Prentað þann 24. nóv. 2024
254/2024
Reglugerð um söfnun meðmæla og skil framboða og framboðslista fyrir kosningar.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Markmið og gildissvið.
- II. KAFLI Meðmæli og fjöldi meðmælenda.
- 3. gr. Yfirlýsing um stuðning.
- 4. gr. Skilyrði þess að vera meðmælandi.
- 5. gr. Meðmæli með framboði í kosningum til Alþingis.
- 6. gr. Meðmæli með framboði í sveitarstjórnarkosningum.
- 7. gr. Meðmæli með framboði í forsetakjöri.
- 8. gr. Rafrænt meðmælendakerfi.
- 9. gr. Ábyrgðaraðilar á rafrænni söfnun meðmæla.
- 10. gr. Upphaf og lok rafrænnar söfnunar meðmæla og aðgangur að kerfinu.
- 11. gr. Meðmælum safnað á blaði.
- 12. gr. Afturköllun meðmæla.
- 13. gr. Gallar á meðmælasöfnun.
- 14. gr. Óheimil miðlun meðmælendalista og upplýsinga úr þeim.
- III. KAFLI Gerð og form framboða, skil þeirra o.fl.
- 15. gr. Auglýsing um móttöku framboða.
- 16. gr. Framboð til Alþingis.
- 17. gr. Framboð til forsetakjörs.
- 18. gr. Framboð til sveitarstjórna.
- 19. gr. Fjöldi frambjóðenda og upplýsingar um þá.
- 20. gr. Yfirlýsing frambjóðenda.
- 21. gr. Skil meðmæla.
- 22. gr. Umboðsmenn.
- 23. gr. Úthlutun listabókstafs í sveitarstjórnarkosningum.
- 24. gr. Mótmæli við framkominn framboðslista.
- IV. KAFLI Auglýsing framboða
- V. KAFLI Almenn atriði
I. KAFLI Markmið og gildissvið.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja samræmi á framsetningu framboða til forsetakjörs og framboðslistum sem boðnir eru fram í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, hér eftir nefnd framboð. Einnig að tryggja að söfnun meðmæla með framboðum fari fram á grundvelli skýrra reglna meðal annars um form söfnunar, meðferð persónuupplýsinga og um varðveislu og eyðingu þeirra upplýsinga sem safnað er.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um framboð í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna og við forsetakjör.
II. KAFLI Meðmæli og fjöldi meðmælenda.
3. gr. Yfirlýsing um stuðning.
Meðmæli eru yfirlýsing kjósanda um stuðning við tiltekið framboð.
Meðmæli geta verið gefin rafrænt eða með eiginhandarundirritun á blaði. Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga geta þó ákveðið í kosningum til sveitarstjórna að söfnun meðmæla fari einungis fram með eiginhandarundirritun á blaði. Þegar meðmælandi skráir meðmæli sín með tilteknu framboði skal hann tilgreina nafn sitt, kennitölu og lögheimili.
4. gr. Skilyrði þess að vera meðmælandi.
Meðmælandi skal hafa öðlast kosningarrétt á kjördag í þeim kosningum sem meðmæli hans taka til.
Hver kjósandi getur einungis mælt með einu framboði við sömu kosningar.
Frambjóðendur geta ekki verið meðmælendur eigin framboðs. Kjörstjórnarmenn í landskjörstjórn, yfirkjörstjórnum og umdæmiskjörstjórnum geta ekki vera meðmælendur framboðs.
5. gr. Meðmæli með framboði í kosningum til Alþingis.
Hverjum framboðslista sem skilað er til landskjörstjórnar við alþingiskosningar skal fylgja yfirlýsing um stuðning við listann og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er fram boðinn, frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki.
6. gr. Meðmæli með framboði í sveitarstjórnarkosningum.
Hverjum framboðslista sem skilað er til yfirkjörstjórnar sveitarfélags við kosningar til sveitarstjórnar, skal fylgja yfirlýsing um stuðning við listann og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er fram boðinn, frá kjósendum í hlutaðeigandi sveitarfélagi.
