Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Stofnreglugerð

376/2022

Reglugerð um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna.

I. KAFLI Almennt.

1. gr. Gildissvið.

Eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari skal á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. ágúst 2022 endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem:

  1. byggjendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað,
  2. eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess.

Eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari skal á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 30. júní 2022 endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem:

  1. byggjendur frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað,
  2. eigendur frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess,
  3. byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis,
  4. eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis,
  5. eigendur eða leigjendur, þar á meðal húsfélög, hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis,
  6. sveitarfélög, eða stofnanir og félög sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur eða viðhald á öðru húsnæði sem alfarið er í eigu þeirra enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Vinna manna skv. 1. mgr. skal vera innt af hendi á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. ágúst 2022. Vinna manna skv. 2. mgr. skal vera innt af hendi á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 30. júní 2022. Gæta skal að ákvæðum um tímamörk útgáfu reiknings skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Vinna manna skv. 1. mgr. og a-d-liðum og f-lið 2. mgr. tekur jafnframt til vinnu við framkvæmdir við lóð húsnæðis, t.d. jarðvegslagnir umhverfis það, girðingar, bílskúra og garðhýsi á lóð. Hér undir falla eingöngu framkvæmdir er varða nærumhverfi húsnæðis sem standa í nánum tengslum við það og telja má eðlilegan þátt í byggingu, endurbótum eða viðhaldi þess og frágangi byggingarstaðar.

2. gr. Skilgreiningar/orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Annað húsnæði: Húsnæði í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, annað en íbúðar- og frístundahúsnæði. Um er að ræða hús, þ.e. byggingu með veggjum og þaki, eða hluta húss, sem er varanlega skeytt við land, er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og ætlað til nota í starfsemi aðila skv. 1. málsl., t.d. íþróttahús, áhaldahús eða vörugeymsla. Hér undir falla því ekki önnur mannvirki, s.s. skýli, umferðar- og göngubrýr, dreifi- og flutningskerfi veitufyrirtækja, útisvæði sundlauga og annarra íþróttamannvirkja, sem ekki teljast til húsnæðis.

Byggingarframkvæmdir: Framkvæmdir samkvæmt lögum nr. 160/2010, um mannvirki, á byggingarstað við byggingu, viðhald og endurbætur íbúðar- og frístundahúsnæðis og annars húsnæðis sem fellur undir ákvæði reglugerðar þessarar og frágang á byggingarstað.

Byggingarstaður: Hver sá verkstaður, s.s. byggingarlóð, þar sem framkvæmdir fara fram við byggingu, viðhald eða endurbætur á íbúðar- og frístundahúsnæði eða öðru húsnæði sem fellur undir ákvæði reglugerðar þessarar.

Byggjandi: Aðili sem stendur fyrir byggingarframkvæmdum á eigin kostnað, þ.e. hefur með höndum byggingarframkvæmdir á eigin lóð eða leigulóð, hvort sem hann hyggst selja húsnæði, leigja það eða taka til eigin nota.

Eftirlit: Eftirlit og skoðun sérfræðinga, t.a.m. byggingarstjóra, verkfræðinga, tæknifræðinga og annarra sambærilegra sérfræðinga, með byggingarframkvæmdum, endurbótum eða viðhaldi, jafnt við undirbúning framkvæmda, á verktíma þeirra eða við eftirfylgni.

Frístundahúsnæði: Húsnæði eins og það er skilgreint í 2. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.

Heimilisaðstoð: Öll þjónusta sem veitt er innan séreignar íbúðarhúsnæðis, svo sem ræsting, önnur þrif o.fl.

Hönnun: Undirbúningur fyrir eða samhliða byggingu, endurbótum eða viðhaldi á íbúðar- og frístundahúsnæði og öðru húsnæði sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra. Hér undir fellur t.a.m. kostnaður vegna hönnunar aðaluppdrátta eða séruppdrátta, sbr. 1. og 17. tölul. 3. gr., laga nr. 160/2010, um mannvirki, vinna arkitekta, verkfræðinga, tæknifræðinga og annarra sérfræðinga, þó ekki kostnaður við gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, eða önnur skipulagsvinna eða undirbúningur lands til byggingarframkvæmda.

Íbúðarhúsnæði: Húsnæði sem byggt er samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði. Í því felst að húsnæðið sé ætlað til samfelldrar notkunar á öllum árstíma, nýtt sem íbúðarhúsnæði og geti gengið kaupum og sölum sem slíkt.

Regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis:Þjónusta sem veitt er utan veggja séreignar íbúðareiganda eða leigjanda í eða við íbúðarhúsnæði, s.s. ræsting sameignar, garðsláttur, trjáklippingar eða önnur garðvinna og önnur regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis.

II. KAFLI Skilyrði fyrir endurgreiðslu o.fl.

3. gr. Almenn skilyrði.

Skilyrði endurgreiðslu skv. 1. og 2. mgr. 1. gr. eru eftirfarandi:

  1. Að umsækjandi hafi ekki heimild til að telja þann virðisaukaskatt, sem tilgreindur er á umsókn, til innskatts í virðisaukaskattsskyldri starfsemi sinni skv. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, og reglugerð, nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.
  2. Að seljandi þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

4. gr. Virðisaukaskattur sem telst ekki endurgreiðsluhæfur.

Virðisaukaskattur fæst ekki endurgreiddur af eftirtöldu:

  1. Vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði, og öðru húsnæði sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra.
  2. Vinnu við sameiginlegar framkvæmdir á skipulögðu svæði fyrir frístundabyggð, s.s. vegaframkvæmdir, lagningu girðingar umhverfis frístundabyggð o.fl. hliðstæðar framkvæmdir.
  3. Vinnu stjórnenda skráningarskyldra ökutækja, stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla, sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá, á byggingarstað.
  4. Vinnu sem unnin er á verkstæði.
  5. Vinnu sem unnin er með vélum sem settar eru upp á byggingarstað til aðvinnslu á vöru eða efni til byggingar, viðhalds eða endurbóta á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði, og öðru húsnæði sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra, ef þessi vinna er að jafnaði unnin á verkstæði eða í verksmiðju.
  6. Ástandsskoðun fasteigna, matsgerðum og gerð útboðsgagna.
  7. Gerð deiliskipulags.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

5. gr. Kæruleið.

Ákvörðun um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari er kæranleg til yfirskattanefndar skv. 2. mgr. 43. gr. A laga nr. 50/1988, sbr. lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Kærufrestur er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

6. gr.

Að öðru leyti en kveðið er á um í reglugerð þessari, s.s. um skilyrði og framkvæmd endurgreiðslu, endurgreiðslutímabil o.fl., gilda ákvæði reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, eftir því sem við á.

7. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XLV við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 1. mgr. 49. gr. sömu laga. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 25. mars 2022.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Hlynur Ingason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.