Prentað þann 22. nóv. 2024
334/2024
Reglugerð um loftslagsráð.
1. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að því að loftslagsráð sé starfrækt með skýrum og skilvirkum hætti og fulltrúar búi yfir þekkingu sem nýtist við ráðgefandi verkefni þess, í samræmi við 5. gr. b. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til hlutverks, starfa og skipan loftslagsráðs.
3. gr. Hlutverk loftslagsráðs.
Loftslagsráð skal veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum. Loftslagsráð skal gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum. Fulltrúar í loftslagsráði skulu einungis bundnir af eigin dómgreind.
Loftslagsráð setur sér starfsreglur.
4. gr. Skipan loftslagsráðs.
Ráðherra skipar formann og varaformann loftslagsráðs.
Á grundvelli tilnefninga frá atvinnulífinu, háskólasamfélaginu, sveitarfélögum og umhverfisverndarsamtökum skal ráðherra skipa fulltrúa til setu í loftslagsráði til fjögurra ára í senn.
Í loftslagsráði skulu eiga sæti að hámarki níu fulltrúar, að meðtöldum formanni og varaformanni. Ráðherra er heimilt að skipa aðra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu.
Við skipan fulltrúa í loftslagsráð skal hafa til hliðsjónar hæfniviðmið skv. 5. gr.
5. gr. Hæfni fulltrúa loftslagsráðs.
Stefnt skal að því að loftslagsráð sé skipað fulltrúum sem hafi þekkingu og reynslu á a.m.k. einum af eftirtöldum málaflokkum á sviði loftslagsmála og að ráðið sé þannig samsett að fullskipað búi það yfir þekkingu á öllum neðangreindum sviðum:
- Loftslagsrétti, stjórnsýslu og stefnumótun.
- Loftslagsvísindum, áhættugreiningum og náttúruvá.
- Skipulagi og landnýtingu.
- Hagrænum og samfélagslegum greiningum.
- Samfélagslegum breytingum og réttlátum umskiptum.
- Líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnishringrás lands og vistkerfisþjónustu.
- Nýsköpun og tækniþróun.
- Orkumálum í samhengi orkuskipta og kolefnishlutleysis.
6. gr. Vettvangur hagaðila og loftslagsráðs.
Loftslagsráð skal tryggja samtal hagaðila og ráðsins eigi sjaldnar en tvisvar á ári í gegnum samráðsvettvang sem starfrækja skal og vera á forræði loftslagsráðs. Ráðið ber ábyrgð á skilgreiningu vettvangsins og getur falið skrifstofu loftslagsráðs framkvæmd starfsemi hans.
Loftslagsráð skal fjalla um og bregðast við athugasemdum og ábendingum hagaðila eins fljótt og auðið er.
7. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 5. gr. b. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og öðlast þegar gildi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 14. mars 2024.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Stefán Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.