Ekki er gerð krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri. Hámarksfjöldi meðmælenda skal vera tvöfaldur tilskilinn lágmarksfjöldi. Lágmarksfjöldi meðmælenda skal vera sem hér segir:
í sveitarfélagi með 101-500 íbúa 10 meðmælendur,
í sveitarfélagi með 501-2.000 íbúa 20 meðmælendur,
í sveitarfélagi með 2.001-10.000 íbúa 40 meðmælendur,
í sveitarfélagi með 10.001-50.000 íbúa 80 meðmælendur,
í sveitarfélagi með 50.001 og fleiri íbúa 160 meðmælendur.
7. gr. Meðmæli með framboði í forsetakjöri.
Hverju framboði til forsetakjörs sem skilað er til landskjörstjórnar, skal fylgja yfirlýsing um stuðning við framboðið frá kjósendum í hlutaðeigandi landsfjórðungi. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1.500 kosningarbærra manna og mest 3.000 sem skiptist í hlutfalli við kjósendatölu úr landsfjórðungi hverjum.
Landskjörstjórn auglýsir forsetakjör eigi síðar en þremur mánuðum fyrir kjördag og tiltekur þá hámarks- og lágmarkstölu meðmælenda forsetaefnis úr hverjum landsfjórðungi í réttu hlutfalli við kjósendatölu þar.
8. gr. Rafrænt meðmælendakerfi.
Landskjörstjórn skal tryggja að unnt sé að safna meðmælum með framboðum í aðdraganda kosninga til Alþingis, sveitarstjórna og í forsetakjöri rafrænt. Í því skyni skal landskjörstjórn sjá til þess að til staðar sé rafrænt kerfi til söfnunar, skráningar og yfirferðar meðmæla.
Í rafræna meðmælendakerfinu geta kjósendur gefið yfirlýsingu um stuðning við framboð í hlutaðeigandi kjördæmi, landsfjórðungi eða sveitarfélagi. Í kerfinu er safnað upplýsingum um nafn meðmælanda, lögheimili hans og kennitölu og hvaða framboði viðkomandi mælir með.
Rafræn söfnun meðmæla fer fram á Ísland.is og skulu bæði þeir sem safna meðmælum og meðmælendur nota rafræn skilríki við innskráningu á Ísland.is.
9. gr. Ábyrgðaraðilar á rafrænni söfnun meðmæla.
Landskjörstjórn er ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað með notkun rafræna meðmælendakerfisins í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Kjósi yfirkjörstjórn sveitarfélags að nota rafræna meðmælendakerfið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga skulu landskjörstjórn og viðkomandi yfirkjörstjórn teljast sameiginlegir ábyrgðaraðilar í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hvað varðar söfnun og skráningu meðmæla í rafræna meðmælendakerfinu. Í þeim tilfellum skulu landskjörstjórn og yfirkjörstjórn gera með sér samkomulag um sameiginlega ábyrgð sem tekur til þeirra vinnsluaðgerða.
10. gr. Upphaf og lok rafrænnar söfnunar meðmæla og aðgangur að kerfinu.
Landskjörstjórn ákveður, í aðdraganda hverra kosninga, hvenær opnað verður fyrir rafræna söfnun meðmæla. Skal hún auglýsa ákvörðun þar um á vef sínum.
Landskjörstjórn og yfirkjörstjórn sveitarfélags ákveða hvenær rafrænni söfnun er lokað, en söfnun má í fyrsta lagi loka 48 stundum fyrir lok framboðsfrests.
Landskjörstjórn skal gefa út leiðbeiningar þar sem kemur fram hvernig stofna skal til rafrænnar söfnunar meðmæla.
Stofnandi söfnunarinnar hefur aðgang að rafræna meðmælendakerfinu og getur þar séð framgang söfnunarinnar og hverjir mæla með framboðinu. Stofnandi söfnunarinnar getur gefið öðrum heimild til að fylgjast með söfnuninni.
Landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir sveitarfélaga skulu hafa aðgang að meðmælendakerfinu í þeim tilgangi að kanna lögmæti meðmæla og til að færa inn þau meðmæli sem skilað hefur verið á blöðum.
Kjósandi sem mælt hefur með framboði getur séð meðmæli sín á Mínum síðum á Ísland.is.
11. gr. Meðmælum safnað á blaði.
Kjósendur geta undirritað eigin hendi yfirlýsingu á blaði, um stuðning við tiltekið framboð í hlutaðeigandi kjördæmi, landsfjórðungi eða sveitarfélagi. Þar skal koma fram með skýrum hætti að kjósandi lýsi yfir stuðningi við það framboð sem tilgreint er á blaðinu og hann skal sjálfur rita þar nafn sitt, kennitölu og lögheimili.
