Fara beint í efnið

Prentað þann 5. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 1. sept. 2022

255/2019

Reglugerð um merkingar á umbúðum rafrettna og áfyllinga og efni upplýsingabæklings sem fylgja skal rafrettum og áfyllingum.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um merkingar á umbúðum rafrettna og áfyllinga og efni upplýsingabæklings sem fylgja skal slíkum vörum.

2. gr. Skilgreiningar.

  1. Áfylling: Ílát sem inniheldur nikótínvökva eða annan vökva sem ætlaður er til að fylla á rafrettur.
  2. Rafretta: Vara sem hægt er að nota til neyslu á gufu sem inniheldur nikótín, með munnstykki, eða einhver hluti þeirrar vöru, þ.m.t. hylki, tankur og búnaður án hylkis eða tanks. Rafrettur geta verið einnota eða fjölnota með áfyllingaríláti og tanki eða endurhlaðanlegar með einnota hylkjum.
  3. Viðvörunarmerkingar: Viðvörun um áhrif vöru á heilbrigði manna eða aðrar afleiðingar af notkun vörunnar, þ.m.t. viðvörunartexti, mynd- og textaviðvörunarmerkingar, almennar viðvaranir og upplýsingatexti.

II. KAFLI Viðvörunarmerkingar og aðrar merkingar.

3. gr. Viðvörunarmerkingar á umbúðum rafrettna og áfyllinga.

Viðvörunarmerkingar á umbúðum rafrettna og áfyllinga, skv. 5. gr., sem hvoru tveggja innihalda nikótín skal prenta með svörtu Helvetica-feitletri á hvítum grunni.

Merking skal vera í svörtum ramma, sem er 1 mm á breidd, inni á yfirborðsfletinum sem er frátekinn fyrir slíkar merkingar.

Viðvörunarmerking skal birtast á tveimur stærstu yfirborðshlutum hvers einingapakka og öllum ytri umbúðum vörunnar og þekja 30% af yfirborði einingapakka og allra ytri umbúða vörunnar.

4. gr. Texti viðvörunarmerkinga á umbúðum rafrettna og áfyllinga.

Texti viðvörunarmerkingar á umbúðir rafrettna og áfyllinga sem hvoru tveggja innihalda nikótín skal vera eftirfarandi: "Þessi vara inniheldur nikótín sem er mjög ávanabindandi efni. Ekki er mælt með notkun þess fyrir þá sem reykja ekki."

Texti viðvörunarmerkingar skal vera samsíða almennum texta á umbúðum.

5. gr. Umbúðir rafrettna og áfyllinga.

Á einingapökkum og öllum ytri umbúðum rafrettna og áfyllinga skal birta lista yfir öll innihaldsefni vörunnar í lækkandi röð eftir þyngd og upplýsingum um nikótíninnihald vörunnar og gjöf í hverjum skammti, lotunúmer og tilmæli um að varan sé geymd þar sem börn ná ekki til.

Umbúðir skulu ekki gefa í skyn að tilteknar vörur miði að því að draga úr áhrifum einhverra skaðlegra innihaldsefna í reyk.

Óheimilt er að hafa á umbúðum rafrettna og áfyllinga eitthvað sem gefur í skyn að varan hafi eiginleika sem geti aukið lífsþrótt eða orku eða hún hafi lækningamátt, hafi yngjandi eða náttúrulega eiginleika, sé lífræn eða hafi annan ávinning fyrir heilbrigði eða lífstíl.

Umbúðir skulu ekki líkjast matvælum eða snyrtivörum.

Á umbúðum skal ekkert koma fram sem gefur til kynna að tiltekin vara hafi aukinn lífbrjótanleika eða annan umhverfislegan ávinning.

6. gr. Upplýsingabæklingur.

Með pakkningum rafrettna og umbúðum áfyllinga skal fylgja bæklingur með upplýsingum á íslensku um eftirfarandi:

  1. Leiðbeiningar um notkun og geymslu vörunnar, þ.m.t. ráðlegging um að ekki sé mælt með vörunni til notkunar fyrir börn og þá sem ekki reykja.
  2. Frábendingar.
  3. Viðvaranir fyrir tiltekna áhættuhópa.
  4. Hugsanleg skaðleg áhrif.
  5. Ávanabindandi áhrif og eiturhrif.
  6. Hvernig sé hægt að hafa samband við framleiðanda eða innflytjanda og upplýsingar um lögaðila eða einstakling sem er tengiliður þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins.

7. gr. Fyrirmæli um viðvörunarmerkingar, umbúðir og upplýsingabækling.

Neytendastofu er heimilt, að undangengnu samráði við Umhverfisstofnun, að gefa út nánari fyrirmæli um viðvörunarmerkingar, merkingar á umbúðum og upplýsingabækling fyrir rafrettur og áfyllingar fyrir þær.

III. KAFLI Lagaheimild og gildistaka.

8. gr. Lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. júní 2019.

Bráðabirgðaákvæði.

Vörur sem hafa verið tilkynntar til Neytendastofu í samræmi við lög nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, og eru hér á markaði við gildistöku reglugerðar þessarar en eru ekki í samræmi við ákvæði hennar má selja til 1. september 2019. Að þeim tíma liðnum er sala vörunnar óheimil.

Heilbrigðisráðuneytinu, 28. febrúar 2019.

Svandís Svavarsdóttir.

Áslaug Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.