsettur fyrir tilteknum áhættuþáttum skv. a-lið og varanlegra skaðlegra áhrifa á heilsu hans. Sýna skal fram á hin skaðlegu áhrif með því að taka saman svo sem áhættuþætti, atvinnusögu hins slysatryggða, niðurstöður mengunarmælinga á vinnustað, þegar það á við, og skráningu atvika þar sem mengun hefur farið yfir mengunarmörk, sbr. reglugerð um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, nr. 390/2009.
- Tímabilið frá því að hinn slysatryggði var útsettur fyrir tilteknum áhættuþætti í starfsumhverfi sínu og þar til að hin skaðlegu áhrif koma fram verður að vera í samræmi við það sem vitað er um heilsufarssögu viðkomandi, meinafræði sjúkdómsins og læknisfræðilega framvindu hans. Hinn slysatryggði verður að hafa verið útsettur fyrir tilteknum áhættuþáttum áður en klínísk birtingarmynd kemur fram. Engu að síður útilokar heilsufarssaga hins slysatryggða ekki sjálfkrafa möguleikann á því að starfsumhverfi hafi getað valdið hinum klínísku einkennum.
- Mat á því hvort klínísk birtingamynd sjúkdómsins kunni að orsakast af öðrum ástæðum en aðstæðum í starfsumhverfi þar sem hinn slysatryggði hefur starfað þarf að hafa farið fram.
7. gr. Leiðbeiningar um mat á því hvort sjúkdómur telst atvinnusjúkdómur.
Við mat á því hvort sjúkdómur sem talinn er upp í viðauka I við reglugerð þessa geti talist atvinnusjúkdómur, sbr. 5. gr., skal m.a. líta til eftirfarandi atriða, eftir því sem við á:
- Hvort hinn slysatryggði hafi verið útsettur fyrir tilteknum áhættuþáttum í starfsumhverfi sínu, til dæmis mengun, í svo miklu magni að hafi getað valdið klínískum einkennum en það er misjafnt eftir einstökum áhættuþáttum, sbr. einnig leiðbeiningar Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma.
- Hvort hinn slysatryggði hafi verið útsettur fyrir tilteknum áhættuþáttum skv. a-lið nægjanlega lengi í starfsumhverfi sínu til að geta orðið fyrir skaðlegum áhrifum þeirra en tímalengdin getur verið misjöfn eftir einstökum áhættuþáttum, sbr. einnig leiðbeiningar Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma.
- Hvort of langur tími sé liðinn frá því að hinn slysatryggði var útsettur fyrir tilteknum áhættuþáttum skv. a-lið í starfsumhverfi sínu og þangað til að einkennin komu fram, sbr. einnig leiðbeiningar Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma.
- Hvort nægur tími hafi liðið frá því að hinn slysatryggði hóf störf þar sem hann var útsettur fyrir tilteknum áhættuþáttum skv. a-lið þar til klínísk birtingarmynd sjúkdómsins kom fram þannig að orsakasamband geti verið milli áhættuþátta og sjúkdómsins, þ.e. hvort meðgöngutími sjúkdómsins hafi verið nægilega langur miðað við læknisfræðilega þekkingu á meinafræði sjúkdómsins.
Um nánari leiðbeiningar vísast til leiðbeininga Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma.
8. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 5. gr. a og 23. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, öðlast þegar gildi.
Heilbrigðisráðuneytinu, 23. mars 2023.
Willum Þór Þórsson.
Guðlaug Einarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.