Á hverri blaðsíðu meðmælendalistans skal skýrt og greinilega koma fram:
- Heiti framboðs.
- Kjördagur og tegund kosningar.
- Listabókstafur framboðslista og það kjördæmi sem listinn er fram boðinn þegar um alþingiskosningar er að ræða.
- Heiti sveitarfélags þar sem listinn er fram boðinn þegar um sveitarstjórnarkosningar er að ræða.
- Landsfjórðungur sem söfnunin tekur til í forsetakjöri.
- Að skráðum upplýsingum verði miðlað til landskjörstjórnar eða eftir atvikum yfirkjörstjórnar sveitarfélags og að upplýsingar um vinnslu þeirra á persónuupplýsingum meðmælanda megi finna í persónuverndarstefnum þessara aðila.
Meðmælendalistinn skal vera með hlaupandi blaðsíðunúmeri og að hámarki 20 undirskriftir meðmælenda á hverri blaðsíðu.
Landskjörstjórn birtir á vef sínum sýnishorn af eyðublöðum til söfnunar meðmæla.
Landskjörstjórn og yfirkjörstjórn sveitarfélaga, geta óskað eftir því að meðmælendalistum sem skilað er á blöðum sé jafnframt skilað í töflureikni.
12. gr. Afturköllun meðmæla.
Sá sem lýst hefur yfir stuðningi við framboð getur afturkallað meðmæli sín meðan á söfnun stendur og þar til framboð hefur verið afhent landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn sveitarfélags.
13. gr. Gallar á meðmælasöfnun.
Verði landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn sveitarfélags vör við galla á meðmælasöfnun, s.s. að tilskildum fjölda meðmæla sé ekki náð skal umboðsmanni framboðs gefinn kostur á að bæta úr og veittur frestur í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa. Við slíkar aðstæður er landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn sveitarfélags heimilt að opna á ný fyrir rafræna söfnun meðmæla hlutaðeigandi framboðs í viðkomandi kjördæmi, landsfjórðungi eða sveitarfélagi.
14. gr. Óheimil miðlun meðmælendalista og upplýsinga úr þeim.
Þeim sem aðgang hafa að meðmælendalistum, hvort sem þeir eru rafrænir eða á blöðum, er óheimilt að miðla listunum eða upplýsingum úr þeim til annarra en þeirra sem þann rétt eiga samkvæmt kosningalögum og reglugerð þessari.
Meðmæli sem safnað er til stuðnings framboði má ekki nota í öðrum tilgangi.
III. KAFLI Gerð og form framboða, skil þeirra o.fl.
15. gr. Auglýsing um móttöku framboða.
Við alþingiskosningar og forsetakjör skal landskjörstjórn auglýsa tímanlega hvar og hvenær hún tekur við framboðum. Auglýsinguna skal birta á vef landskjörstjórnar og víðar telji hún ástæðu til.
Við sveitarstjórnarkosningar skal yfirkjörstjórn sveitarfélags auglýsa tímanlega hvar og hvenær hún tekur við framboðum. Auglýsinguna skal birta á vef sveitarfélagsins og víðar telji yfirkjörstjórn ástæðu til.
16. gr. Framboð til Alþingis.
Tilkynningu um framboð skal skila til landskjörstjórnar á þeim stað og tíma sem auglýstur er, sbr. 1. mgr. 15. gr., eða rafrænt eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag.
Þegar alþingiskosningar fara fram eftir tilkynningu um þingrof skal tilkynningu um framboð skilað til landskjörstjórnar á þeim stað og tíma sem auglýstur er eða rafrænt, eigi síðar en kl. 12 á hádegi 30 dögum fyrir kjördag.
Tilkynning um framboð getur verið undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Sé tilkynning undirrituð rafrænt skal hún send með rafrænum hætti til landskjörstjórnar.
Landskjörstjórn staðfestir móttöku tilkynninga hvort sem þeim er skilað á blöðum eða rafrænt.
Eftirtalin gögn skulu fylgja tilkynningu um framboð:
- Upplýsingar um heiti stjórnmálasamtaka og listabókstaf þeirra, samkvæmt skrá ráðuneytisins, sbr. lög um starfsemi stjórnmálasamtaka.
