Prentað þann 21. nóv. 2024
270/2024
Reglugerð um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.
1. gr. Gildissvið.
Gildissvið reglugerðarinnar er nánar skilgreint í 2. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, sbr. þó 3. gr.
2. gr. Lögbær stjórnvöld.
Samgöngustofa er lögbært landsyfirvald samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Lögbær stjórnvöld samkvæmt reglugerðinni eru Samgöngustofa og Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins.
3. gr.
Aðlögun ákvæða reglugerðarinnar vegna landfræðilegrar legu Íslands,
sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2023.
Viðeigandi kröfur um rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu í reglugerðinni, framkvæmdargerðir og framseldar gerðir hennar, sem ráðast af ákvæðunum sem gilda um Evrópusvæði og/eða Afríku- og Indlandshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO EUR og AFI) ber að skilja svo að þau ákvæði taki ekki til Íslands þar sem Ísland heyrir undir svæðisbundin viðbótarákvæði Atlantshafssvæðis Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO NAT). Hið síðarnefnda geta talist viðunandi viðurkenndar aðferðir til að uppfylla kröfur (AMC) og leiðbeinandi efni (GM) fyrir Ísland.
Tilvísanir til rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu eða til annarra reglna ESB sem takmarkast af gildissviði við Evrópusvæði og Afríku- og Indlandshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO EUR og/eða AFI) í reglugerðinni eða í framkvæmdargerðum eða framseldum gerðum hennar, hafa ekki bindandi áhrif á Ísland, nema Ísland hafi tekið sérstaklega fram að slíkar reglur eigi að gilda um Ísland.
4. gr. Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1139 frá 4. júlí 2018 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 2111/2005, (EB) nr. 1008/2008, (ESB) nr. 996/2010, (ESB) nr. 376/2014 og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB og 2014/53/ESB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 og (EB) nr. 216/2008 og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2023 frá 28. apríl 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 186-307.
Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1087 frá 7. apríl 2021 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1139 að því er varðar uppfærslu tilvísana í ákvæði Chicago-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 139/2023 frá 28. apríl 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 1169-1170.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 2. gr., 3. mgr. 7. gr., 20. gr., 51. gr., 72. gr., 83. gr., 93. gr., 115. gr., 124. gr., 131. gr., 152. gr., 167. gr., 188. gr., 209. gr. og 3. mgr. 233. gr. laga um loftferðir nr. 80/2022 og öðlast þegar gildi.
Með þessari reglugerð fellur samhliða úr gildi reglugerð um sameiginlegar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, nr. 812/2012.
Innviðaráðuneytinu, 15. febrúar 2024.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Hermann Sæmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.