- Framboðslisti viðkomandi stjórnmálasamtaka, sbr. 19. gr.
- Yfirlýsingar allra þeirra sem á framboðslistanum eru um að þeir hafi tekið sæti á listanum, sbr. 20. gr.
- Meðmæli með framboðslistanum, sbr. 21. gr.
- Upplýsingar um hverjir séu umboðsmenn listans, sbr. 22. gr.
Landskjörstjórn birtir á vef sínum sýnishorn af tilkynningu um framboð.
17. gr. Framboð til forsetakjörs.
Tilkynningu um framboð skal skila til landskjörstjórnar á þeim stað og tíma sem auglýstur er, sbr. 1. mgr. 15. gr., eða rafrænt, eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag. Í tilkynningunni skal tilgreina fullt nafn forsetaefnis eins og það er skráð í þjóðskrá, kennitölu og lögheimili.
Tilkynning um framboð getur verið undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Sé tilkynning undirrituð rafrænt skal hún send með rafrænum hætti til landskjörstjórnar.
Landskjörstjórn staðfestir móttöku tilkynninga hvort sem þeim er skilað á blöðum eða rafrænt.
Eftirtalin gögn skulu fylgja tilkynningu um framboð:
- Samþykki forsetaefnis, sbr. 20. gr.
- Meðmæli með forsetaframboði, sbr. 21. gr.
- Upplýsingar um hverjir séu umboðsmenn framboðsins, sbr. 22. gr.
Landskjörstjórn birtir á vef sínum sýnishorn af tilkynningu um framboð.
18. gr. Framboð til sveitarstjórna.
Tilkynningu um framboð skal skila til yfirkjörstjórnar sveitarfélags á þeim stað og tíma sem auglýstur er, sbr. 2. mgr. 15. gr., eða rafrænt en þó eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag.
Tilkynning um framboð getur verið undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Sé tilkynning undirrituð rafrænt skal hún send með rafrænum hætti til yfirkjörstjórnar.
Yfirkjörstjórn staðfestir móttöku tilkynninga hvort sem þeim er skilað á blöðum eða rafrænt.
Eftirtalin gögn skulu fylgja tilkynningu um framboð:
- Upplýsingar um heiti stjórnmálasamtakanna og listabókstaf þeirra, samkvæmt skrá ráðuneytisins, sbr. lög um starfsemi stjórnmálasamtaka, eða þegar um stjórnmálasamtök er að ræða sem ekki hafa skráðan listabókstaf, beiðni til yfirkjörstjórnar um úthlutun listabókstafs, sbr. 23. gr.
- Framboðslisti viðkomandi stjórnmálasamtaka, sbr. 19. gr.
- Yfirlýsingar allra þeirra sem á framboðslistanum eru um að þeir hafi tekið sæti á listanum, sbr. 20. gr.
- Meðmæli með framboðslistanum, sbr. 21. gr.
- Upplýsingar um hverjir séu umboðsmenn listans, sbr. 22. gr.
Landskjörstjórn birtir á vef sínum sýnishorn af tilkynningu um framboð.
19. gr. Fjöldi frambjóðenda og upplýsingar um þá.
Á framboðslista skulu vera a.m.k. jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á í hvert skipti, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn sveitarfélaga skulu nema burt af framboðslista nöfn öftustu frambjóðenda sem eru fram yfir hámarkstölu.
Við sömu kosningar má enginn bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum.
Á framboðslista skal tilgreina skýrlega nafn og kennitölu frambjóðanda, lögheimili og stöðu eða starfsheiti.
Nöfn frambjóðenda skulu rituð að lágmarki með einu eiginnafni og kenninafni eins og þau birtast í þjóðskrá. Óski frambjóðandi eftir annarri ritun nafns á framboðslistann er honum það heimilt, enda séu þau nöfn skráð í þjóðskrá. Frambjóðanda er þó heimilt að rita eiginnafn eða eiginnöfn sín á annan veg en skráð er í þjóðskrá ef hann er kunnur af þeirri notkun eiginnafns eða eiginnafna.
Hafi frambjóðandi fleiri en eitt eiginnafn, millinafn eða kenninafn er honum heimilt að stytta þau með því að nota upphafsstaf eða styttri rithátt, svo framarlega sem uppfyllt sé skilyrði 1. málsliðar 4. mgr.
Staða eða starfsheiti frambjóðanda skal ekki vera andstætt velsæmi og vera á íslensku.
Framboðslista skal að jafnaði skila á formi sem landskjörstjórn lætur í té og unnt er að nálgast á vef hennar.
20. gr. Yfirlýsing frambjóðenda.
Frambjóðendur skulu lýsa því yfir að þeir hafi heimilað að setja nöfn sín á tiltekið framboð. Yfirlýsingin getur verið undirrituð með fullgildri rafrænni undirskrift eða með eigin hendi.
Ef yfirlýsingin er undirrituð með rafrænum hætti skal hún send rafrænt. Æskilegt er að sem flestar rafrænar undirritanir séu á sama skjalinu.
Landskjörstjórn birtir á vef sínum sýnishorn af yfirlýsingu skv. 1. mgr.
Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út og skal landskjörstjórn þá eyða yfirlýsingunni.
21. gr. Skil meðmæla.
Í tilkynningu um framboð skal þess getið sérstaklega hafi meðmælum verið safnað rafrænt. Ef meðmælum hefur verið safnað á blöðum skal afhenda landskjörstjórn frumrit þeirra.
22. gr. Umboðsmenn.
Þegar framboð er tilkynnt til landskjörstjórnar eða yfirkjörstjórnar sveitarfélags skal jafnframt tilkynnt hverjir séu umboðsmenn framboða.
Upplýsingar um nafn, fæðingardag, netfang og símanúmer umboðsmanns skal fylgja tilkynningunni ásamt skriflegu samþykki hans. Samþykkið getur verið undirritað eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift.
Landskjörstjórn birtir á vef sínum sýnishorn af tilkynningu um umboðsmenn.
23. gr. Úthlutun listabókstafs í sveitarstjórnarkosningum.
Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf samkvæmt skrá ráðuneytisins um listabókstafi og heiti stjórnmálasamtaka, skv. lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, bjóða fram lista í kosningum til sveitarstjórna skulu þau um leið og framboðslista er skilað til yfirkjörstjórnar leggja þar fram beiðni um úthlutun listabókstafs og staðfestingu á heiti framboðs.
Yfirkjörstjórn skal við ákvörðun listabókstafs hafa hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka samkvæmt skrá ráðuneytisins, sbr. 1. mgr. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka skal ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem þegar eru á skránni. Telji yfirkjörstjórn að svo sé skal það tilkynnt samtökunum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að bæta úr. Óski tvö eða fleiri framboð eftir úthlutun sama listabókstafs skal það framboð hafa forgang sem fyrr skilaði inn framboði sínu. Þeim lista sem ekki hlýtur umbeðinn listabókstaf skal þegar í stað gert kleift að óska eftir nýjum bókstaf.
Komi ekki fram ný beiðni skal yfirkjörstjórn merkja listana í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni og við á.
24. gr. Mótmæli við framkominn framboðslista.
Ef sá sem ákveður framboðslista eða staðfestir hann endanlega, samkvæmt reglum stjórnmálasamtaka, ber fram mótmæli gegn því að listi sé boðinn fram fyrir þau samtök telst slíkur framboðslisti ekki vera boðinn fram á vegum þeirra.
IV. KAFLI Auglýsing framboða
25. gr. Auglýsing framboða í alþingiskosningum.
Þegar niðurstaða liggur fyrir um gildi framboðslista við alþingiskosningar skal landskjörstjórn auglýsa listana í Lögbirtingablaði, á vef sínum og í fjölmiðlum eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag. Fari alþingiskosningar fram eftir tilkynningu um þingrof skal auglýst eigi síðar en 24 dögum fyrir kjördag. Í auglýsingu skal framboðslistum raðað í stafrófsröð eftir listabókstaf.
Í auglýsingu landskjörstjórnar skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Heiti stjórnmálasamtaka sem bjóða fram listann og listabókstafur þeirra.
- Nöfn frambjóðenda hvers lista, sbr. 19. gr., í réttri röð.
- Kennitala frambjóðenda.
- Lögheimili frambjóðenda, eins og það er skráð í þjóðskrá og birt í kjörskrá. Lögheimili skal rita í þágufalli. Ekki skal tilgreina póstnúmer.
- Staða eða starfsheiti frambjóðenda, sbr. 19. gr.
26. gr. Auglýsing framboða við forsetakjör.
Þegar niðurstaða liggur fyrir um gildi framboða skal landskjörstjórn auglýsa þau í Lögbirtingablaði, á vef sínum og í fjölmiðlum eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag. Í auglýsingu skal frambjóðendum raðað í stafrófsröð.
27. gr. Auglýsing framboða við sveitarstjórnarkosningar.
Þegar niðurstaða yfirkjörstjórnar sveitarfélags liggur fyrir um gildi framboðslista við sveitarstjórnarkosningar skal hún auglýsa framboðslistana á vef sveitarfélagsins og víðar ákveði hún svo, eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag. Í auglýsingu skal framboðslistum raðað í stafrófsröð eftir listabókstaf.
Í auglýsingu yfirkjörstjórnar skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Heiti stjórnmálasamtaka sem bjóða fram listann og listabókstafur þeirra.
- Nöfn frambjóðenda hvers lista, sbr. 19. gr., í réttri röð.
- Kennitala frambjóðenda.
- Lögheimili frambjóðenda, eins og það er skráð í þjóðskrá og birt í kjörskrá. Lögheimili skal rita í þágufalli. Ekki skal tilgreina póstnúmer.
- Staða eða starfsheiti frambjóðenda, sbr. 19. gr.
Nú fer fram óbundin kosning til sveitarstjórnar, framboðsfrestur er framlengdur samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 46. gr. kosningalaga eða maður skorast undan endurkjöri skv. 5. mgr. 49. gr. sömu laga og skal þá yfirkjörstjórn sveitarfélags auglýsa það með sama hætti og framboð skv. 1. mgr.
V. KAFLI Almenn atriði
28. gr. Fullgild rafræn undirskrift.
Fullgild rafræn undirskrift er útfærð rafræn undirskrift sem er mynduð með fullgildum rafrænum undirskriftarbúnaði og studd fullgildu vottorði fyrir rafrænar undirskriftir. Fullgild rafræn undirskrift hefur sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift.
29. gr. Heimild til að samkeyra og sannreyna upplýsingar.
Þjóðskrá Íslands er heimilt, að beiðni landskjörstjórnar eða yfirkjörstjórnar sveitarfélags, að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalistum við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og kanna hvort skilyrðum sé fullnægt um að viðkomandi sé kosningarbær.
Heimildin nær bæði til rafrænnar söfnunar sem og söfnunar á blöðum.
Landskjörstjórn og yfirkjörstjórn sveitarfélags er heimilt að sannreyna með samanburði við þjóðskrá upplýsingar um frambjóðendur. Einnig er þeim heimilt að samkeyra upplýsingar um frambjóðendur og kjörstjórnarmenn við meðmælendalista í þeim tilgangi að athuga hvort þeir séu meðmælendur framboða, að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
30. gr. Meðferð persónuupplýsinga.
Við vinnslu upplýsinga við söfnun, skráningu og yfirferð meðmæla og framboða skal gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga með hliðsjón af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
31. gr. Varðveisla og eyðing gagna.
Landskjörstjórn skal, þegar ár er liðið frá kosningum til Alþingis og frá forsetakjöri sjá til þess að meðmælendalistum, bæði rafrænum og á blöðum, verði eytt nema fram komi kæra eða dómsmál höfðað þar sem meðmælendalistar kunna að hafa gildi. Skal eyðing þá ekki fara fram fyrr en niðurstaða er fengin. Það sama á við um yfirkjörstjórnir sveitarfélaga við kosningar til sveitarstjórna.
Landskjörstjórn og yfirkjörstjórn sveitarfélaga skulu að afloknum kosningum sjá til þess að meðferð gagna og upplýsinga um framboð sé í samræmi við lög um opinber skjalasöfn og fullnægi skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
32. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. og 2. mgr. 41. gr. og 1. mgr. 47. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla á brott reglugerð um rafræna söfnun meðmæla með forsetaefni, meðferð þeirra, varðveislu og eyðingu nr. 341/2020, reglugerð um söfnun meðmæla við kosningar til Alþingis o.fl. nr. 848/2021 og reglugerð um framboð og meðmæli við sveitarstjórnarkosningar nr. 330/2022.
Dómsmálaráðuneytinu, 28. febrúar 2024.
F. h. r.
Haukur Guðmundsson.
Bryndís Helgadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.